21.2.2007 | 15:33
Hvað eru gamlingjar að vilja upp á dekk?
Það voru fréttir af því í vikunni að félag eldri borgara Skeiða- og Gnúpverjahreppar hefði haldið fjölmennan fund og þar sem fyrirhuguðum virkjunaráformum í neðri hluta Þjórsár var mótmælt. Þetta var fólk sem hefur nytjað þetta land í ártugi og vill að afkomendur geti nytjað það áfram til búrekstrar í framtíðinni. Lóa Pind Aldísardóttir ræddi við nokkra eldri íbúa svæðisins sem höfðu skrifað undir mótmælin.
Jón Eiríksson í Vorsabæ sagðist alinn upp í ungmennafélagsandanum; að elska, virða og rækta landið. Erlingur Loftsson á Sandlæk sagðist vera búinn að fá upp í kok af öllu þessu álkjaftæði og að hann teldi enga þörf á að virkja núna heldur ætti að bíða eftir nýtingar- og verndaráætlun stjórnvalda.
Þá rifjaði Jón frá Vorsabæ það upp að þegar Búrfellsvirkjun var reist á sínum tíma hefði verið boðað að þegar hún væri afskrifuð myndi rafmagnið lækka en sú hefði ekki orðið raunin heldur færi raforkuverðið til almennings stöðugt hækkandi.
Þetta var eins og sagði vel unnin samantekt hjá Lóu Pind og mjög upplýsandi en hins vegar orkaði lokaspurning hennar tvímælis: Hvers vegna eru þið rígfullorðnir mennirnir að berjast gegn þessum virkjunum?
Það er alveg óhætt að skilja eitthvað eftir handa komandi kynslóðum, svaraði Erling henni og Jón sagðist vilja deyja með góða samvisku.
Í flestum menningarheimum er litið með virðingu til eldra fólks og það talið geta miðlað af reynslu sinni til uppvaxandi kynslóða. Svo var og á Íslandi til skamms tíma en nú eru nýir tímar. Æskudýrkunin er orðin slík að sumir pólitíkusar vilja kaupa sér velvilja ungdómsins með því að lækka kosningaaldur niður í 16 ár. Næsta skrefið verður líklega að takmarka kosningaaldurinn við 67 ár.
Athugasemdir
Sæll, Sigurður !
Í einu orði sagt, stórkostleg lesning. Þarf engu við að bæta, þar.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 01:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.