9.2.2007 | 00:02
Flagarinn horfinn úr Framsókn
Kristinn H.Gunnarsson hefur ákveðið að yfirgefa Framsóknarflokkinn og ganga til liðs við Frjálslynda. Þar með má segja að flagarinn sé horfin úr Framsókn, því stjórnmálaferill Kristins H. hefur lengst af verið að daðra við það að halda þingsæti. Aldrei hefur verið mögulegt að átta sig á því hvað hann stendur eiginlega fyrir.
Ég man vel eftir Kristni H. í Alþýðubandalaginu. Hans frami þar var ekki sá sem hann sjálfur óskaði eftir. Þegar los var að komast á flokkinn og hann sá að hann átti ekki mikla framtíð fyrir sér í því uppgjöri sem framundan var hoppaði hann yfir í Framsókn og daðraði við ráðandi öfl þar. Eftir að Frammarar höfðu gefið honum undir fótinn og hann beitt öllum sínum persónutöfrum var hann tekinn upp á arma flokksins og borinn fram til öruggs þingsætis. En flagarinn átti erfitt uppdráttar. Allir aðrir voru teknir fram yfir hann.
Flagarinn má eiga það að hann móaðist við ýmsum ákvörðunum sem hirðin sameinaðist um. Hann var ekki sáttur við þá línu sem lögð var af forystunni. Hann var heldur ekki sáttur við þá upphefð sem hann fékk hjá flokknum. Hann vildi meira. Hann var jú fæddur flagari og var tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að komast yfir það sem hann þráði.
Eins og Kasanóva varð hann undir í þeirri rimmu. Og eins og Kasanóva átti hann erfitt með að sætta sig við það hlutskipti. Svo hann leitaði á ný mið.
Þau mið hafa Frjálslyndir opnað fyrir honum. Hans hlutskipti er nú að róa á mið útlendingahatursins með Guðjóni Arnari, Jóni Magnússyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni til að landa þingsæti enn einu sinni.
Athugasemdir
Ég verð nú satt best að segja fyrir vonbrigðum með þig núna nafni.Ég taldi þig vel upplýstan mann.Þú hefur að sjálfsögðu allan rétt á að hafa þínar skoðanir á mönnum og málefnum. En það er ekki að sjá að þú hafir kynnt þér stefnuskrá Frjálslyndra vel fyrst að þú sakar flokksmenn þeirra um útlendingahatur.
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 00:44
rifjaðist upp hjá mér smá söguskoðun, þegar bandarískir hermenn komu hingað um 1954 eða svo, (gæti verið annað ártal) þá báðu íslensk stjórnvöld um að ekki kæmi hingað svartir hermenn, því þeir gætu hrætt fólk ef þeir mættu þeim á götu, væru svo óvanir svona framandi fólki. veit ekki hvort hægt sé að uppfæra þetta á frjálslynda flokkinn
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.