25.2.2007 | 21:35
Fyrsti bikarinn í ár hjá mínum mönnum
Chelsea landaði fyrsta bikarnum á þessu tímabili fyrr í dag þegar þeir lögðu Arsenal 2 1 í frábærum leik á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff. Arsenal á heiður skilinn fyrir frammistöðu sína í leiknum og á köflum voru þeir betri aðilinn í leiknum þrátt fyrir að tefla fram ungum leikmönnum og hvíla þá eldri og reyndari eins og Henry og Ljungberg. En reynslan og frábærir taktar Drogba og Cech lönduðu sigrinum að lokum. Tvennt skyggir þó á sigurinn. Í fyrsta lagi að John Terry skyldi rotast. Óvíst er hversu alvarlegt það slys var og hvenær hann verður leikfær aftur. Svo var ljótur blettur á leiknum undir lokin þegar slagsmál brutust út en mikið var í húfi og mönnum því heitt í hamsi.
Enn og aftur til hamingju Chelsea og nú er bara að landa fleiri bikurum á árinu. Verður á brattann að sækja í deildinni og þar þarf að stóla á að United misstígi sig auk þess sem Chelsea þarf að halda áfram á þeirri sigurbraut sem liðið er. Svo er það meistaradeildin og þar er liðið í sterkri stöðu. Það er bara að spýta í lófana og halda áfram með sama sigurviljann og landaði dollunni í dag.
Athugasemdir
Flottur leikur, flottur leikvöllur. Leikur sem hafði ALLT. Ég hætti að anda þegar Terry rotaðist. Rosalegt að sjá Arsenal mennina öskra á hjálp!! Vissulega var svartur blettur í lokin, en magnað að fara yfir 100 mínútur! Til lukku Sigurður. Ég er reyndar Man. United maður. En til lukku!
Sveinn Hjörtur , 25.2.2007 kl. 23:18
...öndunin er komin í samt lag!
Sveinn Hjörtur , 25.2.2007 kl. 23:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.