6.2.2007 | 00:07
Gróðavegurinn yfir Kjöl
Pistill minn í gær um Kjalveg vakti talsverð viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Einhverjir virtust halda að til að aka Kjalveg að sumarlagi þyrfti fjórhjóla jeppatröll sem eins og þeir sem farið hafa norður eða suður Kjöl vita að er ekki rétt. Hvaða bíll sem er, sé hann gangfær, kemst auðveldlega þessa leið. Einn hafði meiri áhyggjur af lakkinu á bílnum sínum ef hann þyrfti að skrölta malarveg en því umhverfisslysi sem uppbyggð malbikuð hraðbraut yfir Kjöl yrði. Haldi hann sig bara á malbikinu, nóg er víst af því.
En þeir voru líka nokkrir sem tóku undir afstöðu mína og benti Pétur Þorleifsson á grein eftir Ögmund Jónasson á heimasíðu sinni frá því í júlí 2005 þar sem hann spyr hvort við viljum láta rukka okkur fyrir að aka yfir Kjöl.
Ómar Ragnarsson segir eftirfarandi í athugasend sinni við færslu mína: Stórt atriði sem allir gleyma er hávaðinn. Á veginum um Bláskógaheiði við Þingvelli er 50 km hámarkshraði og vegurinn bugðóttur. Það er gríðarlegur munur á slíkum ferðamannavegi og trukkavegi á Kili þar sem hávaðinn af hjólbörðunum á trukkunum er ótrúlega mikill. Þá bendir hann á að ávinningurinn við þessa vegalagningu sé 22 km. stytting vegarins frá Reykjavík til Akureyrar því hægur vandi sé að stytta leiðina um þjóðveg 1 um 25 kílómetra í byggð. Það þýðir korter á löglegum hraða. Á að fórna hálendinu fyrir korter?
Eitt var það sem ég ekki nefndi í pistlinum en það var að Norðurvegur ehf. sem vill ráðast í þessa einkaframkvæmd ætlar ekki að skila veginum til ríkisins þegar hann hefur borgað sig upp. Í stað þess á að græða um aldur og æfi á vegtollinum. Þetta er því orðinn gróðavegur eins og Mörður Árnason bendir á á heimasíðu sinni.
Og hverjir skyldu skipa stjórn Norðurvegar. Það eru Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, Jóhannes Jónsson í Bónus, Eiður Gunnlaugsson framkvæmdastjóri Kjarnafæðis, Kjartan Ólafsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og Gunnar Þorgeirsson formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi. Þessum mönnum á að færa á silfurfati gróðaveginn yfir Kjöl.
Fyrst var kvótinn gefinn, síðan Síminn, þá bankarnir og nú vegakerfið.
Athugasemdir
Það er ég viss um að það verði nokkurnvegin ólíft vegna hávaða á gjörvöllu miðhálendi Íslands ef það fæst í gegn að leggja þennan vegaspotta... sem ég efast ekki um að verði raunin á endanum fyrst að andstæðingar þessarar framkvæmdar geta ekki mótmælt henni nema með því að grípa í gjörsamlega fráleitar ýkjur máli sínu til stuðnings. Ýmislegt skrýtið hefur verið sagt í umræðu síðustu ára um náttúruvernd en ég held að leiðari moggans í dag slái alveg nýjan tón, þar segir Styrmir: "Framkvæmdir sem hafa áhrif á hina ósnortnu náttúru miðhálendisins eiga ekki að vera til umræðu." Einmitt það, nú gerist maður sekur um umhverfisglæp með því einu að tala um að bæta skilyrði fólks til þess að búa, starfa eða reka fyrirtæki á landsbyggðinni ef það felur í sér áætlanir um að svo mikið sem snerta við hálendinu. Það er látið eins og það standi til að varpa kjarnorkusprengju á hálendið en ekki leggja þar 8,5 metra breiðan veg um þann hluta þess sem nú þegar er mest umferð um. Ég er alveg sammála því að sjarminn við hálendi Íslands felst meðal annars í því hversu óaðgengilegt það er og kyrrlátt en kommon! við erum að tala um svæði sem er tugir þúsunda ferkílómetra að stærð, uppbyggður Kjalvegur "eyðileggur" það ekki eins og dramadrottningin Styrmir heldur fram. Ég stend í þeirri trú að það sé hægt að gera þetta í góðri sátt við náttúruna og hef aldrei komist inn í þennan hugsunarhátt sem virðist ráða för hjá sumum að öll mannana verk séu eins og æxli í móðir náttúru. Er í alvörunni ekki hægt að finna sér eitthvað þarfara að gera en að standa í stríði við sjálfsbjargarviðleitni landsbyggðarfólks?
p.s. Auðvitað á vegurinn að afhendast ríkinu þegar kostnaðurinn hefur verið upp greiddur, veit ekki hvernig þeim dettur eitthvað annað í hug þessum köppum.
Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 00:54
Varðandi kílómetrana 25 sem Ómar Ragnarsson minntist á að væri hægt að spara á láglendi: ekki séns. Þessi stytting á að eiga sér stað á þremur stöðum skv. svari Sturlu við fyrirspurn í þinginu síðasta haust. Í fyrsta lagi er það brúargerð yfir Grunnafjörð sem á að spara 1 km (á þjóðvegi 1, aðalávinningurinn af þeirri framkvæmd væri reyndar stytting leiðar á milli Borgarness og Akraness), það er sennilega umhverfislega óverjandi fyrir ekki meiri styttingu (eða er náttúran minna virði eftir því sem hún er nær sjávarmáli), kostnaðurinn væri 1,3 milljarður. Í öðru lagi er stytting framhjá Blönduósi um 15-16 km, kostnaðurinn við þá styttingu væri tæpur milljarður. Það er sú framkvæmd á núverandi hringvegi sem myndi skipta mestu. Það er bara eitt vandamál, heimamenn samþykkja það aldrei nokkurntíman, þeir hafa raunar þegar hafnað henni nokkuð afgerandi. Í þriðja lagi er ný lega vegarins um Skagafjörð sem myndi fela í sér nýja brú á Héraðsvötn talsvert sunnar og að vegurinn lægi ekki í gegnum Varmahlíð, verðmiðinn hér er í kringum 500 millur og möguleg stytting er 2-3 km. Ég held að flestir séu sammála um að þetta sé afskaplega stór framkvæmd fyrir ekki meiri ávinning og að litlar líkur séu á að þetta verði að veruleika. Þegar þetta er talið saman fáum við út 18-20 km styttingu. Ég veit ekki hvaðan Ómar fær þessa 5 í viðbót, Sundabraut hugsanlega? Samanlagður kostnaður við ofangreindar framkvæmdir er 2,8 milljarðar fyrir styttingu upp á í mesta lagi 20 km sem væntanlega yrði greiddur af skattborgurum. Er þá ekki gáfulegra að gera þetta almennilega um Kjöl og láta notendurnar borga?
Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 03:13
Ekki veit ég hvernig umræða um svona mál fer fram. Í fljótu bragði virðist þetta gerast þannig að menn taka tölur sem fram hafa komið, helminga þær eða færa þær til þannig að þær henti þeirra málstað og leggi þær svo til grundvallar rökum sínum. Það hefur til dæmis margsinnis komið fram að leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur styttist um 50 kílómetra við þessa framkvæmd. Svo virðist sem pistilhöfundur eða Ómar Ragnarsson hafi helmingað þá tölu til að eiga léttara með að færa rök fyrir máli sínu.
Öllum má vera ljóst að þjóðvegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur er einfaldlega of mjór og gamall. Þegar hann var hannaður og byggður voru þungaflutningar á sjó en ekki á vegakerfinu. Nú hefur strandsiglingum verið hætt og þungaflutningar komnir saman við almenna umferð með tilheyrandi hættu. Það er því ekki um annað að ræða en að tvöfalda þjóðveginn með tilheyrandi kostnaði eða að leggja annan veg þannig að menn hafi val um leiðir. Það virðist sýnu ódýrara að fara síðarnefndu leiðina.
Ég ók Kjalveg í fyrrasumar og gat ekki séð að ég væri að aka um óspillta náttúru. Talsvert nýr, uppbyggður vegur hefur þegar verið lagður mikinn hluta leiðarinnar úr norðri og var það gert í þágu Blönduvirkjunar. Uppistöðulón þeirrar virkjunar eru stór hluti þess landslags sem sést þegar vegurinn er ekinn. Er það snú ósnortna náttúra sem þarf að vernda. Hvernig geta menn haldið því fram að virkjanir séu á einum stað umhverfisspjöll og á öðrum stöðum "ósnortin náttúra".
Hávaðamengun hefur verið nefnd. Hvers vegna er hún svona mikið mál í sambandi við þennan veg en ekki óheftan akstur torfærubifreiða, vélsleða, bifhjóla og fjórhjóla um hálendið allt árið um kring? Er það hugsanlega málið að menn líti á hálendið sem leiksvæði fyrir fámennan hóp manna, burtséð frá því hvernig það fer með náttúruna, en ef til greina kemur að nýta það fyrir almenning þá fara menn í umhverfisverndarfötin til að verja sérhagsmuni þessa þrönga hóps.
Rykmengun er annar hluti þessa máls. Verulegt ryk losnar á Kjalvegi eins og staðan er í dag og leggst yfir þann gróður sem er í kring. Verði lagður þarna vegur, með bundnu slitlagi, ætti þessi losun að verða miklu minni.
Á ferð minni um Kjalveg sá ég víða merki um utanvegaakstur. Þarna er væntanlega á ferðinni sá hópur manna sem pistilhöfundur vill að hafi sérstök afnota af hálendinu. Hluti skýringarinnar á þessum utanvegaakstri er reyndar sú að vegurinn, sem liggur um Kjöl, er stundum það ósléttur að menn freistast til að aka utan hans til að komast hraðar og/eða hlífa bílum sínum og forðast skemmdir á þeim. Þetta vandamál mundi að mestu leysast ef byggður væri almennilegur vegur. Í fyrsta lagi færu menn hraðast yfir á veginum sjálfum en ekki utan hans og í annan stað er mjög örðugt, svo ekki sé meira sagt, að komast út fyrir uppbyggða vegi þar sem ekki er til þess ætlast, og því ætti að vera hægt að stýra betur ferðum fólks.
Ávinningurinn af framkvæmdinni er ótvíræður. Í fyrsta lagi er leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur stytt um 50 kílómetra með tilheyrandi lækkun vöruverðs. Í annan stað er leiðin milli vinsælustu ferðamannastaðanna á Íslandi, Gullfoss og Geysis annars vegar og Mývatns og Dettifoss hins vegar, stytt um liðlega 150 km. Þetta ætti væntanlega að fjölga heimsóknum erlendra ferðamanna á viðkomustaði á Íslandi og þannig færa ferðaþjónustunni viðbótartekjur. Til viðbótar kemur svo almennur sparnaður einstaklinga vegna lægri ferðakostnaðar, milli staða á Íslandi, og sá tími sem sparast við að aka styttri leið. Lagning Kjalvegar er því á allan hátt þjóðhagslega hagkvæmur og engu er fórnað.
Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 08:55
Ég ætlaði að fara að leggja orð í belg um þetta málefni en sé að það er óþarfi því Hreiðar Eiríksson segir flest sem segja þarf. Ég er sammála öllu sem hjá honum kemur fram. Auðvitað er ekki sama hvernig þessi framkvæmd er lögð fram enda mun umhverfismat skera úr um það. Ég persónulega var ekki hrifinn þegar ég keyrði um árið bæði sprengisand og kjöl. Ég varð að halda mig í mörg hundruð metra fjarlægð frá næsta bíl vegna rykmengunnar og svo sá maður ryk strikin eins lang og augað eygði. Í þessari framkvæmd er fólgin mikið öryggisatriði fyrir vegfarendur um þessar slóðir auk þess sem hún minnkar álagið á hinni hefðbundnu leið norður. Og ég man ekki betur en Ómar Ragnarsson hafi gert sjónvarpsþátt um þetta þjóðþrifamál þar sem hann lofaði hugmyndina í bak og fyrir. Viðtal í gær við Árna Finnson segir allt um hvers er að vænta ú þeirri átt. Þ.e. að vera á móti öllu, það er bara prinsipp mál. Ég er hinsvegar gáttaður ef þjóðin eignast ekki veginn þegar fjárfestingin hefur borgað sig upp. Það verður að setja lög um þess háttar.
Gunnar Th. Gunnarsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 09:20
Ég hef einu sinni farið Kjalveg og ekki væri ég nú áfjáður í að fara hann á fólksbíl nema mér væri alveg sama um hann.
Sprengisandsleið er ekki fólksbílafær.
En ein rökin hjá öfgaliðinu á móti nýjum Kjalvegi að það sé svo mikill hávaði í flutningabílunum........ hugsa sér bullið.
En allt snýst bara um það að stytta vegalengdina á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hvað með aðra staði?
Æskilegra væri að leggja nýjan veg um Sprengisand til norðurlands og líka til austurlands. Verum víðsýn.
Hins vegar þarf fyrst klára að gera þjóðveg 1 umhverfis landið boðlegan. Það skortir mikið á um að svo sé í dag.
Stefán Stefánsson, 6.2.2007 kl. 23:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.