12.1.2007 | 10:28
Afsökunar krafist
Las á Vísi í gær að yfir eitt hundrað sjía múslimar hafa verið hengdir í ljósastaurum og símastaurum í Bagdad, í hefndarskyni fyrir aftöku Saddams Hussein. Hinir hengdu eru venjulegir óbreyttir borgarar, sem súnní múslimar safna saman í stóra hópa til að hengja opinberlega. Þetta er uppskera hinna staðföstu ríkja.
Heilu þorpin eru bombarderuð í Sómalíu af Bandaríkjamönnum að sögn til að drepa al-Kaída leiðtoga. Þeir reyndust hins vegar ekki vera í þorpinu en fjölmargir óbreyttir borgarar þar á meðal börn lágu í valnum.
Í gær voru fimm ár eru liðin frá því að fyrstu fangarnir komu til fangabúða Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu vegna gruns um aðild að hryðjuverkum. Þegar mest var voru um 750 manns af 45 þjóðernum þar í haldi, sumir allt niður í þrettán ára gamlir. Í dag eru 400 fangar enn í búðunum sem hafa ítrekað verið beittir harðræði. Enginn hefur fengið réttað í máli sínu og enginn hefur farið fyrir dóm.
Það eru bandamenn íslensku ríkisstjórnarinnar sem standa fyrir þessu öllu. Hvenær ætla augu þeirra að opnast, ekki bara rifa eins og á augum Jóns Sigurðssonar sem lokaðist strax á þingi, heldur upp á gátt og í framhaldi af því lýsa því yfir opinberlega að það hafi verið mistök að styðja stríðsreksturinn í Írak. Í framhaldi af því er svo rétt að þeir biðji þjóðina afsökunar, nei umheiminn allan.
Athugasemdir
"Þetta er uppskera hinna staðföstu ríkja," segir Sigurður vegna 100 hengdra sjíta, sem ég var fyrst að frétta af hér og veit ekki hvort rétt sé með farið. En hengingin, sem átti að hafa verið forsenda þessara illræðisverka, var ekki verk "hinna staðföstu ríkja," heldur írasks dómstóls, sem var alls ekki á vegum "hinna staðföstu ríkja". Og illræðisverk miskunnarlausra glæpamanna, raðmorðingja sem hika ekki við að láta tilganginn helga sín illu meðöl, eru á ábyrgð gerendanna einna. Eða neitarðu því?
Jón Valur Jensson, 12.1.2007 kl. 12:20
Það þarf nú meir en lítið "sveigjanlega" rökfestu í til að sjá einhverja glóru í þessari athugasemd Jóns Vals. Samkvæmt henni væri Saddam saklaus, en mennirnir sem tóku í gikkina í Kúrdabyggðunum hinir seku, eða var Saddam kannski sjálfur á vettvangi með fingurna á gikknum? Meðan við sverjum ekki af okkur ósómann af þessu stríði, eru hendur okkar jafn blóðugar og hendur Bush - og Saddams. Svo er talað um "staðföstu ríkin" með lausum greini, svona eins og til að upphefja þau. HIN staðföstu ríki. Þvílík hræsni!
Bergþóra Jónsdóttir, 16.1.2007 kl. 00:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.