Útvarp Framsókn og Bláskjár

Um miðjan síðasta áratug tók ég viðtöl við tvo mæta menn um formbreytingu á Pósti og síma. Þetta voru annars vegar Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra og hins vegar Hreinn Loftsson þáverandi formaður einkavæðingarnefndar. Ég spurði þá báða sömu spurningarinnar: „Er hlutafélagavæðing stofnunarinnar ekki fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu Pósts og síma?“

 Svör þeirra félaga voru ólík.

Halldór Blöndal (sept. 1995): „Það er ekki á dagskrá hjá mér að selja Póst og síma og slík hugmynd hefur ekki komið upp í viðræðum við starfsmenn.”

 

Hreinn Loftsson (feb. 1996): „Reynsla erlendra sérfræðinga er eindregið sú að það sé einungis skynsamlegt að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag sé ætlunin að selja það. Hlutafélagavæðingin er bara fyrsta skrefið að mínu áliti.“

 

Því var ítrekað haldið fram að hlutafélagsvæðing Pósts og síma á sínum tíma væri fyrsta skrefið til að einkavæða þá þætti stofnunarinnar sem skiluðu hagnaði, þ.e. símann. Þessu var stöðugt neitað af stjórnarmeirihlutanum en annað kom síðar í ljós.

 

Það sama á við í dag varðandi Ríkisútvarpið. Sá er þó munur á að einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað talað fyrir einkavæðingu stofnunarinnar, þar á meðal formaður menntamálanefndar Sigurður Kári Kristjánsson. Engu að síður þvertaka þingmenn meirihlutans fyrir það að ætlunin sé að einkavæða í framtíðinni. Hvað vakir þá fyrir mönnum?

 

Staða Framsóknar í þessu máli er all undarleg. Flokkurinn berst fyrir tilveru sinni þessa dagana. Afstaða flokksins í útvarpsmálinu er í því ljósi óskiljanleg. Það er einsog hann sé haldinn sjálfseyðingarhvöt. Vitað er að flokkurinn er haldinn virkjanafíkn eins og Ómar Ragnarsson kallar það og afrakstur þeirrar fíknar er Kárahnjúkaslysið og stóriðjubrjálsemi. Það kom hins vegar verulega á óvart þegar flokkurinn gekk til liðs við stríðsherranna í Washington og hefur því á samviskunni þær hörmungar sem fylgdu í kjölfar stríðsins í Írak. Og nú á að fórna Ríkisútvarpinu til að halda friðinn í ríkisstjórninni þá þrjá – fjóra mánuði sem hún á eftir að óbreyttu.

 Nema að hin sígildu helmingaskipti ríkisstjórnarflokkana liggi hér að baki. Vilji svo ólíklega til að þessir tveir flokkar geti myndað ríkisstjórn að loknum kosningum þá skyldi þó ekki vera inni í myndinni að skipta jafnt.Útvarp Framsókn og Bláskjár.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Eins og þú bendir sjálfur á, var um að ræða þann hluta sem skilaði hagnaði.  Hinn hlutinn er nú enn í eigu ríkisins.  Hver hefur verið hagnaður útvarpsins undanfarin ár?

TómasHa, 19.1.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband