Merki flokka

Ég fór að hugleiða merki stjórnmálaflokkanna þegar Valdimar Leó setti upp merki Frjálslynda flokksins í beinni útsendingu í Silfrinu. Fyrr í haust hafði hann tekið niður merki Samfylkingarinnar í beinni útsendingu í sama þætti eftir útreiðina í prófkjöri flokksins í haust. Hvað tákna eiginlega þessi merki? Er einhver hugsun á bak við þau? Hver er tilgangurinn með þeim? Eru þau kannski bara til þess að Valdimar Leó geti skipt reglulega um merki í barminum? 

Skoðum merkin aðeins. Fyrst skulum við taka merki Samfylkingarinnar sem Valdimar Leó afhenti Agli í Silfrinu. Lítill rauður áferðarfallegur depill. Kannski táknrænt fyrir fylgi Samfylkingarinnar í dag. Merki Frjálslyndra: hálf groddalegt eins og yfirbragð flokksins er. Vinstri grænir: Var einhver að misskilja eitthvað eða er verið að auglýsa Vegagerðina, arfleifð frá tímum Steingríms í samgönguráðuneytinu. Framsókn: Bæði gamla og nýja merkið eru óttalega Framsóknarleg. Fálka Sjálfstæðisflokksins má leggja út á ýmsan hátt. Sá gamli var tákn sjálfstæðisbaráttunnar en  sá nýi stílfærði minnir frekar á þýskt bílamerki. Svo kviknar alltaf ljóðlínan „ein er upp til fjalla“ í huga manns þegar maður sér merkið. 

vindill1

Tengdamóðir mín heitin starfaði hér á árunum áður í mötuneyti Alþingis. Hún ákvað að safna barmmerkjum þáverandi flokka á þingi, en flestir þeirra eru nú horfnir. Það gekk greiðlega að fá merkin frá öllum flokkunum nema frá Borgaraflokknum. Hún hafði ítrekað beðið Albert Guðmundsson að útvega sér merkið en einhverjar vöflur verið á knattspyrnuhetjunni, sennilega þar sem merkið hafði ekki verið framleitt. „Það fer að koma,“ var viðbáran. Svo eitt sinn þegar frú Ester spurði Albert hverju liði merkinu þá brást hann við og dró vindil upp úr brjóstvasanum og sagði: „Gjörðu svo vel, hér er merki Borgarflokksins.“ 

Þennan vindil erfði ég síðan og má sjá hann hér á myndinni fyrir ofan. Sennilega er vindillinn besta merki stjórnmálaflokks fyrr og síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefur þú áttað þig á því að merki VG blómstrar til hægri en er óttarleg eyðimörk og snautt til vinstri.
Geir Hólmarsson

Geir Hólmarsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband