16.3.2007 | 20:31
Vitinn og álrisinn
Ég ólst upp á Álfaskeiði 18. Þaðan er tveggja mínútna gangur að vitanum efst við Vitastíg sem er tákn Hafnarfjarðar. Þetta var okkar leiksvæði og síðar átti karl faðir minn eftir að útfæra vitann sem einkennismerki Hafnarfjarðar. Mér hefur því alltaf verið hlýtt til þessarar byggingar, enda í mínum huga hafnfirskari en sjálfur gaflarinn.
Í dag barst inn um bréfalúguna glæsilegur litprentaður bæklingur frá Alcan og prýddi vitinn forsíðu hans. Mér var brugðið. Undanfarna daga hafa birst heilsíðu auglýsingar í helstu blöðum landsmanna og drjúgt pláss einnig verið undir slíkar auglýsingar í bæjarblöðunum. Sól í Straumi hefur verið með lítinn borða í bæjarblöðunum. Þarna er stórkapítalið að reyna að kaupa bæjarbúa til liðs við sig í kosningum sem eiga að heita lýðræðislegar. Það er ekkert lýðræðislegt við þessi vinnubrögð.
Í vetur voru sett ný lög um fjármál stjórnmálaflokkanna þar sem kveðið er á um að einstök fyrirtæki geti einungis veitt takmörkuðu fé í kosningasjóði flokkanna. Varðandi kosninguna um stækkun álversins gilda hins vegar engar reglur. Sjóðir Alcan eru ótæmandi. Almenningsálitið hlýtur að vera falt og við greiðum það sem þarf til að snúa því okkur í hag hugsa ráðamenn þar.
Á sama tíma berast fréttir af því að Alcan sé með innri kosningavef fyrir starfsmenn og áróðursmeistara sína þar sem ótæpilega er safnað upplýsingum um afstöðu bæjarbúa til stækkunarinnar, á nöfnum, símanúmerum og vafalítið kennitölum. Persónuvernd hefur þennan kosningavef til skoðunar hjá sér.
Þetta er farið að minna óhugnanlega mikið á United Fruit Company, bananalýðræðið. Eða framferði olíufyrirtækja í þriðja heiminum. Hafnfirðingar þurfa síst á slíku að halda. Vitinn mun lýsa okkur inn í sólbjarta framtíð án stærsta álskrímslis Evrópu í garðshorninu hjá okkur.
Athugasemdir
Og í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Rósu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að henni finnist persónunjósnir álrisans "heldur sakleysislegar". Álrisinn með árstekjur upp á litlar 20 þúsund milljón dollara sé "bara" að berjast fyrir framtíð sinni.
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 10:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.