15.1.2007 | 10:46
Í hálfgerðu sjokki
Á sjötta áratug síðustu aldar þegar ég var að alast upp í hrauninu í Hafnarfirði notuðum við krakkarnir hvert tækifæri til að leika okkur úti. Þegar snjó kyngdi niður eins og gert hefur undanfarið voru grafin út snjóhús og hlaðin virki, sleðar dregnir fram og skíði eða skautar spenntir á skóna.
Á sumrin var dreginn fram knöttur og skipt í lið á Svínatúni. Það voru eltingaleikir, bófahasar, fallin spýtan, hlaupið í skarðið, kýlubolti og aðrir leikir á planinu fyrir neðan Álfaskeið 18. Síðan var hjólað upp á Hvaleyrarvöll og æfingar sóttar hjá FH. Hverfaliðin áttust svo við á túninu í Engidal.
Yfir veturinn voru leikfimitímar hjá Hallsteini í gamla fimleikahúsinu við Lækjarskóla. Okkur vantaði ekki hreyfingu í þá daga.
Um helgina var opnuð líkamsræktarstöð fyrir börn á aldrinum átta til fjórtán ára. Kortið á víst að kosta 25% minna en í hefðbundnar heilsuræktarstöðvar. Þarna eru hjól fyrir börn til að hjóla á án þess að færast úr stað. Þarna eru göngubrautir fyrir börn til að ganga á án þess að færast úr stað. Kerfið sem farið er eftir kallast Shokk.
Satt að segja er ég í hálfgerðu sjokki yfir þessu.
Athugasemdir
Skil þig vel, Sigurður, og þakka þér pistilinn, sem endurvakti með manni gamla og góða nostalgíu ...
Jón Valur Jensson, 15.1.2007 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.