Færsluflokkur: Dægurmál
5.2.2007 | 11:43
Enga hraðbraut yfir Kjöl
Hraðbraut yfir Kjöl í einkaframkvæmd Norðurvegar ehf. Ég segi nei og tek heilshugar undir með leiðara Morgunblaðsins í dag. Verði Kjalvegur byggður upp og lagður varanlegu slitlagi hverfur þessi tilfinning sem ferðalangur fyllist í óbyggðunum. Hann er ekki lengur staddur í ósnortinni náttúru sem kallar á að hann staldri við og andi að sér hreinu fjallalofti heldur æðir hann áfram eftir svörtu malbiki og gæti þessvegna verið staddur hvar sem er í veröldinni.
Hlykkjóttur vegslóðinn sem liggur nú yfir Kjöl býður ekki upp á hraðakstur, heldur þarf vegfarandi að silast áfram, stundum á hraða snigilsins og stundum skjaldbökunnar. Þessvegna gefst tími til að meðtaka það sem fyrir augu ber, melabörðin, smáblómin, fjöllin allt í kring og gróðurvinjar sem birtast óvænt í auðninni. Þessi upplifun mun heyra sögunni til ef áform Norðurvegar verða að veruleika. Í stað þess streymir strolla af flutningabílum um veginn með trailera aftaní og aðrir vegfarendur hugsa um það eitt að sleppa lifandi úr þessum glæfraleik sem ferðalög um þjóðvegi á Íslandi eru.
31.1.2007 | 10:27
Arfavitlaus hugmynd
Ég ber mikla virðingu fyrir Ómari Ragnarssyni, jafnt sem fréttamanni, þáttagerðarmanni, skemmtikrafti og baráttumanni. Kannski mest baráttumanninum. Sú vegferð hans gegn virkjanafíkninni sem hófst sl. sumar þegar hann sagði af sér fréttamennsku um umhverfismál er sennilega eitt merkasta einstaklingsframtak sem við höfum orðið vitni að. Hann hefur hrifið með sér fjöldann og snúið umræðunni um stórvirkjanir og stóriðjuver við þannig að almenningsálitið er nú orðið andsnúið stóriðjustefnu stjórnvalda.
Þetta þýðir þó ekki að allt sem frá Ómari kemur sé hafið yfir gagnrýni. Sú arfavitlausa og umhverfisóvæna hugmynd sem kynnt var í Kastljósi þar sem Ómar fór á nostalgíurúnt með gamla góða Villa um Austurstræti var þess eðlis að ég hélt að skemmtikrafturinn Ómar væri mættur. Ónei honum virtist full alvara með þessu. Hann vill opna fyrir umferð í báðar áttir í Austurstræti og gott ef ekki Laugaveginn líka svo ungir piltar sem eru í stúlkuleit geti ekið rúntinn. Og gamli góði Villi brosti við gömlum minningum þegar hann var á rúntinum í gamla daga á veiðum, þetta voru gjöful mið, eins og hann sagði.
Eru þessir menn að ranka við sér úr áratuga dái. Í fyrsta lagi þá er útblástursmengunin í miðbænum miklu meiri en nóg nú þegar. Í öðru lagi þá eru aðrir tímar nú en þegar Tómas Guðmundsson orti um Austurstræti. Hafa þeir félagar ekki heyrt fréttir af ástandinu í miðbænum um helgar og halda þeir að það lagist ef við það bætast unglingspiltar nýkomnir á kynþroskaaldurinn undir stýri á kraftmiklum drossíum.
Nei Ómar. Höldum okkur við baráttuna gegn virkjanafíkninni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)