Færsluflokkur: Bloggar

Aukið misrétti í skattakerfinu í tíð ríkisstjórnarinnar

Talsvert hefur verið karpað um það nú í aðdraganda kosinga hvort skattbyrði hafi hækkað eða lækkað á undanförnum árum. Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram að álögur hafi þyngst á lágtekju og meðaltekjufólk en hins vegar sé skattbyrðin lægri á hátekjufólk í dag en hún var þegar ríkisstjórnin tók við fyrir 12 árum. Þessu hafa stjórnarflokkarnir mótmælt og vitna í meðaltöl máli sínu til stuðnings.  

 

Nú hefur Indriði H. Þorláksson fyrrum skattstjóri stigið fram á sviðið með eigin bloggsíðu til að birta greinaflokk um þróun skattbyrðinnar frá árinu 1992 til dagsins í dag. Ástæðan fyrir því að hann birtir þær á blogginu er sú að Morgunblaðið birti fyrstu greinina í þessum greinaflokki sl. mánudag en ekkert hefur bólað á þeim tveimur sem voru í beinu framhaldi af þeirri fyrstu. Hvort Morgunblaðið hafi ákveðið að bíða með birtingu þeirra fram yfir kosningar vegna óþægilegs innihalds þeirra skal ósagt látið hér. Óneitanlega læðist samt sá grunur að manni.  Niðurstaða Indriða H. um þróun skattbyrði er mjög á sömu nótum og stjórnarandstaðan, verkalýðshreyfingin og ýmsir hópar sem hafa átt undir högg að sækja halda fram. Það er tekjulægsta fólkið sem ber skarðastan hlut frá borði. Þessi kafli úr þriðju grein Indriða H. segir allt sem segja þarf um þetta mál: 

„Á árinu 1992 voru tekjuskattar einstaklinga að meðaltali um 17% af heildartekjum þeirra. Árið 2005 var meðalskatthlutfallið orðið um 22% og hafði því hækkað um 5 prósentustig eða rúmlega fjórðung. Hjá hjónum í lægsta tekjufjórðungi hækkaði skattbyrðin um 10 til 14 prósentustig, Hjá hjónum með meðaltekjur hækkaði skattbyrðin um 4,5 til 6 prósentustig, Hjá hjónum með hærri tekjur en ¾ hlutar allra hjóna hækkaði skattbyrðin um nálægt 2,5 prósentustig. Hjá þeim 10% hjóna sem hæstar tekjur hafa lækkaði skattbyrðin um 2 til 25 prósentustig.  

 

Réttilega hefur verið bent á að sú staðreynd að laun hafa hækkað hefur leitt til aukinnar skattbyrði. Í tekjuskattskerfi með skattleysismörk og stígandi meðalskatthlutfall gerist það sjálfkrafa ef ekki er gripið inn í og föstum kerfisins breytt. Sé breytingar gerðar í hlutfalli við tekjubreytingar helst skattbyrðin óbreytt en ef þær fylgja verðlagsbreytingum hækkar skattbyrðin á uppgangstímum og raungildi skatta eykst á kostnað ráðstöfunartekna. Í samdrætti eru áhrifin andstæða þessa. Á síðustu árum hefur hvorugri þessari aðferð verið beitt en sú leið valin að hækka ekki skattleysismörkin í samræmi við tekjur og verðlag en lækka í stað þess skatthlutfallið. Óhjákvæmileg afleiðing slíkra aðgerða er að færa skattbyrðina af þeim sem sem hafa hærri tekjur á hina sem eru tekjulægri eins og tölurnar bera með sér.

Á það hefur einnig verið bent að þrátt fyrir aukna skattbyrði hafi ráðstöfunartekjur á föstu verðlagi hækkað. Er það rétt að vissu marki en ekki algilt. Þrátt fyrir almenna hækkun tekna hafa ekki allir hærri ráðstöfunartekna en þeir hefðu haft með sömu rauntekjur á fyrri árum. Hjón með allt að 4 milljónir í árstekjur 2005, en í þeim hópi eru um 19% hjóna, greiddu allt að 5% hærri skatt en hjón með sömu rauntekjur greiddu 1995. Ráðstöfunartekjur þeirra voru því lægri en þær hefðu verið með skattkerfinu frá 1995. Hjón með 4 - 6 millj. kr. tekjur 2005 greiddu svipað hlutfall tekna sinna í skatt og þeir hefðu greitt fyrir 10 árum af sömu rauntekjum. Aðrir með hærri tekjur greiða lægra hlutfall af rauntekjum í skatt en áður frá um 1% með 6-8 m.kr. í tekjur og upp í 15% þegar tekjur eru yfir 30 m. kr. Sé litið á rauntekjur hefur skattbyrði hækkað að jafnaði um 2 prósentustig. Hækkuð skattbyrði hefur leitt til lækkunar á ráðstöfunartekjum hjá u.þ.b. 20% tekjulægstu hjóna. Hjá öðrum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist eða haldist lítt breyttur.

Jafnræði í skattlagningu felst fyrst og fremst í því að þeir þegnar sem eins er ástatt um t.d. hafa sömu tekjur greiði sama skatt. Sanngirni kemur fram í því að þeir sem háar tekjur hafa greiði hærra hlutfall þeirra í skatt en hinir tekjulægri. Þegar framangreindar tölur eru skoðaðar verður varla sagt að þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á síðustu árum stuðli að þessum markmiðum og að tekjuskattskerfið gæti jafnræðis og sanngirni.“

 Sjá bloggsíðu Indriða Hauks Þorlákssonar


Niðurstaða vinnuhóps um Þjórsárver í andstöðu við vilja heimamanna

Framsóknarmaðurinn Gestur Guðjónsson bregst við færslu minni í gær varðandi afstöðu umhverfisráðherra til stækkunar friðlands Þjórsárvera. Ber hann niðurstöðu sérstakrar nefndar ráðherrans til stækkunarinnar við niðurstöðu kosninga Hafnfirðinga til stækkunar álversins. Þetta er afar langsóttur samanburður. Ráðherrann skipaði þrjá fulltrúa heimamanna í nefndina og voru þeir andvígir því að stækka friðlandið í suður og gera þar með áform Landsvirkjunar á Norðlingaöldulóni að engu. Afstaða þessara þriggja fulltrúa til virkjanaáformanna voru vituð fyrir þannig að niðurstaðan kom ekki á óvart.  

Hún speglar hins vegar langt í frá afstöðu íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Gallup framkvæmdi skoðanakönnun fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. Niðurstaðan var sú að 65%  landsmanna vildu stækka friðlandið þannig að Norðlingaöldulón væri í eitt skipti fyrir öll út af kortinu. Þá var niðurstaða þjóðarpúls Gallups í janúar 2006 sú að 65% landsmanna voru andvígir Norðlingaöldulóni. Þá hefur barátta íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps og samþykkt hreppsnefndar frá vorinu 2005 gegn Norðlingaöldulóni sýnt að mikill meirihluti íbúanna eru andvígir áformum Landsvirkjunar. Það að Jónína Bjartmarz geti ekki lýst yfir stuðningi við stækkun Þjórsárvera í suður og kjósi þess í stað að skýla sér á bakvið afstöðu þessara þriggja heimamanna sem sátu í vinnuhópnum er aumkunarvert. 

Birgir Sigurðsson rithöfundur ritaði gagnmerka grein um virkjanaáform Landsvirkjunar á svæðinu með yfirskriftinni „Landsvirkjun enn með kverkatak á Þjórsárverum“. Greinin birtist í Morgunblaði 30. apríl sl. Þar segir mann m.a.: 

„Langmestur hluti Þjórsárvera er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Gnúpverjar höfðu barist hatrammlega gegn öllum virkjunaráformum í verunum alveg frá byrjun áttunda áratugarins. Fundahöld, ályktanir, undirskriftalistar og samþykktir sýna að mikil samstaða er meðal íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps um verndun veranna og stækkun friðlandsins þannig að tryggt sé að þar verði aldrei virkjað. Þessi viðhorf kristölluðust í bókun hreppsnefndar 3. maí 2005 þar sem Norðlingaölduveitu var hafnað.  

Ljóst er að fram til þessa hefur flest náttúruverndarfólk talið að stækkað friðland tryggði að Norðlingaölduveita væri úr sögunni. Og svo mikið er víst að í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi var ekki kosið um verndun Þjórsárvera. Menn töldu að hún væri svo til í höfn. Það var kosið um önnur mál. Í þessum kosningum hófst til valda Gunnar Örn Marteinsson og er hann nú oddviti. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra skipaði hann samkvæmt tilnefningu sem fulltrúa heimamanna í nefnd er setja skyldi fram hugmyndir og tillögur um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Annar fulltrúi heimamanna var úr Ásahreppi austan Þjórsár (þar hafa ráðamenn jafnan barist fyrir virkjunum í Þjórsárverum) og sá þriðji úr Rangárþingi ytra og hafa menn þaðan þó ekki verið taldir „heimamenn“ í Þjórsárverum þar til nú. 

Nú hefur þessi ráðgefandi nefnd skilað af sér og hefur umhverfisráðherra kynnt tillögur hennar. Ráðherrann lætur hinsvegar hjá líða að kynna sinn eigin vilja í málinu. Samkvæmt tillögunum skal friðlandið stækkað verulega í austur, vestur og norður. En það skal ekkert stækkað í suður. En með því að stækka friðlandið ekki til suðurs er í raun unnið gegn verndun veranna; séð til þess að Landsvirkjun geti enn komið upp áður fyrirhuguðu lóni syðst í verunum og þar með Norðlingaölduveitu. Þáttur oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Gunnars Arnar Marteinssonar, í þessu máli er dapurlegur. Hann stendur að tillögum sem ganga þvert gegn samþykkt hreppsnefndar frá árinu 2005 og ótvíræðum vilja íbúa hreppsins um að hafna Norðlingaölduveitu. Þannig rekur hann erindi Landsvirkjunar og stórvirkjanaaflanna í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum sem enn sjá sóma sinn í því að viðhalda virkjunarógninni í Þjórsárverum.“ 

Að lokum ætla ég að benda á grein Ævars Rafns Kjartanssonar Lækjarsprænan Þjórsá og vald Landsvirkjunar.

 


Álíta Framsóknarmenn kjósendur vera fífl?

joninakort1Það hvarflar stundum að mér að Framsóknarmenn álíti kjósendur fífl. Ríkisborgaramálið er dæmigert fyrir niðurlægjandi framkomu Framsóknarmanna gagnvart almenningi. Ekki fyrir það að hafa veitt stúlkunni ríkisborgararétt heldur fyrir að halda að hægt sé að ljúga því að okkur að tengsl hennar við Jónínu hafi ekki haft neitt að segja. Tengsl við Framsókn hafa allt að segja þurfirðu á fyrirgreiðslu að halda.

 

Annað dæmi og öllu alvarlegra er vinnuhópurinn sem skipaður var af Jónínu Bjartmarz um friðun Þjórsárvera. Hún passaði sig á að skipa hópinn þannig að engin hætta væri á að niðurstaðan yrði sú að stækka friðlandið í suður og koma þannig í veg fyrir áform Landsvirkjunar um Norðlingaöldulón. Svo segist hún harma að ekki skuli stækkað í suður en kennir sveitarstjórnarmönnum um niðurstöðuna. Engu að síður fagnar hún tillögunum þar sem friðlandið mun stækka í aðrar áttir enda engir hagsmunir í húfi þar.

 

Bendi á frábæra grein eftir Kristínu Guðmundsdóttur Gnúpverja, Hafnfirðing, móður og opinberan starfsmann. Greinin nefnist: Ísland kallar – Um Þjórsá og Þjórsárver.

 

En áfram með Jónínu. Í kosningaþættinum um umhverfismál áðan flaggaði hún korti sem Framsóknarflokkurinn hefur útbúið um það sem hann kallar mögulega virkjanakosti, virkjanakosti sem Alþingi ákveði nýtingu eða verndun á að undangengnu mati og virkjanakosti sem ekki koma til greina. Meðal þeirra virkjanakosta sem flokkurinn gefur grænt ljós eru m.a. virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem eru mjög umdeildar. Meðal þess sem flokkurinn telur koma til greina að virkja samþykki Alþingi það er Norðlingaalda, Skaftárveita sem hefði í för með sér eyðileggingu á náttúruperlunni Langasjó, Jökulsár Skagafjarðar og Krýsuvík, svo einungis nokkrir staðir séu nefndir. Meðal þeirra staða sem ekki koma til greina að mati Framsóknar eru Geysir, Hveravellir, Askja, Kverkfjöll og Jökulsá á Fjöllum. Jónínu er ekki alls varnað.

 Fólk er ekki fífl. Þjóðin er skynsöm og veit að ef hún kýs Framsókn yfir sig enn einu sinni verður haldið áfram á stóriðjubrautinni og öllu til fórnað fyrir álskrýmslið Alcoa-Alcan. Gefið stóriðjuflokkunum frí á laugardag.

Áfram í gapastokkinn ekkert stopp

Hver verða tök nýja álrisans Alcoa-Alcan á íslensku efnahagslífi ef af yfirtöku Alcoa verður? Þora ráðamenn að hugsa þá hugsun til enda?  Hreðjartökin á raforkumarkaðinum verða sársaukafull. Mig setur hljóðan við þessa tilhugsun. Meira að segja stóriðjusinnum hlýtur að vera brugðið nema álbjálkinn í augum þeirra blindi þeim alfarið sýn. Áfram í gapastokkinn ekkert stopp.

 

Kaupverð Alcoa er sagt vera 2100 milljarðar króna sem er tvöföld verg landframleiðsla Íslands á síðasta ári, en þá var hún 1150 milljarðar króna.

 Svo eru uppi hugmyndir um að einkavæða Landsvirkjun. Hver haldiði að bjóði best? Meira að segja framsóknargæðingarnir ættu ekki roð í samkeppninni um Landsvirkjun við nýja álskrýmslið sem reiddi fram skiptimynt fyrir allt dótið.

Pólitískar umræður mér að skapi

Loksins pólitískar umræður mér að skapi og þá voru það þrír fyrrverandi stjórnmálamenn sem nú skipa heiðurssæti sinna lista, þau Margrét Frímannsdóttir, Halldór Blöndal og Hjörleifur Guttormsson í Silfri Egils. Fyrr í þættinum hafði unga fólkið í pólitíkinni sem er tekið við keflinu látið ljós sitt skína, Jakob Frímann, Guðfríður Lilja, Sigurður Kári og Árni Páll. Hvar voru framsóknarmennirnir. Steingrímur Hermannsson hefði sómt sér vel í heiðursætahópnum en reyndar dettur mér enginn annar hug en Bjarni Harðarson í ungliðagengið enda vanur maður við hringborð Silfursins.

 

Á báðum þessum málfundum voru umhverfismálin í brennidepli þótt komið hafi fram í skoðanakönnunum að almenningur setur velferðarmálin á oddinn þegar hann tekur afstöðu í kjörklefanum. Það var þó ólíkt skemmtilegra að hlýða á öldungana, Magga er nú reyndar nokkrum árum yngri en ég. Umræðan var öll mun yfirvegaðri enda mæðir ekki jafn mikið á fólkinu í heiðurssætunum og þeim sem eru að berjast fyrir pólitískri framtíð sinni. Stundum var eins og maður hyrfi áratugi aftur í tímann því umræðan var farin að snúast um Alþýðubandalagið og afstöðu þess til málefnanna eins og það væri enn í framboði.

 

Það er vissulega eftirsjá af þessu reynda fólki úr pólitíkinni. Sérstaklega sé ég þó eftir Margréti sem hefur verið einn skeleggasti stjórnmálamaður síðustu áratuga og átti hvað stærstan þátt í að stofna Samfylkinguna.

 Merkilegasta pólitíska framlagið í þættinum var hins vegar viðtalið við Guðmund Pál Ólafsson um nýútkomna bók um Þjórsárver þar sem flett er ofan af hálfrar aldar gömlum áformum um að gjörnýta vatnsorku Íslands. Þegar uppgötvaðist að í Þjórsárverum væri eitt stærsta heiðagæsavarp heims komu verkfræðingarnir með þá tillögu að finna gæsunum annað varpland eins og hér væri um hænur að ræða. Baráttunni um Þjórsárver er langt í frá lokið þannig að þessi bók Guðmundar Páls er þarft innlegg í umræðuna.

Geir dregur lappirnar gagnvart Live Earth

Trúði því varla þegar ég las á forsíðu Fréttablaðsins í dag að Reykjavík væri einn þeirra staða sem kemur til greina sem tónleikastaður í Live Earth tónleikunum sem Al Gore fyrrum forsetaframbjóðandi og fleiri góðir menn standa fyrir. Þetta er heimsviðburður sem ætlað er til að vekja athygli á hlýnun andrúmsloftsins og hvetja þjóðir heims til að bregðast við í tíma. Búast má við að um tveir milljarðar manna muni fylgjast með tónleikunum.

 

Óskað hefur verið eftir að ríkisstjórnin styrki þetta framtak hér á landi um 15 milljónir króna og var lögð inn umsókn um það til forsætisráðuneytisins í byrjun árs. Enn hefur ekkert svar borist þaðan. Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir er spurð hverju það sætir segir hún að það sé ekki í verkahring stjórnvalda að halda tónleika, eins og hér sé um einhvern hversdagslegan atburð að ræða.

 

Áttar þetta fólk sig ekki á því að hér er líklega um áhrifamestu auglýsingu sem Ísland gæti fengið og verðmiðinn á henni er einungis 15 milljónir króna. Er þessu fólki alls varnað?

 Í grein eftir Andra Snæ Magnason í Fréttablaðinu kemur fram að auk tónleikanna í Reykjavík verða samtímis haldnir tónleikar í London, New York, Tokyo, Rio, Jóhannesarborg og Sidney. Á þessari upptalningu sést að það er gífurlegur heiður fyrir Reykjavík og Ísland að vera boðið þetta og því óskiljanlegt að Geir H. Haarde skuli draga lappirnar í þessu máli. Kommon 15 millur. Er það kannski stóriðjusindrómið sem ræður förinni?

Frá þjóðhyggju til samfellu

Orðaleppar og klisjur eru mjög áberandi í pólitískri umræðu. Ekki bara nú í aðdraganda kosninga heldur virðist þessi leiði ávani einkenna marga stjórnmálamenn í umræðum. Þetta er ekki einkenni sem hægt er að leggja vinstri eða hægri stimpil á. Allir flokkar eiga við þetta að glíma. Hins vegar eiga sumir stjórnmálamenn það til að grípa til ákveðinna lausnarorða oftar en aðrir. Einn er þar sér á parti. Það er Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins.

Þegar Jón var nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins notaði hann orð sem enginn hafði í raun heyrt áður til að lýsa flokki sínum. Það var orðið þjóðhyggja, hvað sem það nú þýðir. Þetta orð er nú horfið fyrir annað orð sem hann notar sí og æ þegar talið berst að efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er orðið samfella.

 Í mínum huga kvikna ákveðin hugrenningatengsl þegar samfellu ber á góma. Nú gekk ég víst aðeins of langt.

Enginn friður um friðlandstillögur

Ljóst er að niðurstaða nefndar umhverfisráðherra um friðlandið í Þjórsárverum mun ekki skapa frið um friðlandið. Í viðtali við Höllu Guðmundsdóttur á Ásum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í Speglinum áðan kom fram að deilur muni halda áfram. Fram kom hjá Höllu að það hefði legið fyrir strax og ljóst var hvernig nefndin var skipuð að nefndin myndi ekki leggja til að stækka friðlandið í suður, þess svæðis sem Norlingaöldulón myndi ná til. Allt er því áfram opið fyrir Landsvirkjun varðandi framkvæmdir við lónið.

 

Í nefndina var hvorki skipaður fulltrúi úr áhugahópi um Þjórsárver né úr Þjórsárversnefnd sjálfri, enda ljóst að þeir fulltrúar hefðu lagt áherslu á að vernda allt vatnasvæði Þjórsárvera en ekki einungis þá hluta sem skipta Landsvirkjun ekki máli.

 Hvað vakti þá fyrir Jónínu Bjartmarz sem nú þegar niðurstöður nefndar hennar liggja fyrir segist harma að ekki hafi verið lagt til að friða einnig í suður? Liggur það ekki í augum uppi. Enn einn loddaraskapur Framsóknar til að reyna að ganga í augu kjósenda. Við erum búin að upplifa ótal dæmi þess í aðdraganda kosninganna. Nægir þar að nefna auðlindarákvæðið í stjórnarskrána sem var þannig orðað að festa enn frekar í sessi eign kvótaeigenda á auðlindum sjávar. Svo er hálf hlálegt þegar flokkurinn er farinn að tala eins og stjórnarandstæðingur það jafnvel í málaflokkum sem hann hefur sjálfur farið með.

Ferðasaga og stefnumót í tilefni 1. maí

Í dag er 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkafólks. Upphaf dagsins má rekja til baráttu samtaka verkamanna í Bandaríkjunum fyrir átta stunda vinnudegi en sú krafa varð til árið 1860. Árið 1889 var haldin alþjóðaráðstefna verkamanna í París og sú ráðstefna ákvað að gera 1. maí að baráttudegi verkamanna um allan heim. Það var svo árið 1923 að íslenskt verkafólk fór í sína fyrstu kröfugöngu 1. maí.

 

Hér ætla ég að segja frá annarri göngu:

 

Á Gufunni er þáttur um Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum. Man alltaf hvar og hvenær ég átti mitt fyrsta stefnumót við Sóleyjarkvæði. Það var heima hjá Ragnari skjálfta seint að kvöldi vorið 1969.

Við höfðum verið herbergisfélagar í Menntaskólanum á Laugarvatni ég og Páll Halldórsson síðar formaður BHM. Þegar skólanum lauk um vorið ákváðum við herbergisfélagarnir að ganga í bæinn. Við sendum okkar hafurtask með rútunni til Reykjavíkur og lögðum svo af stað gangandi yfir Bláskógaheiðina í átt að Þingvöllum með kaldar pulsur í nesti og viskípela. Okkur tókst að fá far með malarflutningabíl uppi á heiðinni og niður að þjóðgarði. Gengum svo meðfram vatninu að Valhöll.

 

Viskípelinn hafði haft áhrif og þótt pulsurnar hefðu verið seðjandi vorum við orðnir soltnir. Við settumst við borð og fengum matseðilinn. Sáum strax að það eina sem við réðum fjárhagslega við voru ristaðar brauðsneiðar sem við snæddum með bestu lyst. Við næsta borð sat amerískur hermaður með íslenskri stúlku. Þetta mislíkaði Páli eitthvað og hafði einhver orð í frammi sem urðu til þess að okkur var vísað á dyr.

 

Klifruðum upp í Hestagjá og hrasaði Páll þar. Hann kannaði ekki hvort hann hefði sjálfur brotnað heldur fór beint í brjóstvasann og kannaði hvort reiknistokkurinn hefði brotnað. Hann reyndist heill og þá kveikti Páll í pípu sinni og svo var lagt af stað upp Almannagjá.

 

Það var orðið vel áliðið þegar við loksins gátum húkkað okkur far á Mosfellsheiðinni. Ákváðum að óska eftir gistingu þessa nótt hjá Ragnari skjálfta enda þeir Páll góðir mátar. Okkur var tekið opnum örmum og borið fram snarl til að metta okkur. Síðan dró Ragnar fram nýútkomna plötu með Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum við tónlist Péturs Pálssonar. Við sátum andaktugir og hlýddum á snilldina, lögðumst svo á dýnur í stofunni og flutum inn í draumheima þar sem

 Sóley sólufegri
situr við hafið á kóralskóm,
leikur við linda
lykill frá Róm
augun blá eins og stjörnur,
varirnar rauðar sem blóm.

32 létust en ekki 11

Þeim fjölgar stöðugt fórnarlömbum stríðsins í Írak. Þeir voru 32 en ekki 11 og a.m.k. 63 eru særðir. Hvenær ætla stjórnvöld að segja sig af lista hinna staðföstu þjóða?
mbl.is Tala látinna í sjálfsvígsárás í Diyala komin í 32
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband