22.1.2007 | 11:01
Frjálslyndu flóttamannabúðirnar
Þegar ég heyrði úrslitin í prófkjöri Framsóknar á Suðurlandi skaut þeirri hugsun niður í koll minn að nú bættist Frjálslyndum enn einn liðsmaðurinn. En þar misreiknaði ég mig. Hjálmar Árnason lýsti því strax yfir að hann myndi draga sig út úr pólitíkinni þegar kjörtímabilinu lyki. Öllu meiri reisn er yfir því heldur en að hlaupa inn í pólitískar flóttamannabúðir Frjálslyndra.
Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Suðurnesjamenn að ekki er útlit fyrir að þeir muni fá neinn þingmann í vor. Þetta svæði er talsvert frábrugðið landbúnaðarhéruðunum á Suðurlandi og útvegsbænum Vestmannaeyjum. Á Suðurnesjum má búast við mikilli gerjun á komandi árum eftir að herinn er farinn og því slæmt fyrir svæðið að eiga ekki fulltrúa á þingi.
En aftur að Frjálslyndum. Sá Valdimar Leó lýsa því yfir í Silfrinu að hann væri horfinn í flóttamannabúðirnar enda svifi kratismi þar yfir vötnum. Og nú herma fréttir úr bloggheimum (Sjá HUX-Péturs Gunnarssonar) að Kristinn H. Gunnarsson fari fram í fyrsta sæti í Norðvesturkjördæmi og Guðjón Arnar flytji sig til Reykjavíkur. Þetta á þó allt eftir að skýrast um næstu helgi þegar uppgjörið fer fram hjá Frjálslynda flokknum.
Athugasemdir
Ágætur pistill hjá Sigurði Á. Friðþjófssyni um hinar frjálslyndu flóttamannabúðir. Þetta minnir auðvitað enn og aftur á óborganleg ummæli Sverris Hermanssonar í Silfri Egils fyrir áramót. Þar lýsti öldungurinn frá Ögurvík því yfir svo ágætlega að hann "... Guðjón er góðmenni og er að skjóta skjólshúsi yfir pólitíska umrenninga." Sífellt fleiri umrenningar leita nú í hinn frjálslynda rann - flokkaflakkarar sem eiga sér ólíkan bakgrunn og eru svo sundurlaus hjörð að flokkurinn er dæmdur til að vera illa starfhæfur.
Kveðja,
Sigurður Bogi Sævarsson.
Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 07:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.