25.2.2007 | 00:04
Mér er ekki illa við starfsmenn álversins
Ég hef fengið talsverð viðbrögð vegna skrifa minna um það sem ég kalla flugumenn Alcan. Starfsmenn álversins hafa sent inn athugasemdir og talið mig tala niður til þeirra. Það er af og frá. Ég veit að starfsmenn álversins í Straumsvík eru upp til hópa mjög hæfur starfskraftur sem vill auðvitað sínum vinnustað vel. Og ég skil vel að þeir vilji veg fyrirtækisins sem bestan og mestan og hafi vissar áhyggjur af framtíðinni þar sem atvinnurekandinn hefur gefið það í skyn að verksmiðjunni verði lokað ef áform þeirra um stækkun ná ekki fram að ganga. Hins vegar set ég spurningamerki við það þegar starfsmenn fá greitt frá atvinnurekandanum fyrir að tala fyrir stækkuninni.
Sumarið 1968 starfaði ég við að reisa vararafaflsstöð í Straumsvík. Sumarið 1983 starfaði ég hjá Hagvirki við Sultartangastíflu. Ég á bara góðar minningar frá þessum árum. Reyndar fórum við í verkfall á Sultartanga þetta sumar en það var ekki vegna andstöðu okkar við stífluna heldur vegna kjara.
Afstaða mín í dag til þessara mála markast fyrst og fremst af því að ég tel að stóriðjufylleríið sé komið úr böndunum. Dollaraglampinn í augunum tel ég að villi mönnum sýn á farsæla framtíð fyrir þessa þjóð. Við getum ávaxtað okkar pund miklu betur á öðrum vígstöðvum en í álbræðslum.
Enn og aftur er verið væna mig um vera málpípa VG þar sem ég sé starfsmaður BSRB. Við Ögmundur Jónasson höfum í gegnum tíðina átt gott samstarf og verið sammála um margt en einnig ósammál um sumt. Við höfum hins vegar ekki verið pólitískir samherjar frá stofnun Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Ég var alla tíð talsmaður þess að vinstri vængurinn sameinaðist í Samfylkingunni en Ögmundur valdi annan kost. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að enn í dag getum við verið sammála um sum pólitísk hitamál eins og stækkun álversins í Straumsvík, en þar eigum við bandamenn úr öllum flokkum, nema kannski helst í Framsóknarflokknum.
Og við Guðmund Gunnarsson vil ég bara segja það að ein skoðun er ekki merkilegri en önnur. Ég virði skoðanir þeirra sem eru hlynntir stækkun en ég fylgi hins vegar minni sannfæringu eftir, eins og ég veit að hann hefur ætíð gert sjálfur.
Athugasemdir
Hverjir eru með dollaramerki í augunum? Kannski verkamennirnir hjá Alcan? Fólkið út á landi í byggðum þar sem hagvöxturinn er búinn að vera neikvæður síðustu ár? Og hvaða lausnir hafið þið Ömundur fyrir þetta fólk? Prjónastofur og fjallagrasatýnslu? Þekkingariðnað (veist þú, Ögmundur og Co. eitthvað um slíkan iðnað?)?
Nei það sem þið leggið til er kreppa - stöðvum allt og bönnum allt. Þó svo að 5% þjóðarinnar hafi stórlega efnast síðustu ár, þá er hart í búi hjá almenningi. Það þarf að byggja upp öflugra atvinnulíf. Strax!
Bjarni M. (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 01:04
Já, áhugaverð spurning, þetta með dollaramerkið í augunum. Hverjir græða á stækkun í Straumsvík?
Hér gleymist kannski að nefna hið "vonda" (að mati "fyrrverandi" komma á Íslandi eru öll erlend stórfyrirtæki vond) erlenda stórfyrirtæki, en ég sleppti því að nefna það, þar sem það hefur fleiri kosti í stöðunni. Ef það fær ekki stækka hér, þarf það að úrelda þessa 40 ára gömlu verksmiðju og byggja upp annars staðar. Það er ekkert endilega víst að það sé verri kostur fyrir fyrirtækið.
Sigurður J. (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 05:39
Sæll Sigurður Á
Eftir að hafa lesið þessi skrif hjá þér, get ég ekki annað séð en að þér er víst illa við starfsmenn iðjuversins í Straumsvík.
Að ég best veit
Tryggvi Skjaldar er ekki einhver málmpípa eða á einhverjum áróðurslaunum hjá iðjuverinu í Straumsvík, hann er einn af fimmhundrup starfsmönnum iðjuversins.
Að ég best veit
sem öll erum á launum hjá iðjuverinu og erum öll fylgjandi stækkun iðjuverinu í Straumsvík
Að ég best veit
er ekki verið að kjósa um stækkun iðjuversin það er verið að kjósa um deyliskipulag.
Að ég best veit
að iðjuverið í Straumsvík er nú þegar komið með starfsleyfi fyrir 460 þús tonna framleyðslu
Hef ekki orðið var við neinn gullasna sem iðjuverið í Straumsvík á að gera út til að kaupa atkvæði Hafnfirðinga.
Með bestu kveðju.
Björn starfsmaður iðjuversins í Straumsvík
Björn Kristjánsson (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 12:55
Sælir piltar, og stúlkur; ef einhverjar skrifa, hér um þessi málefni !
Vil byrja á, að þakka Sigurði síðuhaldara, fyrir greinagóð skrif, og vel fram sett. Finnst rétt, að biðja þá ágætu drengi; Bjarna M. - Sigurð J. og Björn Kristjánsson að athuga, að hér er ekki um hagsmuni Hafnfirðinga einna, að ræða. Beggja vegna Þjórsárbakka eru nokkur lögbýli, hver verið hafa í ábúð um árhundruð sum, og önnur í áratugi. Mannlíf í Villingaholts- Skeiða- Gnúpverja og Ásahreppum er ekkert ómerkilegra, eða ógöfugra en í Hafnarfirði og nærsveitum.
Ég hefi á tilfinningunni, að hefðbundinn búskapur; já og þar með mannlíf í sveitum Íslands, sé nokkrum starfsmönnum ÍSAL (Alcan) bara með öllu óviðkomandi, ja, sem og framtíðarhagsmunir okkar Sunnlendinga almennt.
Ber þetta vott um hroka þeirra ÍSAL manna ? Trúi því ekki, að óreyndu, miklu fremur liðveizla við innlenda, sem útlenda stjórnendur þessa ágæta álsamfélags, í eftirsókn stækkunar og frekari gróða.
Bjarni M. þykist geta talað niður, til Ögmundar Jónassonar, þess skrumlausa og hrekklausa drengs,(vill nú svo til, Bjarni; að þeir Ögmundur og Björn Bjarnason eru nú svo lítilátir, og lausir við stórbokkahátt, allajafna svara þeir erindum mínum, til þeirra, gagnstætt flestum kollegum þeirra); og Sigurður J. talar um fyrrverandi komma, á Íslandi, jah..... betra hefði verið fyrir hina kapítalízku gróðahyggju að hafa meira aðhald, en nú tíðkast í dag; Sigurður J., persónulega hefði ég nú kosið hina ágætu stjórnmálastefnu, fasismann heldur en þá kmmúnísku, það er a.m.k. mín skoðun.
Bjarni M. - Sigurður J. og Björn Kristjánsson ath. ! Okkur; Vestur- Skaftfellingum - Rangæingum og Árnesingum ber ekki nokkur skylda, til útvegunar frekari raforku, úr héraði okkar, nema þá brýnir þjóðarhagsmunir krefðust, s.s. eldgos - miklir landskjálftar eða önnur óáran, á landi hér. Höfum fram til þessa ekki gert neinar þær kröfur, til Landsvirkjunar, að njóta betri kjara eða hlunninda; umfram aðra landsmenn, þótt stærstir hefðum verið, fram undir þetta, í orkuútvegun allri. Þessa ættu íbúar við miðbik Faxaflóans að minnast, áður lengra er haldið.!
Bið að endingu skrifara, að sýna Sigurði Á. Friðþjófssyni virðingu, og engan fauta- eða rustaskap, hver algengari er að verða, á landi hér; hin seinni misseri.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 17:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.