Við erum öll plebbar inn við beinið

Til hamingju kynbræður með bóndadaginn í gær, eina daginn sem okkur eru færð blóm. Ég fékk fjólubláa túlípana, enda konan mjög hrifin af þeim. Það jákvæða við þorrann í ár er HM í handbolta. Þótt strákarnir burstuðu Ástrali í dag segir það ekkert til um framhaldið. Reyndar leist mér ekkert á liðið í upphafi seinni hálfleiks. Þess ber þó að gæta að Alfreð hafði þá tekið útaf marga af burðarásum liðsins og sett inn minni spámenn, sem sumir áttu eftir að blómstra þegar á leikinn leið, menn eins og t.d. gaflarinn Ásgeir Örn. Við feðgarnir vorum reyndar að leika okkur að því að telja fulltrúa okkar bæjarfélags í liðinu og hlutfallslega held ég að Hafnarfjörður eigi vinninginn. Birkir Ívar, Logi Geirs, Ásgeir Örn og Vignir Svavars, 4 af 17 eða tæp 25% af hópnum.

 

Horfði síðan á leik Frakklands og Úkraínu. Frakkarnir sýndu stórleik enda býst ég við að þeir landi bikarnum í lokin en ég er enn hálf hræddur við Úkraínu þótt ekki hafi blásið byrlega hjá þeim í dag. Ég held að það verði hörkurimma á morgun. Með góðri einbeitingu, leikgleði og sigurvilja eigum við þó að hafa það.

 

Það hvarflaði að mér í vikunni að ástæðan fyrir þessu ofurkappi menntamálaráðherra á að keyra RÚV ohf frumvarpið í gegn sem fyrst hafi verið að hún vildi komast með Kristjáni frænda til Þýskalands til að fylgjast með keppninni. Ég skil það vel en nú er nokkuð ljóst að umræða um frumvarpið mun standa eitthvað fram í næstu viku og því ekki einu sinni víst að Þorgerður Katrín geti fylgst með leikjunum í beinni í sjónvarpinu. Komist strákarnir hins vegar áfram upp úr riðlinum ættu skötuhjúin að geta fylgst með framhaldinu á vettvangi.

Þorrinn hefst ekki bara með HM því undankeppni Júróvisjón er einnig skollin á. Stundum getur verið gaman af því brambolti eins og í fyrra þegar Silvía Nótt setti allt á annan endann, en yfirleitt er þetta nú frekar þunnur þrettándi sem tæpast er á vetur setjandi. Engu að síður mun þjóðin, og ég tilheyri jú henni, fylgjast með þegar í lokakeppnina kemur. Við erum jú öll plebbar inn við beinið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband