8.2.2007 | 00:01
Skotveiðileyfi á pyngjur almennings
Sparisjóðirnir kosta veðurfréttir Sjónvarpsins um þessar mundir. Frost í boði sparisjóðanna. Allavega ríkir almennt frost í huga almennra viðskiptavina bankakerfisins í heild sinni til viðskiptabankanna vegna þess vaxtaorkurs sem ríkir hér á landi á sama tíma og þeir skila methagnaði.
Á undan veðurfréttunum birtist stutt auglýsing frá sparisjóðunum. Þú hefur kannski ekki efni á Elton John í afmæli þitt. En með séreignalífeyrissparnaði sparisjóðanna getur látið drauma þína rætast á efri árum, eða einhvern veginn þannig. Og á eftir frostaspánni kemur auglýsingin: Þú hefur kannski ekki efni á að kaupa banka en með séreignalífeyrissparnaði sparisjóðanna getur látið drauma þína rætast á efri árum.
Þeim sem voru gefnir bankarnir, hafa efni á Elton John, Duran Duran, kampavíni og styrjuhrognum, einkaþotum and jú neim itt. Það var jú gefið út skotveiðileyfi á pyngjur landsmanna handa þeim. Veiðiskýrslurnar hafa verið að birtast í uppgjörum þeirra.
Ekki að ég öfundi þá. Hef aldrei fílað Elton John og Duran Duran. Hlustið frekar á Pretty Things og Kinks hér neðar á síðunni. Það eru alvöru töffarar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.