13.2.2007 | 11:52
Jólasveinar einn og átta
Jólin eru vart liðin og jólasveinarnir horfnir til fjalla að þeir birtast aftur einn af öðrum og draga milljarða framtíðarinnar upp úr skjöttum sínum. Í gær var það Samgöngugaurinn Sturla Böðvarsson. 380 milljarðar til vegagerðar á næstu 11 árum. Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun, sem nær yfir tímabilið 2003-2014, var gert ráð fyrir að útgjöld til vegasmála yrðu 173,3 milljarðar. Hér er því um verulega hækkun að ræða. Ekki það að þessi verkefni sem ráðast á í á tímabilinu séu óþörf. Flest eru þau eflaust bæði nauðsynleg og hagkvæm. Hef reyndar alltaf efast um Héðinsfjarðargöng en ekki verður hætt að sprengja inni í miðju fjalli.
Fyrir helgi sendu utanríkisráðherra og menntamálaráðherra frá sér sameiginlega tilkynningu um að fjárframlög verði aukin á næstu árum til að efla áhuga erlendis á íslenskri list og menningu, auka möguleika og áhrif íslenskra listamanna á alþjóðlegum vettvangi, bæta menningarímynd Íslands og auka gagnkvæm menningarsamskipti við önnur lönd og menningarsvæði.
Stutt er síðan Þorgerður Katrín hækkaði rannsóknarframlög til Háskólan Íslands um 640 milljónir króna árlega á tímabilinu 2008-2011 og hafa framlögin þá hækkað um tæpa þrjá milljarða í lok samningstímabilsins, árið 2011.
Guðni Ágústsson og sauðfjárbændur eru alveg sér á parti. 18 milljarðar til rollubænda á árunum 2008 til 2014. Siv Friðleifsdóttur fannst það ekki tiltökumál þótt hún notaði fé úr framkvæmdasjóði aldraðra til að prenta áróðursbækling fyrir sig.
Hér er bara tæpt á nokkrum framtíðardúsum sem komið hafa upp úr jólasveinapokunum að undanförnu. Eflaust er einhverju gleymt og svo eru margir pakkar enn óopnaðir fram að kosningum í maí. Allir fara að hlakka til.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.