19.1.2007 | 11:19
Börn - fullorðins kvikmynd
Í gærkvöldi sannfærðist ég um að íslensk kvikmyndagerð væri orðin fullorðin. Ég horfði þá á kvikmyndina Börn sem Ragnar Bragason gerði í samvinnu við Vesturport. Ég hafði haft smá fordóma gagnvart myndinni, hélt að þar sem hún var svart/hvít væri hópurinn á einhverju artí smartí kenderíi, auk þess sem ég hef ekki verið trúaður á að hópefli gæti skilað af sér alvöru kvikmynd, en leikararnir munu sjálfir hafa skapað sínar persónur í Börnum.
Ekkert af þessu reyndist rétt. Börn varpar nýju ljósi á íslenskan samtímaveruleika. Hún er svört en full af hlýju og í öllu vonleysinu leynist von. Upphafsatriðið minnti á Pulp Fiction Tarantinos en þar með lýkur þeim samanburði. Ofbeldið í Börnum þjónar alltaf tilgangi. Það er verið að sýna okkur inn í baráttu venjulegs fólks fyrir tilveru sinni. Undir lokin var ég farinn að örvænta en lokasenan þar sem þeir bræður sitja reifaðir sárabindum og gifsi eins og múmíur á spítalanum og horfa á fótbolta í sjónvarpinu, þótt hvorugur þeirra hafi nokkurn tíman haft minnsta áhuga á knattspyrnu, sannfærði áhorfandann um að þrátt fyrir allt væri lífið þess virði að lifa því.
Ég leyfi mér að fullyrða að ekki áður hefur leikur í íslenskri kvikmynd verið jafn eðlilegur og góður og í Börnum. Frammistaða leikaranna var frábær og er vart hægt að taka einn fram yfir annan þótt mest hafi mætt á Gísla Garðarssyni, Nínu Dögg Filippusdóttur og drengnum Andra Snæ Helgasyni. Þar er komin framtíðarstjarna. Einnig verður að nefna Ólaf Darra Ólafsson, Margréti Helgu Jóhannesdóttur, Sigurð Skúlason og Hönnu Maríu Karlsdóttur sem öll máluðu sínar persónur skörpum dráttum þannig að þær lifa áfram í huga áhorfandans.
Kvikmyndin Börn mun hafa verið tilnefnd sem framlag Íslands til Óskarsverðlauna en ekki komist í gegnum nálarauga bandarísku kvikmyndaakademíunnar. Þá hljóta þær myndir sem munu keppa um titilinn besta erlenda myndin vera einstakt úrval mynda. Hef reyndar séð eina þeirra, Volver eftir Almodovar. Frábær kvikmynd og á margt sameiginlegt með Börnum þótt þar séu konur alfarið í forgrunni.
Í dag verður frumsýnd kvikmyndin Foreldrar í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Hinn hluti þessarar samloku. Nú er væntingarnar miklar en eftir að hafa horft á Börnin veit ég að hópurinn mun standa undir þeim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.