Hriplekt velferðarkerfi

Stöðugt kemur það betur og betur í ljós að íslenska velferðarkerfið er hriplekt. Í nýlegri skýrslu barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna kom fram að íslensk börn eru afskipt og njóta lítilla samverustunda við foreldra sína sökum mikils vinnuálags.

Kastljós hefur að undanförnu verið með umfjöllun um stöðu heilabilaðra og aðstandenda þeirra. Þar kom fram að úrræði fyrir þetta fólk eru mjög af skornum skammti og flestir aðstandendur þurfa að hætta vinnu til að geta sinnt sínum nánustu, yfirleitt mökum.

Nýjustu fréttir herma svo að foreldrar blindra barna neyðast til að flytja frá Íslandi svo börn þeirra fái möguleika til menntunar og þroska einsog ófötluð börn. Úrræðin eru ekki fyrir hendi hér á landi.

Í Blaðinu í dag er svo greint frá því að fötluðum skólabörnum í Reykjavík í 5. til 10. bekk stendur ekki til boða vistun á frístundarheimilum eins og ófötluðum börnum eftir skólatíma. Hafa foreldrar þurft að minnka við sig vinnu vegna þessa. Það stendur þó til að vinna bragarbót á þessu fyrir næsta haust.

Hér hefur bara verið tæpt á nokkrum atriðum sem sýna að þrátt fyrir að við búum í einu ríkasta samfélagi veraldar þá er víða pottur brotinn og þá hefur ekki verið minnst á aukna fátækt sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins kallar á þjóðarátak til að útrýma. Verkefnin eru næg framundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband