Kynslóðirnar eru hættar að tala saman

Það rifjaðist upp fyrir mér viðtal sem ég átti við sænskan félaga minn í Stokkhólmi þegar ég bjó þar á áttunda og níunda áratugnum. Tilefni þess að ég minntist þessa samtals var umræðan um yfirburði norræna velferðarmódelsins þegar kemur að umræðu um þjóðfélagsgerð. Það sem brann á okkur námsmönnum á erlendri grund var vitaskuld húsnæðismál og leikskólamál. Í Svíþjóð leigðum við hjá Stúdentabústöðum góða íbúð á sanngjörnu verði sem var síðan niðurgreitt af sænska ríkinu. Drengurinn okkar var á góðum leikskóla í næsta nágrenni og var dvölin þar einnig niðurgreidd. Síðan fengum við fæðingarstyrk þegar fjölgaði í fjölskyldunni. Það var séð til þess að enginn liði skort og það átti einnig við um þá sem aldraðir voru, fatlaðir eða sjúkir. Velferðarsamfélagið sá til þess.

  

Sænski kunningi minn spurði mig hvernig þessum málum væri háttað á Íslandi og því miður varð ég að viðurkenna að þá vorum við ansi aftarlega á merinni miðað við Svíana, þótt það hafi batnað mikið síðan. En, bætti ég við, samfélagið er svo smátt og fjölskyldutengsl svo mikil að náunginn kemur til hjálpar ef þörf er á. Má eiginlega segja að allir ali önn fyrir öllum. Þetta var eiginlega góða nágrannalífsspekin sem Capra gerði skil í kvikmyndum sínum.

Svo fluttum við heim fyrri hluta níunda áratugarins og lífsbaráttan hófst í óvernduðum íslenskum raunveruleika. Sú mynd sem ég hafði dregið upp fyrir sænska vininum stóðst engan veginn. Hér voru flestir svo uppteknir af eigin lífsbaráttu og neyslukapphlaupi að þeir sáu lítið út fyrir eigin rann. Ýmis nýleg dæmi eru um það. Kona á níræðisaldri fannst látin á heimili sínu og hafði verið önduð í u.þ.b. mánuð. Þetta var frétt sem við héldum að gerðist eingöngu í erlendum stórborgum. Og dæmin eru mýmörg. Mest sláandi er útkoma íslenskra barna í nýlegri skýrslu barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur í ljós að íslensk börn eru afskipt og njóta lítilla samverustunda við foreldra sína. Sama er með áa okkar. Þeir eru vistaðir á stofnunum og börn þeirra hafa ekki tíma til að heimsækja þá. Kynslóðirnar eru hættar að tala saman. Slíkt veit ekki á gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll Sigurður.

Ert þú ekki innmúraður í Vg?

Nóg fyrir mig að vita það þar sem afturhald eldist aldrei af sumum.

Á.Ö.Þ

Rauða Ljónið, 21.2.2007 kl. 04:04

2 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Smá leiðrétting. Undirritaður hefur aldrei verið orðaður við VG. Ég hef verið í Samfylkingunni frá stofnun hennar. Ég vissi ekki að samskipti við börn og eldra fólk væri einkamál ákveðinna stjórnmálaflokka í mínum huga er það mál sem varðar þetta samfélag í heild sinni.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 21.2.2007 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband