7.2.2007 | 00:02
Við ysta haf
Á liðnu sumri ferðuðumst við hjónin um Vestfirði. Þetta var fimmta ferð okkar um firðina enda eru Vestfirðir alveg sér á parti. Þeir eru rammíslenskir án þess að minna á neitt annað á Íslandi. Í þessari ferð heimsóttum við nokkra staði sem við höfðum aldrei komið áður á. Þar má nefna Rauðasand þar sem andi Svartfugls sveif yfir vötnum. Selárdal þar sem styttur Samúels stóðu vörð við úthafið. Vatnsfjörð þar sem séra Baldur sýndi okkur kirkjuna og sagði nokkur velvalin orð um Framsókn, efast reyndar um að hann hafi neina trú á því að Flagari leynist í Framsókn.
Einn af þessum stöðum sem við sáum í fyrsta skipti var Látrabjarg. Þar var fuglalífið skoðað á þessum hrikalega stað. Frá Látrabjargi héldum við til Breiðavíkur en þar höfðum við pantað gistingu og kvöldverð.
Breiðavík er mjög fallegur staður þarna út við ysta haf. Við fengum mjög góðan viðurgjörning og við borðið hjá okkur sátu tvær konur sem þekktu til sögu staðarins. Þær sögðu að þarna hefði verið heimili fyrir unga drengi á sjötta og sjöunda áratugnum sem hefðu lent í ýsmum hremmingum. Við vorum undrandi á því að þeir hefðu verið vistaðir svona afskekkt en það voru aðrir tímar þá og önnur úrræði notuð en í dag.
Eftir kvöldverðinn gengum við tvö niður í fjöru og horfðum á brimið og tíndum skrautlega steina. Þaðan héldum við síðan upp að kirkju sem stendur þar uppi á hól. Það hvíldi mikil ró og friður yfir þessum stað þótt margir ferðamenn væru þarna samankomnir.
Um nóttina sváfum við svo í einu herbergjanna. Eitthvað vesen var með sturtuhausinn en því var kippt í liðinn fyrir okkur. Starfsfólkið var lipurt og fúst að ræða við okkur um stað og staðhætti. Það vildi hinsvegar lítið ræða um fortíð staðarins, sagðist ekki þekkja hana. Gaf okkur hins vegar góð ráð hvernig best væri að slípa fjörusteinana, einkum grænlendingana sem þau kölluðu svo, en þeir voru smáir hnöttóttir grænir steinar og var það trú manna að þá hefði rekið yfir hafið frá Grænlandi.
Ekki man ég eftir neinum sérstökum draumförum um nóttina og morgunin eftir kvöddum við staðinn ánægð með vistina og héldum áfram okkar för.
Ég var því mjög sleginn þegar ég heyrði af þeim atburðum sem þarna hefðu átt sér stað. Þegar ég horfði á Lalla Johns og aðra harðjaxla á svipuðu reki og ég vikna og tárast þegar þeir rifjuðu upp það helvíti sem þarna var og þá ómanneskjulegu framkomu og harðræði sem þeir þurftu að upplifa þarna fyrir 30 til 40 árum varð mér hugsað til þess að kannski hafi ég sofið í sama herbergi og einhver þeirra.
Ég man að á þessum árum þegar ég var á sama aldri og þessir drengir þegar þeir voru sendir þarna vestur þá var stundum haft í hótunum að senda óþekktarorma á vandræðabarnaheimili. Þetta var einskonar grýla á ungviðið. Samfélagið hafði því örugglega einhvern ávæning af því að þessi vandræðabarnaheimili væru ekki til fyrirmyndar. Samt fékk þetta að viðgangast í áratugi.
Því miður er þetta ekki eina dæmið um svona helvíti sem börn voru skikkuð í. Sagan af Bjargi er þekkt og eflaust eru dæmin fleiri. Það er skylda samfélagsins að grandskoða þetta mál og aðstoða þessa einstaklinga fjárhagslega og með síðbúinni áfallahjálp eins og Atli Gíslason sagði í Kastljósi. Það minnsta sem stjórnvöld geta gert er að biðja fórnarlömbin opinberlega afsökunar eins og eitt fórnarlambanna krafðist.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.