17.1.2007 | 09:46
Það brast eitthvað
Sú var tíðin að við strákarnir ákváðum að skreppa upp að Urriðakotsvatni til að stelast til að renna fyrir silung. Fyrst þurfti að undirbúa ferðalagið vel, því það var talsverður spotti þarna upp eftir, enda engin byggð fyrir ofan Arnarhraun þá og Keflavíkurvegurinn ekki kominn, heldur fór umferðin á Suðurnes öll í gegnum bæinn. Eftir að hafa útbúið nesti og tekið til heimatilbúnu veiðistangirnar var farið niður í beitingaskúrana á Norðurbakkanum þar sem Hellyers bræður voru með fiskvinnslu fyrr á öldinni.
Þarna sátu beitingakarlarnir og og nokkrir gestir iðulega hjá þeim og komu lóðningunni fimlega fyrir í stömpunum. Bara það eitt að hugsa um þennan stað verður til þess að mér finnst ég finna lyktina sem þarna var, sambland af fiski og tjöruilm og tíminn hrekkur nokkra áratugi til baka. Það var sjálfsagt að gefa okkur beitu enda hjálpuðum við strákarnir stundum körlunum við að greiða úr flækjum og færa til stampa.
Síðan var lagt af stað upp á hraun með nesti, stangir og úrvals beitu. Fyrir ofan Arnarhraun voru fiskvinnsluhús og þar fyrir ofan í Kapplakrika, þar sem nú er íþróttasvæði FH, var einhverskonar fiskrækt, sennilega ein sú fyrsta á Íslandi. Við horfðum löngunaraugum þangað þegar við gengum þar framhjá með stangirnar en vissum sem var að ef við yrðum staðnir þar að verki yrðum við ekki teknir neinum vettlingatökum.
Við héldum svo upp með Urriðakotslæknum í stórbrotið hraunið að vatninu. Þar gátum við staðið í skjóli við kletta og hent út í. Þetta var ævintýraheimur. Í hlíðinni hinu megin við vatnið voru tóftir gamla Urriðakots og í huganum kviknuðu ævintýri sem hófust á frægri dægurlagatextalínu sem hljómaði iðulega á frívaktinni: Þar stóð bær með burstir fjórar.
Ekki urðum við varir þennan daginn. Ég hef nú alltaf verið hálfgerð fiskifæla. Einna helst að marhnútar bitu á hjá mér á bryggjunni í Hafnarfirði. En minningin um þessa ferð okkar strákanna er böðuð rómantík bernskunnar, enda umhverfið þarna einstakt.
Þessar minningar kviknuðu í kollinum á mér nú skömmu fyrir jól. Þá birtist auglýsing í sjónvarpinu. Ungur piltur knékrýpur í hrauninu fyrir framan stúlkuna og er með hringaöskju í hendi. Vel tilfundið hjá gullsmiðnum að velja þetta umhverfi til að auglýsa vöru sína, hugsaði ég. Og stúlkan lítur upp og andlitið ljómar. Ekki furða þegar hún horfir í áttina að Urriðakotsvatni.
Myndavélin eltir augnaráð hennar og hvað blasir við. Blá gulur risi merktur IKEA. Það brast eitthvað innra með mér.
Athugasemdir
Datt nú bara inn á síðuna þína af mbl.is. En ég hef búið í Setberginu alla mína ævi og langaði bara að leiðrétta það að vatnið heitir Urriðavatn. Kotið við það heitir Urriðakot. En alveg sammála þér með að það er söknuður að náttúrunni. Hef marg oft farið upp að vatninu að veiða og synda. Það voru góðir tímar
Auður (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 18:25
flott síða pabbi, greinilega vinsæll, Sunna
Sunna (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.