11.1.2007 | 11:24
Ég á heima á Állandi
Norsk Hyrdro sýnir Þorlákshöfn áhuga. Íhugar að reisa þar álver. Arctus, félag í eigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar, hefur fengið úthlutað lóð við Þorlákshöfn með það fyrir augum að reisa þar álver og endurbræðslu á áli til frekari úrvinnslu. Verði af þessum áformum hefur verið ákveðið að breyta nafni bæjarfélagsins í Állákshöfn.
Á Reyðarfirði eru framkvæmdir á fullu við álverið þar. Búið er að stækka álverið í Hvalfirði. Undirbúningur að álveri í Helguvík er á fullu. Alcan vill þrefalda álverið í Straumsvík. Húsvíkingar vilja sitt álver. Áhugi er í Skagafirði og heyrst hefur að Akureyringar séu volgir.
Hvar endar þetta? Í Laxdælu er sagt frá því að Ketill flatnefur hafi svarað börnum sínum svo þegar þau reyndu að draga hann til Íslands: Í þá veiðistöð kem eg aldregi á gamals aldri.
Verði þetta álæði ekki stöðvað munu flatnefir framtíðarinnar svara börnum sínum: Í það álver kem eg aldregi á gamals aldri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.