Baðstofumenningin er horfin

Ég skrifaði í gær um reynslu mína sem nýbúa í Svíþjóð um miðjan áttunda áratuginn. Tilefni þeirra skrifa voru skoðanaskipti Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Eiríks Bergmann í Silfri Egils. Hugnaðist mér þar lítt málflutningur Magnúsar Þórs enda í mínum huga litaður af andúð í garð innflytjenda, einkum þeirra sem eru langt að komnir.

  

Magnús Þór mætti svo í fréttir Sjónvarpsins í kvöld ásamt Jóni Magnússyni lögmanni til að kynna framboðslista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, en þeir skipa þar sínhvort efsta sætið. Þar staðfestu þeir að málefni innflytjenda verða höfuð mál þeirra í komandi kosningum og enn og aftur grillti í að flokkurinn ætlar að ala á andúðinni og hræðslunni gegn nýbúum. „Við gerum þá kröfu að íslensk stjórnvöld hafi stjórn á íslensku landamærunum, að við náum þeirri stjórn og að það sé útilokað að við þurfum að taka við hverjum sem er,“ sagði Jón Magnússon í fréttinni.

Haft var eftir Magnúsi Þór að ástandið hér væri svipað og í nágrannalöndunum fyrir nokkrum árum og að hér væri nú fjöldi erlendra verkamanna sem íhugaði að flytja hingað fjölskyldur sínar og að íslenskt samfélag væri ekki reiðubúið undir það. Síðan bætti Jón við að þeir vildu taka til endurskoðunar aðild okkar að Schengen því það væri skoðun Frjálslyndra að íslensk stjórnvöld ættu á hverjum tíma að hafa fulla stjórn á landamærunum. „Og við eigum að hafa fulla stjórn á því hverjum við bjóðum í heimsókn og hverjum við bjóðum hér til dvalar.“

  

Eitthvað hljómaði þetta kunnuglega, eins og endurvarp frá ákveðnum ríkjum í Evrópu á fjórða áratug síðustu aldar.

  

Í Kastljósi eftir fréttir var sagt frá tveimur einstaklingum sem var vísað frá Íslandi vegna nýrra útlendingalaga. Báðir mennirnir voru kvæntir íslenskum konum en höfðu ekki náð 24 ára aldri, en samkvæmt nýju lögunum þurftu einstaklingar utan EES- svæðisins sem kvæntust íslenskum konum að hafa náð þeim aldri til að fá landvistarleyfi hér á landi. Annar var frá Úkraínu en hinn frá Jórdaníu og var rætt við hann og eiginkonu hans um þessa upplifun. Í þættinum kom fram að þetta lagaákvæði bryti flest ef ekki öll mannréttindaákvæði sem Íslendingar eru aðilar að. Engu að síður lagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ofuráherslu á þetta ákvæði þrátt fyrir mikla og almenna andstöðu við það. Þetta átti víst að koma í veg fyrir málamyndahjúskap. Samt var bakgrunnur þessara hjónabanda ekkert kannaður, því ef svo hefði verið hefði komið í ljós að þar var það ástin sem réð för og ekkert annað.

  

Umboðsmaður alþingis kvað upp úrskurð um að ýmislegt athugunarvert væri við þá stjórnsýslu sem fram fór hjá ráðuneytinu og útlendingastofnun í þessum málum. Í framhaldi af því féllst utanríkisráðuneytið á allar kröfur hjónanna tveggja sem höfðu þurft að líða fyrir þessa mannfjandlegu afstöðu löggjafans og framkvæmdina á lagabókstafnum.

Við eigum að sýna umburðalyndi og taka opnum örmum á móti þeim einstaklingum sem vilja setjast hér að. Íslendingar eiga ekki Ísland. Landið á sig sjálft og fóstrar okkur sem hér viljum búa. Íslendingar eru ekki hreinn kynstofn frekar en nein önnur þjóð. Við erum afkomendur fólks alls staðar að sem hefur kosið að setjast hér að og borið með sér siði og venjur hingað. Og svo verður áfram. Baðstofumenning 19. aldar er ekki lengur við líði. Við eigum sögur af henni, bæði góðar og slæmar, en sá auðugi menningarheimur sem ríkir hér í dag ber keim af öllum heiminum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Algjörlega sammála þér. Ég er þannig gerður að ég vil taka vel á móti þeim sem vilja hingað koma. Ég er ekki haldinn neinum fordómum í þeirra garð fyrirfram og þoli ekki að sjá slíkt, að slíkt komi m.a. frá forystumönnum íslensks stjórnmálaflokks er ömurlegt að sjá með svona áberandi hætti. Auðvitað er alltaf misjafn sauður einhversstaðar í stórum hóp, en við eigum að gefa fólki tækifæri. Líst ekki vel á það sem frá þeim fóstbræðrum Magnúsi og Jóni kemur. Segi það bara alveg hreint út.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.3.2007 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband