16.1.2007 | 10:08
Teboð í boði Alcan
Íslenskum sjónvarpsáhorfendum var boðið að fylgjast með tedrykkju frú Dorrit Moussaieff og Evu Maríu í Sunnudagskastljósinu sl. sunnudag. Þarna sátu þessar glæsilegu konur í ríkisráðsherberginu og fóru um víðan völl eins og vera ber í svona þætti. Svo komu viðtöl við tvær lafðir frá Bretlandi sem báru frú Dorrit vel söguna.
Áfram var spjallað og frú Dorrit sagði Íslendinga ekki gera sér grein fyrir því hversu heppnir þeir væru að búa í þessu landi með þetta tæra vatn og hreina loft.
Frá spjallinu er síðan farið í heimsókn í álverið í Straumsvík og Dorrit er kumpánleg við starfsmennina og hoppar upp í stóra vinnuvél og sest þar undir stýri. Því næst er rætt við íslensku lafðina Rannveigu Rist (er hún ekki örugglega komin með fálkaorðuna?), sem fer fögrum orðum um forsetafrúna. Í framhaldi af því mærir svo frú Dorrit álverið og Rannveigu Rist í bak og fyrir.
Þetta væri svo sem allt í lagi að ef ekki stæði fyrir dyrum atkvæðagreiðsla um stækkun Álversins í Straumsvík. Sú stækkun hefur í för með sér 250% aukningu á loftmengun. Tölulegar upplýsingar er að finna á heimasíðu Sól í straumi. Þar kemur eftirfarandi fram:
Loftmengun eykst líka mjög mikið við stækkun (2,5 földun), öll mengunargildi verða eftir stækkun 250% af gildunum fyrir stækkun: Svifryk frá bræðslunni fer úr 470 kg í 1.175 kg á sólarhring. Flúoríð frá bræðslunni fer úr 270kg í 675kg á sólarhring. Brennisteinsdíðxíð fer úr 7,2 tonnum í 19 tonn á sólarhring. CO2 (gróðurhúsalofttegund) fer úr 880 tonnum í 2.200 tonn á sólarhring. Ekki má heldur gleyma kerbrotunum sem urðuð eru í flæðigryfjum en magn kerbrota fer úr 8,4 tonn í 21 tonn á sólarhring.
Það er stór hluti Íslendinga sem kann að meta hreint loftið á Íslandi og vill varðveita það áfram og er því andvígur þeim áformum sem uppi eru í Straumsvík. Þess vegna orkaði þetta innslag í sunnudagskastljósið vægast sagt tvímælis og ýmsar samsæriskenningar hafa farið af stað.
Hvað á Guðmundur Magnússon sagnfræðingur og bloggari t.d. við með þessu:Detti mér allar dauðar lýs úr höfði! Nú er verið að benda mér á að það sé sami maðurinn sem annist almannatengsl fyrir forsetaembættið og álverið. Þetta hlýtur að vera algjör tilviljun. Kallar þetta ekki á frekari skýringu hjá Guðmundi?
Og að öðru. Hvenær eignuðumst við Íslendingar First lady? Fram til þessa höfum við haft forsetafrú sem útleggst á ensku, president wife. Ástæða þess að við höfum ekki First lady er að konur á Íslandi hafa fram til þessa verið jafnar. Ég þykist þó vita að ef Ómar Ragnarsson ætti að benda á First lady Íslands þá myndi hann benda á Jöklu sem nú hefur verið fórnað.
Athugasemdir
Er ekki mesta mengunin hérlendis að verða hugarfarsmengun sem tröllríður húsum í áróður á móti nýtingu vatsnorku og jarðvarma og álverum hérlendis. Hver er þessi "mengun". Hefur einhver drepist í álveri - eða veikst alvarlega - hvað margir? Bráðum má ekkert veiða úr hafinu fyrir þessari "umhverfisvernd" allri- Hvað á þá þá að gera?
Hvað með mengunina af hvölunum? Hvað er mikil CO2 losun af einum 250 tonna steypireyð? Hvað þarm mörg álver - á móti 100 steypireyðum í mengun. Eitt slíkt kvikindi etur 10 tonn á sólarhring - og kúka - hugsanlega 7 tonnum á sóarhring. Fór það í umhvefismat? 100 steypireyðar kúka þá 25.500 tonnum á ári - Hvað er mikil CO2 losun af þessum 100? Það er víða mengunin - en mér finnst hugarfarsmengun eins og þessi skrif um forsetafrúna til skammar. Hún stóð sig mjög vel í í Kartljósinu og mér finnst þessi skrif dónaskapur.
Kristinn Pétursson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.