Í túnfætinum hjá okkur

brimketillSkruppum út á Reykjanes í dag í blíðunni. Frábært að eiga þetta svæði í túnfætinum heima. Endalaus fjölbreytni og alltaf eitthvað nýtt að uppgötva ef viljinn er fyrir hendi. Renndum til Grindavíkur og þaðan í áttina að Reykjanesvita. Á leiðinni til Reykjanesvita er Brimketill. Þarna átti skessa að hafa sest niður og þessvegna er þessi skemmtilegi skessuketill í flæðarmálinu þar sem brimið leikur ótrúlegar listir. Alveg einstök upplifun að fylgjast með þegar reginöflin brotna á þessum stað eins og í dag. Þetta er fimm mínútna ganga frá veginum og upp lýkst náttúruundur sem á fáa sér líka.

  

Eftir að hafa farið niður að Reykjanesvita og séð fálka lyfta sér til flugs við vitann héldum við áfram í átt til Hafna. Á leiðinni þangað gengum við upp á Stampa, gíga við veginn. Þaðan var gott útsýni yfir Stampahraun, út til Reykjanesvita og í vesturátt til Hafnabergs og á milli Stóra Sandvík þar sem Clintarinn tók upp hluta af Our Flags.

  

Nú eru uppi áform um að flytja rafmagn frá Reykjanesvirkjun til Helguvíkur um þetta svæði Það myndi setja ljótann blett á svæðið ef tröllaukin mastur yrðu megineinkenni hraunsins. Guð forði okkur frá því.

  

Á leiðinni til Hafna ókum við svo framhjá Merkinesi þar sem Ellý Vilhjálms ólst upp með Eldey í stofuglugganum, en eftir henni heitir hún Eldey Vilhjálmsdóttir. Heyrði í þessari andrá Vegir liggja til allra átta í þætti Jóns Ólafssonar um kvikmyndatónlist.

Í Höfnum skoðuðum við tóftir landnámsbæjar Herjólfs Bárðarsonar föður Bjarna Herjólfssonar. Allt þetta er í túnfætinum hjá  okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband