11.3.2007 | 20:36
Bjart yfir Hafnarfirði
Skrif mín á þessa síðu hafa legið niðri í viku tíma. Eitt og annað hefur valdið því, m.a. hef ég töluvert velt tilgangi þess að halda úti svona síðu fyrir mér. Þegar ég var iðnastur við kolann var traffíkin á síðuna uppörvandi þannig að einhver hópur virtist hafa gaman af að kynna sér hvað væri að brjótast um í kolli mínum. Ég hóf að blogga í byrjun árs, fyrst og fremst í tilraunaskyni, hvort þetta væri nokkuð fyrir mig. Undarlegt nokk, eða kannski ekki, skemmti ég mér ágætlega við þessa iðju. Þá var ég ekki tölvutengdur um síðustu helgi þar sem ég var staddur í sumarbústað á Suðurlandi og því ekki tengdur. Það varð til þess að færslur féllu niður.
Áhersla mín hefur einkum verið á andstöðu við fyrirhugaða stækkun álversins í Straumsvík. Að reisa í túnjaðri okkar Hafnfirðinga stærstu álbræðslu í Evrópu. Ekki ósvipað og að ala upp risaskrímsli í bakgarðinum. Ég fékk töluverð viðbrögð á þessi skrif mín. Mörg jákvæð en einnig mjög neikvæð þar sem mér voru gerðar upp ýmsar skoðanir og jafnvel haft á orði að ég hefði ekki leyfi til að hafa skoðanir á málinu starfs míns vegna.
Þar sem ég er maður friðar var mér dálítið brugðið við en það var þó ekki til þess að ég gerði hlé á skrifunum heldur fyrst og fremst spurningin um það hvaða tilgangi þetta þjónaði.
Í dag fórum við á sýningu í Hafnarborg. Þar eru sýnd málverk og vatnslitamyndir eftir færeyska listamanninn Zacharias Heinesen, son rithöfundarins og myndlistarmannsins Williams. Það var mikil birta yfir þessum náttúrulífsmyndum sem komu okkur í snertingu við kjarna eyjaveraldarinnar í Færeyjum. Þarna voru margar myndir af Kunoyarnakkur en engin þeirra eins. Allar sögðu þær sína sögu af þessum dranga sem rís upp úr hafinu en dranginn kallaði fram mynd af Lómagnúpi í huga mér, sem ég hefði viljað að valinn hefði verið fjall Íslands á sínum tíma.
Frá Hafnarborg gengum við yfir á Víkinga hótelið þar sem Sól í Straumi var að opna kosningaskrifstofu. Það var líka bjart yfir þeirri fjölmennu samkomu og nokkuð ljóst að hugur er í fólki þrátt fyrir milljónirnar sem Alcan eys nú í kosningabaráttu sína fyrir stækkuninni. Þarna voru einnig fulltrúar frá Sól á Suðurlandi og Sól á Suðurnesjum sem fluttu kveðjur frá sínu fólki til okkur Hafnfirðinga sem berjumst gegn stækkuninni. Þarna hitti ég ýmsa sem þökkuðu mér skrifin á þessari síðu og eftir að hafa átt samskipti við þetta fólk hef ég ákveðið að taka aftur upp skrif mín að minnsta kosti fram yfir kosningu þegar stækkuninni verður hafnað.
Athugasemdir
Sigurður, frábært að þú haldir áfram blogginu. Þetta var góð opnun á kosningaskrifstofunni og ég vona að Benedikt hér á undan bregðist svartsýnisspáin. Allavega gerum við í Sól Í starumi okkar besta til að það gerist.
Lárus Vilhjálmsson, 11.3.2007 kl. 22:36
Ég er alls ekki á því að baráttan sé töpuð.Skoðanakönnun Blaðsins fyrir helgina sýndi fylkingarnar með og á móti nánast hnífjafnar.Það var áður en Kompás þátturinn sem sýndur var í kvöld fór í loftið.Eins og allir vita er Kompás fréttaskýringaþáttur sem reyndi að skoða sem flestar hliðar þessa stækkunarmáls. Það er ekki beint hægt að segja að dregin hafi verið upp falleg mynd af álverinu í Straumsvík í þessum þætti, og því síður afleiðingum stækkunar þess.Án efa munu margir sem þennan þátt sáu og ætluðu sér að kjósa með stækkun hugsa sig um tvisvar áður en þeir gera það.
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 22:37
Kompás þátturinn kom ágætlega út fyrir álversinna og andstæðinga miðað við það sem undan er gengið á fréttaveitum stöðvar 2, enda aðrir fréttamenn en þeir sem áður hafa verið talsmenn Sólar í Straumi. Eitt sem ég tók þó eftir í þættinum var bréfið frá doctor Roth til bæjaryfirvalda sem ég var áður búinn að lesa á vef Sólar í Straumi en það er önnur saga. Ingvar fyrrverandi bæjarstjóri svaraði ágætlega fyrir það. Átti erfitt með að skilja efnafræðinginn og fyrrverandi starfsmann Ísal fyrir tuttugu árum þar sem mér fannst hann tala út og suður, ekki alveg vera í takt við nútímalegan rekstur álvera? Rannveig stóð sig vel að svara tíðum þráspurningum fréttamannsins. Vona svo að bæði sjónarmið fái að njóta sín á fréttaveitum stöðvar 2 hér eftir.Og fólk kjósi með stækkun þetta eru nú 1.000 miljónir í bæjarkassa eikut tekjur hafnarfjarðar um 12-14%.Segjum já með stækkun.
Óskráður (Jón Árnason),
Jón Árnason (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 23:46
Er þetta ekki í fyrsta sinn sem Kompás er sýndur í lokaðri dagskrá ?
Pétur Þorleifsson , 11.3.2007 kl. 23:56
þar sem enginn er eins, eru forsendur skoðunar okkar misjafnar, það virði ég. Sem íbúi í Hafnarfirði hefur mér áskotnast réttur til að ákveða fyrir mitt leyti afstöðu mína gagnvart stækkun álversins.
Mínar forsendur eru þær að ég lít á mig sem hluta jarðarinnar ásamt öllu öðru - hvað svo sem það er. Ef við göngum of nærri jörðinni bitnar það á okkur sjálfum því segi ég NEI við stækkun, virkjum hugmyndaflug okkar til betra lífs fyrir alla.
Vilborg Eggertsdóttir, 12.3.2007 kl. 02:00
Baráttan er ekki töpuð. EF við Hafnfriðingar stöndum saman og segjum nei við stækkun.
Þórður Ingi Bjarnason, 12.3.2007 kl. 07:05
Þar sem misskilningur virðist algengur varðandi stækkun í Straumsvík er gott að eftirfarandi komi fram:
Það er staðreynd að lóðin stækkar aðeins um 56%. og magn byggingja ekki nema um 85% en framleiðslan eykst um 150%. Allur búnaður verður fyrsta flokks.
Það er staðreynd að álverið í Straumsvík mun standast allar kröfur sem gerðar eru til umhverfisverndar.
Það er staðreynd að tekjur Hafnarfjarðar munu aukast um a.m.k. eittþúsund milljónir á ári en það er 12-13% af fjárhagsáætlun 2007.
Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson
Starfsmaður Alcan
Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 09:31
Pétur gat samt ekki sagt sannleika varðandi lóð Alcans sagið að hún væri jafn löng og hún væri breið eftir stækkun hann veit betur.
Samkvæmt teikningum ARKÍS 15. 1.2007 er lóð Ísal eftir stækkun mælikvarði um 1520m á lengd og um 920m á breidd ekki jafn löng og breið skeikar um 600m. lóði stækkar um 56% stækkun á lóð já 56%. Lóð sögð yfir 60% stærri en hún mun verða.
Kv Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 12.3.2007 kl. 21:00
Komið þið sæl, Sigurður og þið öll !
Tryggvi L. Skjaldarson og Sigurjón Vigfússon !
Heldur er lítið, um svör ykkar; við athugasemdum mínum, á síðu Rauða ljónsins, á dögunum. Eiga sunnlenzkar byggðir að fórna sínum hagsmunum, fyrir aukningu tekna Hafnafjarðarbæjar ? Viljið þið ekki einnig krefja frændur mína, Borgfirðinga og Skagfirðinga um orkuútvegun, ykkur til handa, já;; og jafnvel fleirri ?
Fyrirgefið, að ég byrsti mig, en........ einhvern tíma hefði þetta verið kallaður YFIRGANGUR !!! Hafnfirðingar þurfa að kunna sér hóf, þið talið ekki mikið um hagsmuni Vestfjarða, hvar byggðinni er smám saman að blæða út, reynið að opna augun fyrir þeim möguleika, að land okkar er ekki einskorðað, við Hafnarfjörð og nærsveitir. ! Ættum að sameinast, allir sem einn, um að koma Vestfirðingum til hjálpar, þar er þörfin brýnust, piltar. !!!
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Með beztu
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 21:40
Sæll Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum. Sá á síðu Rauða ljónsins að þú saknaðir svara frá mér. Síðbúið svar stafar ekki af því að ég reyni að koma mér undan því að svara spurningum og/eða vangaveltum sem til mín er beint. Þú veist alveg eins vel og ég Óskar að OR og Landsvirkjun útvega rafmagnið sem þarf við stækkun í Straumsvík. Orkuveitan með rafmagni af Hellisheiði og Landsvirkjun með rafmagni frá þremur virkjunum í Þjórsá. Hafnfirðingar og Alcan eru ekki með yfirgang við einn eða neinn. Mér er ekki kunnugt um annað en að þeir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta fái fullar bætur fyrir hugsanlegar fórnir eða tjón. Annars er þetta mál algerlega á milli Landsvirkjunar og viðkomandi aðila. Djúpárhreppurinn sem var og Ásahreppur hafa haft góðar tekjur af mannvirkjum á hálendinu. Verður eitthvað öðruvísi með þessi mannvirki? Hvorki Hafnfirðingar né Alcan í Straumsvík eru að krefja frændur þína í Borgarfirði, Skagafirði eða aðra um eitt eða neitt. Ekki veit ég sem starfsmaður Alcan hvað ég ætti að segja um hagsmuni Vestfirðinga. Veit ekki betur en þeir hafi sjálfir verið með yfirlýsingar um að þeir vildu ekki álver, en það var áður en Marel stökk í burtu. Þekki ágætlega hvernig það er að vera í byggðalagi sem blæðir. Mín samúð er með Vestfirðingum. Með kveðju Tryggvi L. SkjaldarsonStarfsmaður Alcan
Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 12:59
Komið þið sæl !
Tryggvi ! Þakka þér skýr og skilvís svör. Jú, jú.............................. mikið rétt, Tryggvi; OR og Landsvirkjun eru orðin ríki í ríkinu, þykir mér sýnt, að skipta verður landinu upp í sjálfstæð ömt, haldi fram sem horfir. Hefir mér, Tryggvi, heldur þótt þeir Hafnfirðingar, hverjir fylgja stækkun álversins, í Straumsvík og margir ágætra samstarfsmanna þinna, hjá ÍSAL (Alcan) fara mikinn í áherzlum sínum, er núverandi álver ekki nógu stórt, þótt svo einhverju þyrfti að breyta, innanstokks ?
Megin röksemd mín, Tryggvi er sú; að okkar börn, og þeirra afkomendur hljóta að hafa einhvern rétt, til ráðstöfunar framtíðarhagsmuna sinna; EKKI VIÐ, TRYGGVI OG OKKAR KYNSLÓÐ !!! Annað....... hefi margsinnis bent á hagsmuni ábúenda, á Þjórsárbökkum, sýnist sem ekki veiti af, að styrkja; mun frekar, vöxt og viðgang íslenzks landbúnaðar, í stað óþarfa landrofs og landbrots; þar um slóðir. Nefndi Borgarfjörð og Skagafjörð, til viðmiðunar þess, hversu fáu er eirt, þessi misserin.
Jú, jú....... góðar tekjur. Hvað eigum við, núlifandi Íslendingar; að ganga langt í græðginni, já;; segi og skrifa, Tryggvi ! Hvernig lízt þér, á þjóðfélagsgerð okkar, í dag ? Miklu fremur, hefði ég kosið hið kyrrláta samfélag, sem ég ólst upp við, á uppvaxtarárum mínum, á Stokkseyri; árin 1961 - 1971, nýtni og nægjusemi áttu a.m.k. upp á pallborðið, í þá daga. Djöfulgangurinn í samfélaginu, í dag, er með öllu óviðunandi, hygg; að þú sért sammála mér, þar um.
Rétt er það, Tryggvi; Vestfirðingar eru meiri sjósóknarar en verksmiðju haldarar, verð að gera athugasemd, við þá ríkjandi skoðun hérlendis, sums staðar, að álver séu einhver allsherjar bjargráð. Tek fram, Tryggvi; ég er fyllilega sáttur, persónulega, við þau álver sem nú eru til staðar, hér á Íslandi. Hvernig litist þér á kopar- eða silfurver, í framtíðinni, þótt í smáum stíl væri ?Hvað Marel snertir, þar sem stjórnendur þess fyrirtækis gjörðust brigðmálgir, gagnvart þeim Ísfirðingum; vitanlega á ríkisstjórnin að þjóðnýta það ágæta fyrirtæki, og koma skikk þar á, svo nýtist Íslendingum, ekki einhverjum útlendum gróða spekúlöntum; og íslenzkum fylgjurum þeirra.
Nú er 15. Marz, árið 2007. Tryggvi ! Hverju eigum við, ég og þú, að svara afa börnum okkar, þá þau inna okkur þess, á því herrans ári, 2027 hvað hafi rekið okkur til þeirrar ofuriðnbyltingar á Íslandi, að gengið hafi nærri landi og þjóð, og gjörspillt búsetu og viðgangi þeirra sjávarplássa, sem og landbúnaðarhéraða, sem enn fyrirfundust þá, þ.e. árið 2007 ? Jú, Tryggvi, kannski á heimspekilegum nótum, fannst samt rétt, að fram kæmi; einnig.
Að endingu........ er ekki rétt, að ganga hægt um gleðinnar dyr ?
Með beztu kveðjum, og fyrirfram þökk fyrir lesninguna /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.