12.3.2007 | 18:30
Þegar ég gerðist nýbúi
Síðsumar 1975 fluttum við hjónin til Svíþjóðar. Þá kynntist ég því hvernig það er að vera mállaus nýbúi í ókunnu landi. Ég barðist í gegnum atvinnuauglýsingar blaðanna og skildi sumt sökum dönskulærdóms í framhaldsskólum en annað ekki. Ég skildi t.d. ekki hversvegna fjöldi auglýsinga um hraðskautahlaupara væri á hverjum degi í blöðunum. Bölvaði sjálfum mér í hljóði að hafa ekki lagt meiri áherslu á skautahlaup. Hafði einhvern tíman heyrt að íshokkí væri þjóðaríþrótt Svía og það væri sennilega ástæðan fyrir þessari eftirspurn eftir fótfimum skautamönnum. Fastighetsskötare önskast. Þegar ég fór að spyrja út í þetta var mér sagt að þarna væri verið að auglýsa eftir umsjónamönnum fasteigna, húsvörðum.
Dag eftir dag í tvær vikur ferðaðist ég með strætisvögnum og lestum á hina og þessa vinnustaði til að sækja um auglýst störf en ekkert gekk. Þá hafði ég samband við opinbera vinnumiðlun í nágrenninu og var þá tafarlaust settur á sænskunámskeið sem greitt var alfarið af sveitarfélaginu. Jafnframt var mér veitt aðstoð við að sækja um störf og fór svo að lokum að ég fékk vinnu í tunnuverksmiðju og starfaði þar við færibandið allan veturinn. Þarna voru framleiddar olíutunnur og voru nær eingöngu innflytjendur við framleiðsluna en yfirmennirnir voru Svíar.
Þetta var góður vinnustaður þótt starfið væri fábreytt. Þarna voru Tyrkir, Júgóslavar og Finnar í miklum meirihluta en auk þess einn Dani og Íslendingurinn ég. Þetta var að mörgu leyti framandi umhverfi. Í hádeginu breiddu Tyrkirnir teppi á gólfið, krupu á það með talnabönd og snéru höfðinu í átt til Mekka. Þótt tungumálakunnáttan hamlaði að einhverju leyti tjáskipti gátu þessir ólíku hópar skipst á skoðunum um það sem skipti máli. Þetta var því bæði lærdómsríkur og skemmtilegur vetur enda opnaðist ný sýn fyrir sveitamanninn frá Íslandi á fjölbreytileika ólíkra menningarheima.
Því er ég að rifja þetta upp að ég hlustaði á þá Eirík Bergmann og Magnús Þór Hafsteinsson skiptast á skoðunum um stefnuna í nýbúamálum. Magnús Þór var enn við sama heygarðshornið að flokka hverjir megi koma hingað og hverjir ekki og ég óttast að þessi málflutningur muni ágerast hjá Frjálslyndum þegar nær dregur kosningum og þar með muni þeir mála sig út í horn og ekki verða stjórntækir að loknum kosningum.
Málflutningur Eiríks Bergmann var hins vegar mjög áhugaverður. Benti hann ekki bara á hinn menningarlega ábata íslensku þjóðarinnar af þessu fólki heldur einnig þann gríðarlega efnahagslega ábata sem hver einasta fjölskylda í landinu hefur haft af framlagi fólksins. Það sem hins vegar hefur vantað hér er öflugt framlag okkar sjálfra við að taka vel á móti þessu fólki og fræða það skipulega um íslenskt þjóðfélag og auðvelda þeim þannig að aðlagast íslensku samfélagi auk þess að bjóða þeim upp á ókeypis íslenskukennslu. Við skuldum þeim þetta.
Athugasemdir
Góður pistill. Vissulega auðgar það mannlífið að hafa hér öflugt samfélag fólks af mismunandi uppruna. Því fjölbreyttari því betra. En það mun náttúrulega líka grafa undan íslenska þjóðríkinu... kannski stefnir allt aftur í að við lítum ekki á okkur sem neitt sérstakan samstæðan hóp erum frekar Evrópubúar. Ég hugsa að á minni ævi verði íslenskan ennþá vinnumál flestra en ég held að það verði ekki í framtíðinni. íslenskan verður svona sparimál sem við tölum heima við og þegar við erum að nostalgíast í sumarbústaðasumarlandinu en við verðum öll orðin alþjóðavædd í vinnunni og fælum allt á engilsaxnesku.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.3.2007 kl. 02:59
Gott innlegg hjá þér.
Ég hef einnig upplifað það að vera nýbúi í Svíþjóð ásamt fjölskyldu minni. Svíarnir tóku okkur opnum örmum og voru mjög hjálpsamir og ákaflega kurteisir. Að vísu naut maður vissra forréttinda fyrir það eitt, að vera frá Íslandi. Eitt sinn var ég á námskeiði neð nokkrum Svíum og viti men, þeir voru óvanalega þumbaralegir og aldrei þessu vant spurðu þeir mig ekkert um gamla góða Ísland. Voru næstum ókurteisir. Þegar leið á námskeiðið spurði einn Svíanna mig hvaðan ég kæmi, hann áttaði sig ekki á hreimnum. Ég sagði honum að ég væri frá Íslandi. "Frá Íslandi?". "Ég hélt allan tímann að þú værir frá Eistlandi!".
Eftir þetta samtal, sem allir heyrðu, var mér tekið sem einum úr hópnum. Svona getur þetta verið.
Júlíus Valsson, 13.3.2007 kl. 09:16
Gott innlegg. Væri gaman að gera lauslega könnun á því hve margir alþingismenn hafa búið í útlöndum og þá á ég við ekki sem námsmenn heldur tekið þátt í hinu raunverulega daglega lífi, því sem námsmaður eru menn í frekar vernduðu umhverfi. Það kennir okkur mikið að prófa að vera annars flokks þjóðfélagsþegn þ.e.s. búa í öðru landi en íslandi og gefur okkur mun meiri skilning á nýbúum okkar lands. Hef sjálf búið og starfað í 3 löndum utan íslands og vildi sjá sem flesta íslendinga gera það til að víkka sjóndeildarhringinn og umræðuna um nýbúa.
Ina, 13.3.2007 kl. 10:41
Takk fyrir góðan pistill.Mannlífið verður auðugra.
María Anna P Kristjánsdóttir, 13.3.2007 kl. 14:56
Komið þið sæl, Sigurður; og þið öll !
Hvaða helvítis slepja er þetta, gott fólk ? Viljið þið fá trúbræður arabísku drullusokkanna, suður í Darfur, í Vestur- Súdan; hér inn á gafl, hverjir sálga fjölda svartra hirðingja, vopnlausum að kalla, og Vesturlönd láta gott heita, vilja ekki styggja olíuríkin ?
Hvernig ert komið okkar þjóð ? Næsti maður segir, '' já endilega, opnum fyrir fjölmenninguna'', auðvitað skal þá sá þar næsti kyrja með, hvers lags rolu samfélag er þetta, hverju við búum í; þessi misserin ? Þorir enginn að segja meiningu sína, nema undirritaður; og einstaka sérvitringar aðrir ?
Þið mynduð líklega vilja fá þá Bush, og kjölturakka hans Blair hingað, til þess að auka við flóruna, vildu þeir setjast hér að ?
Magnús Þór Hafsteinsson og Jón Magnússon eru menn að meiri, þá þeir sýna þann dug, að standa á sínum meiningum, og elta ei ólar við roluhætti alltof margra samlanda okkar. ! Mér leiðist velgjuháttur, hvaðan sem hann kemur.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 02:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.