Sögulegt tækifæri fór forgörðum

Í dag hafði forysta Knattspyrnusambands Íslands tækifæri til að kjósa Höllu Gunnarsdóttur sem forseta sambandsins. En því miður þekktu þeir ekki sinn vitjunartíma. Á móti Höllu buðu sig fram tveir fulltrúar karla, Geir Þorsteinsson og Jafet Ólafsson. Geir sigraði í kjörinu og hlaut 86 atkvæði, Jafet fékk 29 og Halla 3.

  

Úrslitin koma að vissu leyti á óvart. Ekki það að forystan veldi ekki konu í leiðtogasætið og ekki það að það skyldi vera Geir sem sigraði. Hann hefur staðið sig mjög vel sem framkvæmdastjóri KSÍ undanfarin ár og uppbygging knattspyrnunnar verið mikil í hans tíð. Reyndar hefur afstaða KSÍ til kvennaknattspyrnunnar verið mjög umdeild, sérstaklega sú mismunun í greiðslum til karla og kvenna sem leika fyrir hönd Íslands hér heima og erlendis.

  

Það sem kemur mér mest á óvart er að Halla skyldi einungis fá 3 atkvæði. Nú veit ég ekki hvernig kynjahlutfallið er á þingi KSÍ, en reikna með að kynsystur Höllu hafi verið þó nokkuð fleiri en þrjár. Halla hefur að undanförnu ritað margar upplýsandi greinar um afstöðu sína til knattspyrnunnar og þær hafa sýnt að þar fer ung kona sem veit sínu viti og er vel treystandi til góðra verka. En því miður KSÍ virðist vera „trénaður karlaklúbbur“ eins og Hrafn Jökulsson komst að orði í mjög upplýsandi bloggi um hvernig óþverrapennar, einkum á spjallsvæðum gömlu knattspyrnustórveldanna, KR og Vals, hafa reynt að svívirða og niðurlægja Höllu með orðbragði sem lýsir hugsanagangi ekki ósvipuðum og þegar konur léku fyrst knattspyrnu hér á landi á fyrstu áratugum síðustu aldar.

  

Árið 1914 stofnuðu stúlkur á Ísafirði Fótboltafélagið Hvöt en einungis strákar gátu orðið félagar í Fótboltafélagi Ísafjarðar. Flestar stúlkur í bænum voru í félaginu sem starfaði í tvö til þrjú ár og léku þær innbyrðis og við „púkafélög í bænum“. Um svipað leyti æfði hópur stúlkna í Reykjavík knattspyrnu hjá Axel Andréssyni í Víkingi. Ekki voru allir á eitt sáttir og var alls konar sögum komið á kreik um óhollustu íþróttarinnar fyrir konur. Því var haldið fram að stúlkur fengju stórar lappir og gætu ekki eignast börn ef þær iðkuðu knattspyrnu. Þetta varð til þess að kvennaknattspyrnan fékk skjótan endi á þessum árum og var ekki endurvakin fyrr en hálfri öld seinna um 1970.
(Heimild: Bókin Knattspyrna í heila öld eftir undirritaðann og Víði Sigurðsson, gefin út af h KSÍ 1997)

Kvennaknattspyrnan á Íslandi stendur mjög vel um þessar mundir og hefur árangur landsliðsins verið mun betri í alþjóðmótum en hjá körlunum. Engu að síður ríkja enn fordómar sem minna á hugarfarið fyrir einni öld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á virkilega að kjósa konu hvar sem hún er í framboði bara vegna þess að hún er kona. Hvað með homma ,lespiur og byara.

sveinn hansson (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 21:43

2 identicon

Ég get nú ekki skrifað undir þetta hjá þér....virkar einsog þetta sé skrifað án þess að hafa kynnt sér málið. Það er ekki það sama að koma vel fyrir og að stjórna knattspyrnuhreifingunni á Íslandi.

Júlli (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband