26.2.2007 | 00:05
Kveðjur úr uppsveitum Árnessýslu
Það er dálítið sérkennileg tilfinning en í athugasemdum sem ég fæ við færslur mínar um stækkun álversins í Straumsvík fæ ég stuðningsyfirlýsingar úr uppsveitum Árnessýslu en hins vegar fjölmargar neikvæðar athugasemdir frá íbúum minnar heimabyggðar. Reyndar sýnast mér þær einkum vera frá starfsmönnum álversins.
Mér hefur alltaf þótt vænt um hreppana. Var í sveit í Bryðjuholti í Hrunamannahreppi frá 10 ára aldri til 15 ára, hjá eðalhjónunum Magnúsi og Sigríði. Lærði þar mörg undirstöðuatriði lífsins og vinnunnar og einnig ófáar góðar stökur. Reyndar voru íbúar eystri hreppsins litnir þar í góðgerðu hrepparígsgráglettnisljósi. Í mínum huga eru þessir tveir hreppir með fegurstu sveitum landsins. Því þykir mér mjög vænt um athugasemdir eins og ég fékk í dag frá Óskari Helga Helgasyni frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum. Athugasemd hans fer hér á eftir:
Sælir piltar, og stúlkur; ef einhverjar skrifa hér um þessi málefni!
Vil byrja á, að þakka Sigurði síðuhaldara, fyrir greinagóð skrif, og vel fram sett. Finnst rétt, að biðja þá ágætu drengi; Bjarna M. - Sigurð J. og Björn Kristjánsson að athuga, að hér er ekki um hagsmuni Hafnfirðinga einna, að ræða. Beggja vegna Þjórsárbakka eru nokkur lögbýli, hver verið hafa í ábúð um árhundruð sum, og önnur í áratugi. Mannlíf í Villingaholts- Skeiða- Gnúpverja og Ásahreppum er ekkert ómerkilegra, eða ógöfugra en í Hafnarfirði og nærsveitum.
Ég hefi á tilfinningunni, að hefðbundinn búskapur; já og þar með mannlíf í sveitum Íslands, sé nokkrum starfsmönnum ÍSAL (Alcan) bara með öllu óviðkomandi, ja, sem og framtíðarhagsmunir okkar Sunnlendinga almennt.
Ber þetta vott um hroka þeirra ÍSAL manna? Trúi því ekki, að óreyndu, miklu fremur liðveizla við innlenda, sem útlenda stjórnendur þessa ágæta álsamfélags, í eftirsókn stækkunar og frekari gróða.
Bjarni M. þykist geta talað niður, til Ögmundar Jónassonar, þess skrumlausa og hrekklausa drengs, (vill nú svo til, Bjarni; að þeir Ögmundur og Björn Bjarnason eru nú svo lítilátir og lausir við stórbokkahátt, allajafna svara þeir erindum mínum, til þeirra, gagnstætt flestum kollegum þeirra); og Sigurður J. talar um fyrrverandi komma, á Íslandi, jah..... betra hefði verið fyrir hina kapítalízku gróðahyggju að hafa meira aðhald, en nú tíðkast í dag; Sigurður J., persónulega hefði ég nú kosið hina ágætu stjórnmálastefnu, fasismann heldur en þá kommúnísku, það er a.m.k. mín skoðun.
Bjarni M. - Sigurður J. og Björn Kristjánsson ath.! Okkur; Vestur- Skaftfellingum - Rangæingum og Árnesingum ber ekki nokkur skylda, til útvegunar frekari raforku, úr héraði okkar, nema þá brýnir þjóðarhagsmunir krefðust, s.s. eldgos - miklir landskjálftar eða önnur óáran á landi hér. Höfum fram til þessa ekki gert neinar þær kröfur, til Landsvirkjunar, að njóta betri kjara eða hlunninda; umfram aðra landsmenn, þótt stærstir hefðum verið, fram undir þetta, í orkuútvegun allri. Þessa ættu íbúar við miðbik Faxaflóans að minnast, áður lengra er haldið!
Bið að endingu skrifara, að sýna Sigurði Á. Friðþjófssyni virðingu, og engan fauta- eða rustaskap, hver algengari er að verða, á landi hér; hin seinni misseri.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.