Skrímslið í túnjaðrinum

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um afstöðu landsmanna til stækkunar álversins í Straumsvík þarf ekki að koma á óvart. Þeir sem fylgst hafa með umræðu í samfélaginu að undanförnu hafa fundið að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur mætt miklum andbyr. Þegar Kárahnjúkavirkjun var samþykkt á sínum tíma gerði þjóðin sér enga grein fyrir því hvað verið var að kalla yfir hana. Eitt álver í viðbót við þau tvö sem fyrir voru og það í landshluta sem hafði átt undir högg að sækja atvinnulega var bara allt í lagi í huga stærsta hluta landsmanna þá. En nú horfir bara landið allt öðru vísi við.

  

Landsmenn þekktu ekki það svæði sem fór undir vatn við stíflu Kárahnjúka en sú kynning á svæðinu sem Ómar Ragnarsson o.fl. hafa veri með hefur opnað augu stórs hluta þjóðarinnar á þeim náttúruperlum sem fórnað var. Þetta var ekkert allt í lagi bara vegna þess að við þekktum ekki svæðið.

  

En við þekkjum svæðið í uppsveitum Árnessýslu sem stendur til að fórna á altari stóriðjunnar vegna stækkunarinnar í Straumsvík. Við höfum líka heyrt hugmyndir ráðamanna um fleiri álver; í Helguvík, á Húsavík og við Þorlákshöfn. Þá erum við að átta okkur á því að álverið í Straumsvík, sem staðsett er í jaðri byggðar Hafnarfjarðar verður stærsta álbræðsla Evrópu. Það er ekki ásættanlegt fyrir mína sveitunga að hafa slíkt skrímsli í túnjaðrinum hjá sér.

  

Í skoðanakönnun Fréttablaðsins kemur fram að meirihluti stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka nema Sjálfstæðisflokksins eru andvígir stækkuninni, en þó eru 37% fylgismanna hans andvígir. Mest er andstaðan hjá VG þar sem rúm 93% eru andvíg, rúm 75% hjá Samfylkingu og nálægt 55% hjá Framsókn og Frjálslyndum.

  

Sjálfsagt er landslagið í Hafnarfirði eitthvað frábrugðið þessari niðurstöðu en engu að síður gefur þessi skoðanakönnun andstæðingum stækkunar í Hafnarfirði byr undir báða vængi nú á lokasprettinum fyrir atkvæðagreiðsluna.

  

Hræðsluáróður Hags Hafnfirðinga og Alcan fellur í grýttan jarðveg, enda hefur komið í ljós að hann byggir á fölskum forsendum. Einnig liggur það nokkuð í augum uppi að aðstandendur Hags í Hafnarfirði eru tengdir fyrirtækjum sem sjá stækkunina í gegnum sjóngler síns eigin bókhalds.

Samtökin Sól í Straumi hafa hins vegar byggt sinn málflutning á staðreyndum sem standast, auk þess sem það vekur athygli að á heimasíðu þeirra er bæði að finna rökin með og á móti stækkun. Þegar þau eru skoðuð án fyrirfram gefinnar niðurstöðu verður kjósendum ljóst að rökin á móti vega mun þyngra þegar horft er til framtíðar bæjarins. Þá er íbúum bæjarins ljóst að núverandi álver í bænum verður ekki lagt niður þótt slíkt hafi verið gefið í skyn. Hvers vegna ætti Alcan að hætta rekstri þess álvers sem skilar fyrirtækinu mestum hagnaði af öllum álverum þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband