Sól rís um land allt

Í dag var haldinn fundur Sólar á Suðurlandi þar sem mótmælt var eindregið virkjun neðri hluta Þjórsár til að standa undir mengandi starfsemi. Þessi fyrirhugaða mengandi starfsemi á að vera í túnfætinum hjá mér. Þreföldun álversins í Straumsvík. Til að sú framtíðarsýn stóriðju- og virkjanafíklanna geti orðið að veruleika þarf að leggja stóran hluta eystri hrepps undir uppistöðulón og Urriðafoss hverfur af yfirborði jarðar.

  

Gnúpverjahreppur er með fegurri sveitum landsins. Að aka upp með Þjórsá inn í Þjórsárdal er einstök náttúruupplifun. Þessi gróðursæla sveit þar sem ógnvaldurinn Hekla gnæfir yfir friðsælli byggð og er stöðugt tilbúin að minna á sig, er Ísland í hnotskurn. Eldurinn og eyðileggingarmáttur hans, lengsta og tignarlegasta á landsins og gróskumikil sveit sem sólin rís yfir og nærir fjölskrúðuga flóru.

  

Viljum við fórna þessu svo hægt sé að stækka álverið í Straumsvík?. Heimamenn segja nei.! Meiri hluti Hafnfirðinga segir vonandi einnig nei í atkvæðagreiðslunni um stækkunina þrátt fyrir að nú sé reynt að kaupa atkvæði bæjarbúa með gylliboðum um milljarðaávinning sveitarfélagsins ef af stækkun verður.

  

Ég talaði um alcanskt fréttamat Fjarðarpóstsins um daginn. En í Firðinum er einnig gefið út annað blað. Það eru Víkurfréttir. Forsíðan hjá þeim var ekki síður undir pilsfaldi Rannveigar en hjá Fjarðarpóstinum. Í blaðinu sem kom út í síðustu viku er slegið upp á forsíðu: „Tæpur milljarður á ári fyrir Hafnfirðinga ef af stækkun álvers verður.”

Sveitir Gnúpverjahrepps og Kapelluhraun í Hafnarfirði eru meira virði en milljarðarnir sem Rannveig boðar. Sólin mun skína áfram á okkur og veita okkur þann innblástur sem þarf til að byggja upp fjölbreytt og öflugt atvinnulíf sem að endingu mun skila landsmönnum miklu meiri verðmætum en stóriðjufíknin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi fyrirhugaða mengandi starfsemi í Straumsvík sem þú nefnir, er u.þ.b. það umhverfisvænasta sem hægt er að gera til að framleiða ál í víðri veröld.  

Í fyrirhuguðu skipulagi er búið að minnka þynningarsvæði við álverið um 70%,  þrátt fyrir fyrirhugaða stækkun. 

Það er vegna árangurs álversins í mengunarvörnum. 

Árangurs sem er til fyrirmyndar á heimsvísu.  Verður ekki betur gert annarsstaðar.   

Aldrei hafa mælingar á svifryki og SO2  á Holtinu í Hafnarfirði (í sjónlínu við álverið) nálgast viðmiðunarmörk heilsuverndar, aldrei í 40 ár.  það er annað en hægt er að segja um Reykjavík og Akureyri þar sem ekkert álver er.  

Enginn segir neitt þegar land er flatt út til túngerðar, kornræktar eða trjáplöntunnar.

Enginn segir neitt þegar heilu landsvæðin eru þurrkuð upp með skurðgreftri. 

Svo rís fjöldi manns á lappir, þegar reisa á þrjár nettar stíflur á landi sem að stórum hluta fer undir vatn í hvert sinn þegar krapi stíflar ána.

Ávinningur Hafnarfjarðar er metinn a.m.k. 800 milljónir fyrir utan 600 milljónir frá starfsmönnum og fyrirtækjum í bænum.  Hér er ekki um neitt gylliboð að ræða. 

Það sem ríkið fær hleypur á milljörðum árlega. 

þegar horft er til annarra framkvæmda Landsvirkjunnar má búast við  frágangi sem sómi verður af.

Með kveðju Tryggvi L. Skjaldarson

Starfsmaður Alcan 

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 18:18

2 identicon

Heyr heyr. Gnúpverjahreppur er mín heimasveit og ég er þér svo hjartanlega sammála!!

"Svo rís fjöldi manns á lappir, þegar reisa á þrjár nettar stíflur á landi sem að stórum hluta fer undir vatn í hvert sinn þegar krapi stíflar ána". Ég  held min kæri starfsmaður Alcan að þú hafir aldrei komið austur í hreppa!!  Ef þú hefðir gert það vissir þú að þessi fullyrðing þín er langt í frá að vera rétt.  Það var Hvítá sem flæddi yfir bakka sína um daginn Ekki Þjórsá. Eins ógnvekjandi og hún getur verið hefur hún otfast verið stillt og engum til mikins ama.  Með þessum þremur stíflum fara undir vatn heilu jarðirnar og fólk gæti þurft að bregða búi vegna þess að einhverjir smáhópar komi til með að auðgast á því.  Hvað með okkur unga fólkið, börin okkar og barnabörnin. Ég vil halda sveitinni minni eins og hún er og ég vil geta sýnt börnunum mínum og barnabörnum fallega landið ósnortið. 

Ég er ósjaldan búin að fara ríðandi upp með Þjórsá og það er stórkostlega fallegt. Ég er ekki tilbúin að fórna landinu mínu.

Er ekki komið nóg af virkjunum?! Viljum við sýna ferðamönnum náttúrufegurð eða uppistöðulón!?

Álfheiður Viðarsdóttir (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 09:01

3 identicon

Ágæta Álfheiður.

Er einhver sveit ljót á Íslandi? Ekki veit ég til þess. Sveitin þín er falleg en ósnortin er hún ekki.    Heilu jarðirnar fara ekki undir vatn og enginn þarf að bregða búi vegna virkjunar Þjórsár.  Það er bara ekki rétt. 

Við sýnum ferðamönnum uppistöðulón með stolti þegar við mætum með þá á Þingvelli.  Og við sýnum þeim affall af jarðvarmavirkjun í Bláa Lóninu. 

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson

Starfsmaður Alcan

P.S.

Ég bjó í Rangárþingi í 18 ár.  

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband