14.3.2007 | 22:33
Verndarinn í hrauninu fyrir sunnan byggð
Það er vart hægt að hreyfa sig í Hafnarfirði þessa dagana án þess að vera minntur á verndarann í hrauninu rétt fyrir sunnan byggð. Álrisinn minnir á sig. Allsstaðar blasa við skilti og fánar með merki bræðslunnar. Á jarðhæðinni í Firði fyrir framan bankann og ríkið er stórt skilti sem vísar fólki upp á næstu hæð fyrir ofan þar sem er glæsileg kosningaaðstaða fyrir alþjóðarisann og er ekkert til sparað. Peningar skipta ekki máli. Það þarf að minna bæjarbúa á hversu örlátt þetta fyrirtæki hefur verið í þeirra garð.
Nokkuð oft tek ég að mér að sækja dótturdóttur mína á leikskólann sem er við golfvöllinn á Hvaleyri. Í dag brá svo við að fáni Alcan blakti þar á stöng. Sennilega hefur álbræðslan verið að styrkja golfklúbbinn Keili. Þeir hafa einnig verið að minna bæjarbúa á stuðning sinn við önnur íþróttafélög í bænum. Alcan er hér og þar og allsstaðar í firðinum og við skulum ekki gleyma því hvað við eigum þeim að þakka.
Mér var sagt að auglýsingastofan sem sér um kosningaáróður fyrir Alcan sé ekki bundin neinni fjárhagsáætlun. Kosningasigur 31. mars má kosta það sem hann þarf. Auglýsingar í dagblöðum og bæjarblöðunum, leigupennar sem fjalla ekki á málefnalegan hátt um stækkunina heldur hamra nú á því að kosningarnar fjalli ekki um stækkun heldur lokun álversins. Það er von að andstæðingar stækkunar séu uggandi. Ég óttast að asninn gullklyfjaði komist yfir bæjarmúrinn, sagði Kristján Bersi við mig á opnunarhátíð kosningamiðstöðvar Sólar í Straumi sl. sunnudag. Þar er fyrst og fremst unnið hugsjónastarf. Frjáls framlög félagsmanna kosta kosningabaráttuna að mestu leyti. Vonast er eftir hálfrar milljón króna útgáfustyrk frá bæjaryfirvöldum, álíka upphæð og Alcan eyðir í baráttuna fyrir hádegi á einum degi. Þetta er ekki jafn leikur.
Um daginn barst bæklingur frá bæjaryfirvöldum um stækkunina til bæjarbúa. Ég trúði því vart að félagi Lúðvík Geirsson, fyrrverandi formaður Blaðamannafélagsins, legði blessun sína yfir svo óaðlaðandi og óaðgengilegan bækling. Sjálfsagt er ekki hægt að væna útgefanda um að reka áróður fyrir annan hvorn aðilann. Allt mjög óhlutdrægt. En hver nennir að lesa þetta. Það var eins og gamla kanselíið hefði séð um útgáfuna. Hvar var blaðamaðurinn í þér Lúlli þegar þú leist á afkvæmið?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.