30.4.2007 | 23:23
32 létust en ekki 11
Tala látinna í sjálfsvígsárás í Diyala komin í 32 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.4.2007 | 21:19
Glæpur gegn íslensku þjóðinni
11 látnir í dag í sjálfsvígsárás í Írak. Atburðurinn gerðist við líkvöku. Vissulega afleiðing trúarbragðaátaka en þessi atburður hefði tæpast átt sér stað fyrir innrás hinna staðföstu þjóða. Stjórn Saddams var ógnarstjórn á því leikur enginn vafi en þjóðin lifir við enn meiri ógn í dag en þegar hann var við völd.
Einkennilegt hvað sumir eiga erfitt með að viðurkenna aðild Davíðs og Halldórs að innrásinni og eftirleik stríðsins. Þeir samþykktu að Ísland yrði á lista hinna staðföstu þjóða. Kannski trúðu þeir dellunni um útrýmingarvopnin sem spunameistararnir og stríðsæsingarmennirnir í Washington héldu að heiminum. Hún er ógleymanleg fréttin af íslensku friðargæslumönnunum sem fundu eiturefnasprengjurnar í eyðimörkinni og hve stoltur Halldór var af þeim.
Ég vil ekki tala um gjörð Davíðs og Halldórs sem mistök þrátt fyrir að þeir hafi verið bláeygðir og tekið trúanlegt ruglið úr Bush og haukunum í Washington. Þetta voru ekki mistök heldur glæpur gegn íslensku þjóðinni að bendla hana við þær hörmungar sem leiddar voru yfir Írak og gera okkur að stríðandi þjóð. Það verður ekki fyrirgefið en með því að taka okkur af þessum lista værum stjórnarherrarnir strax menn að meiri.
Ellefu létust í sjálfsvígsárás í Írak | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.4.2007 | 16:08
Enn af stríðsleikjum Davíðs og Halldórs
Talsvert af athugasemdum hafa borist vegna færslu minnar í gær um mannfallið í Írak og ábyrgð Íslendinga í því máli. Það er sá ágætismaður Kristinn Pétursson sem ríður á vaðið, en hann hefur áður gert athugasemdir við það að ég telji það skyldu okkar að taka okkur hið snarasta af lista hinna staðföstu þjóða sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson komu þjóðinni á án þess að ræða við kóng eða prest.
Kristinn segir m.a.: Það eina sem íslensk stjórnvöld gerðu á sínum tíma, - var að fylgja meirihluta Nato þjóða. Hvenig var annað hægt - við eru hluti af Nato - og þar að auki vorum við þá við varnarsamning við USA. Samþykktir íslenskra stjórnvalda voru aldrei aðrar en að samþykkja að flugvélar á leið í þetta blessað stríð hefðu viðkomu hérlendis, - hvernig var annað hægt - nema þá segja upp varnarsamninginum við USA og segja okkur úr NATO. Það var einfaldlega ekki hægt. Þetta eru staðreyndir málsins.
Seinna í athugasemdinni segir Kristinn svo: Íslendingar eru ekki í stríði, ekki aðilar að stríði, - hafa ekki lýst yfir neinu striði - munu ekki gera það - og eiga engan her til þess - nema bara víkingasveitina sem er bara til að til notkunar innanlands. Svo eigum við friðargæsluliða - þeir eru ekki hermenn en þjálfaðir í hernaði til að geta varið sig svo þeri séu ekki eins og aular og hálfvitar í friðargæslustörfum. Allt tal um að við séum í stríði er bara innantómur pólutískur áróður.
Vilhjálmur Þorsteinsson mótmælir þessari túlkun Kristins og segir: Við erum illu heilli á "lista hinna staðföstu þjóða", ólíkt t.d. Norðmönnum og Þjóðverjum. Það vita allir að það breytir litlu í praxís þótt við segjum okkur opinberlega frá þeim lista, en það væri samt stórmannlegt. Svo ættum við að biðja Íraka afsökunar í leiðinni og samþykkja að taka við flóttamönnum frá landinu, til að axla þó einhverja ábyrgð á frumhlaupi Davíðs og Halldórs og því hörmungarástandi sem fylgdi í kjölfarið, sbr. t.d. nýjustu bloggfærslu mína þar um.
Vilhjálmur bendir einnig á yfirlýsingu Hr. Boucher talsmanns utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna þegar listi hinna staðföstu þjóða var kynntur. Þar kemur fram að löndin hafi verið spurð og hafi samþykkt að vera á listanum. Sjá hérÞrátt fyrir þetta móast Kristinn við og fullyrðir að Íslendingar hafi aldrei skráð sig sjálfir á þennan lista það hafi verið Bandaríkjamenn sem gerðu það.
Guðrún Olga Clausen fær lokaorðin í þessari samantekt, enda held ég að þau segi allt sem segja þarf: Í mínum huga er þetta svona einfalt. Tveir herramenn á einkaflippi lýstu yfir stuðningi við innrás Bandaríkjamanna í Írak án þess að spyrja kóng né prest. Ég var ekki spurð, þið voruð ekki spurðir og ég mótmæli því, burtséð frá sögulegum staðreyndum um illindi milli manna í þessum eða hinum heimshlutum frá fyrri tímum. Ég vil að við verðum yfirlýstir andstæðingar stríðs og verðum tekin af þessum lista.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.4.2007 | 19:42
Hvenær ætla íslensk stjórnvöld að sjá að sér?
55 látnir og 70 særðir eftir sprengjuárás í Karbala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.4.2007 | 20:49
Bjarni Sívertsen
Bjarni undi því hið versta og þegar hann frétti að verslunarstaðurinn í Hafnarfirði væri að losna sigldi hann til Kaupmannahafnar sumarið 1793 og tókst að verða sér úti um verslunarréttindin þar. Hann fékk einnig allstórt lán hjá danska ríkinu og notaði það til vörukaupa. Hann hóf síðan verslunarrekstur í Hafnarfirði og gerðist brátt efnaður maður. Árið 1797 hóf hann einnig verslunarrekstur í Reykjavík en aðalstöðvar verslunarinnar voru áfram í Hafnarfirði.
Bjarni var mjög framfarasinnaður maður og keypti eigið þilskip frá Danmörku skömmu fyrir aldamót til að stunda veiðar hér við land. Sú útgerð gekk ágætlega og ákvað þá Bjarni að ráðast sjálfur í skipasmíðar í Hafnarfirði. Hann hafði skoðað skipasmíðastöðvar á ferðum sínum í Danmörku og kynnt sér verklag og tækjakost við skipasmíðar, en sjálfur mun Bjarni hafa þótt ágætur smiður. Þaulvanur árabátasmiður, Ólafur Árnason á Hvaleyri, var ráðinn yfirsmiður við hið nýja þilskip. 5. september árið 1803 var skútunni hleypt af stokkunum og gefið nafnið Hafnarfjord Pröven. Lengd skipsins var 18 álnir og 21 þumlungar milli stafna, breiddin um mitt skip 6 álnir og 7 þumlungar og dýptin 2 álnir og 12 þumlungar.
Svo vel tókst til með þessa smíði að Bjarni ákvað að koma upp myndarlegri skipasmíðastöð í Hafnarfirði. Hann sigldi til Kaupnmannahafnar árið 1804 og keypti þar konungsjörðin Ófriðarstaði, sem nefnast nú Jófríðarstaðir. Einnig útvegaði hann sér 6000 dala lán hjá danska ríkinu til framkvæmdanna. Flutt voru áhöld, verkfæri og smíðaviður til Hafnarfjarðar og stöðin reist 1805. Í skipasmíðastöðinni voru smíðuð mörg áraskip af mun betri gerð en áður hafði tíðkast hér á landi en auk þess hélt hann áfram með þilskipasmíðina. Þess er getið að árið 1806 hafi hann átt þilskip í smíðum í stöðinni. Skipasmíðastöðin þjónustaði einnig erlend skip sem sigldu út til Íslands. Þannig mun póstskip hafa komið illa til reika hingað til lands eftir stórsjó og storma og fengið hina vönduðustu viðgerð í skipasmíðastöð Bjarna.
Í Íslenskum sagnablöðum frá 1817 er sagt að þrjú þilskip hafi verið smíðuð í skipasmíðastöðinni og telur Gils Guðmundsson að líklegt sé að þar hafi verið smíðuð auk Havnefjords Pröven jaktskipið Flynderen sem var 9,5 lestir að stærð og jafnvel allstór galias, Lykkens Pröve. Auk þess blómstraði smíði opinna báta í Hafnarfirði á þessum árum undir verndarvæng Bjarna. Það voru einkum tveir mjög góðir bátasmiðir sem stuðluðu að því, áðurnefndur Ólafur Árnason á Hvaleyri og Gísli Pétursson á Óseyri. Er þess getið að Ólafur hafi smíðað nálega 100 báta, frábærlega vandaða og vel gerða.
Eftir að Bjarni missti Rannveigu konu sína giftist hann danskri konu og flutti til Kaupmannahafnar. Hann andaðist þar sjötugur að aldri árið 1833.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2007 | 21:42
Forðið umhverfisslysi á Jófríðarstöðum
Eins og sjá má hér til hliðar þá er ég ættaður frá Jófríðarstöðum í Hafnarfirði. Arnór afi var fæddur þar en hans foreldrar voru Þorvarður Ólafsson og Elín Sigurðardóttir sem voru með búskap á þessu gamla höfuðbóli í Hafnarfirði. Á síðustu öld eignaðist kaþólski söfnuðurinn jörðina og bjuggu prestar kirkjunnar þar en í Hafnarfirði höfðu sest að Jósefssystur og reistu þar St. Jósefsspítala og klaustur. Í spítalanum var lengi kapella en þegar spítalinn var seldur á níunda áratugnum réðst söfnuðurinn í að reisa myndarlega kirkju með safnaðarheimili og prestsbústað á Jófríðarstöðum. Þetta er afar vel heppnuð bygging sem fellur vel að opnu svæði gamla Jófríðarstaðatúnsins og hólsins þar sem sjá má yfir mest alla byggðina í Hafnarfirði og yfir til Snæfellsness.
Nú árar hins vegar illa hjá söfnuðinum og hafa komið upp hugmyndir um að selja verktökum byggingarland á þessu gróna opna svæði til að rétta við fjárhagsstöðuna. Jófríðarstaðatúnið er í raun eina opna svæðið í miðjum bænum og tel ég það mikið glapræði að taka það undir íbúðabyggð. Fjárhagsstöðu safnaðarins hlýtur að vera hægt að bjarga á annan hátt, t.d. að bærinn leysti til sín landið.
Jófríðarstaðir eiga sér langa og merka stöðu. Fyrr á öldum hét bærinn Ófriðarstaðir en sennilega hefur sú nafngift þótt of ófriðvænleg þannig að breyting varð á seint á 19. öld. Óljóst er hvernig nafnið er tilkomið en til er frásögn eftir Jón Guðmundsson lærða þar sem hann skrifar að forfaðir sinn, Magnús Auðunarson ríki, hafi fallið á Ófriðarstöðum í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna. Þessa frásögn er að finna í ritinu Um ættir og slekti frá 1688. Elstu skjalfestar heimildir um bæinn eru frá 1541.
Bjarni Sívertsen sem kallaður hefur verið faðir Hafnarfjarðar eignaðist jörðina árið 1804 og náði hún þá niður að sjó þar sem nú er slyppurinn. Reisti hann þar fyrstu skipasmíðastöð landsins. Þetta er því bær með mikla sögu auk þess sem þarna er eins og áður sagði eitt af fáum opnum svæðum bæjarins og einn besti útsýnisstaðurinn. Það væru því mikil mistök að reisa þarna enn eitt blokkarhverfið.
Heimild Saga Hafnarfjarðar eftir Sigurð Skúlason, Félagsprentsmiðjan 1933Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2007 | 20:58
Innflytjendur forðuðu stórslysi í efnahagsmálunum
Erlenda vinnuaflið á Íslandi hefur komið í veg fyrir stórslys í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þetta kom fram í máli Rannveigar Sigurðardóttur forstöðumanns greiningardeildar Seðlabankans á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins í morgun. Erlenda verkafólkið hefur haldið aftur af verbólgunni og þar af leiðandi komið í veg fyrir að stýrivextir hækkuðu enn meira. Þá mun tilvist þeirra stuðla að mýkri lendingu þegar dregur úr hagsveiflunni þar sem líklegt er að atvinnuframboð minnkar munu margir halda aftur til síns heima og atvinnuleysi því ekki skapast.
Ragnar Árnason,forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, hélt einnig erindi á fundinum og í máli hans kom fram að það væru að ranghugmyndir að laun hafi lækkað með tilkomu útlendinga á íslenskan vinnumarkað þar sem laun verkamanna hafi hækkað um 19% frá upphafi árs 2005 til loka árs 2006. Útlendingar hafi ekki heldur tekið störf frá Íslendingum þar sem atvinnuleysi hefur lækkað úr 1,5% niður í 1,35 síðustu 12 mánuði ársins, þrátt fyrir fjölgun erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði.
Tveir framboðsfundir voru í fjölmiðlum í dag. Á fundi Rásar tvö í Norðausturkjördæmi sagðist Sigurjón Þórðarson efsti maður Frjálslyndra styðja álversbyggingu á Húsavík. Þegar hann var spurður að því hvort það kallaði ekki á innflutning á erlendu vinnuafli taldi hann svo ekki vera, Íslendingar gætu unnið þessi verk sjálfir. Hvernig ástand skapast þá í efnahagslífinu? Því svaraði hann ekki. Þeirri spurningu var í raun svarað á morgunverðarfundi SA í morgun.
Jón Magnúson var staddur á framboðsfundi Stöðvar 2 í Reykjavík suður. Þar spurði Egill hann um hvort innflytjendaumræða Frjálslyndra væri ekki hálf mislukkuð þar sem hún virtist ekki vera að ná til kjósenda. Jón hélt nú ekki. Hún myndi koma fram af fullum skriðþunga nú síðustu vikurnar fyrir kosningar. Guð forði okkur frá því.Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.4.2007 | 18:28
Fagin í Firðinum
Umfjöllun Íslands í dag um aðbúnað erlendra verkamanna í leiguhúsnæði að Dalshrauni minnir mann einna helst á Oliver Twist. Þarna leigir eigandi starfsmannaleigunnar Intjob og Húsaleigu ehf. þeim starfsmönnum sem hann hefur flutt hingað til lands smá kytrur fyrir stórar upphæðir. Þarna eru að sögn þáttargerðarmanna 14 íbúar á 80 fermetrum og greiða þeir fyrir 25 35 þúsund krónur á mánuði. Í húsnæðinu eru tvö löskuð klósett lítill sturtuklefi og ein eldavél.
Ekki nóg með að aðstæður séu slæmar í húsnæðinu heldur eru þessir starfsmenn í vistarbandi hjá eiganda húsnæðisins og starfsmannaleigunnar. Hann getur einfaldlega sagt þeim upp og þá verða þeir að hverfa aftur til síns heimalands því þeir geta ekki fengið annað starf hér á landi í fjóra mánuði.
Ein ógeðfelldasta sögupersóna heimsbókmenntanna, sjálfur Fagin í Oliver Twist, kemur upp í hugann. Þetta er vandamálið í hnotskurn, það eru ekki innflytjendurnir heldur hvernig óprúttnir Íslendingar sem svífast einskis til að maka krókinn á þeim. Þetta er ekkert annað en nútíma þrælahald, mansal.Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.4.2007 | 19:15
Ferðaóþoli fullnægt
Nú þegar farfuglarnir koma einn af öðrum til landsins, krían í dag, fyllist maður sjálfur ferðaóþoli. Skruppum því í sunnudagsbíltúr austur í sveitir í gær. Stefnan var tekin á Reynishverfi í Mýrdalnum til að skoða Hánefshelli sem við höfðum skoðað einusinni áður, í tilhugalífinu fyrir rúmum 35 árum síðan. Þó við höfum farið þarna um ótal sinnum höfum við yfirleitt verið á leiðinni lengra austur eða að austan til höfuðborgarsvæðisins. Nokkru sinnum höfum við ekið niður að Dyrhólaey en Reynishverfið orðið út undan.
Það var skýjað þegar lagt var í hann um morguninn og á Hellisheiðinni var suddarigning. Birti aðeins til þegar við ókum niður úr skýjaþykkninu í Kömbum. Rúðuþurrkurnar höfðu samt nóg að gera á leiðinni austur á Hvolsvöll en þá fór að rofa verulega til. Við skruppum inn í Fljótshlíð og skoðuðum kirkjuna á Breiðabólsstað. Kirkja var teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni eins og kirkjan á Húsavík, enda er útlit þeirra mjög svipað þótt kirkjan á Breiðabólsstað sé mun minni. Merkilegt nokk var kirkjan opin þannig að við gátum skoðað hana að innan. Altaristaflan þar er eftirmynd af altaristöflunni í Dómkirkjunni.
Breiðabólsstaður á sér langa sögu. Þar var prestur Jón Ögmundsson helgi, fyrsti biskup á Hólum. Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson var prestur á Breiðabólsstað og er greftraður í kirkjugarðinum.
Þegar komið var undir Eyfjöll skipti landið litum. Sólin braust fram. Þar voru tún farin að grænka og er það sönnun fyrir því að það vorar yfirleitt mánuði fyrr undir Eyjafjöllum. Bændur voru að plægja og ljóst að enginn kotbúskapur er stundaður þarna.
Það var ævintýri líkast að aka í gegnum Reynishverfið út að fjörunni við Garða sem er syðsti bærinn á Íslandi. Margslunginn fuglasöngur tók á móti okkur, tjaldur, stelkur og múgginn í klettunum og í háloftum stakk sér hrossagaukur með sínu hneggi. Við gengum niður í fjöru þar sem aldan brotnaði á malarkömbum. Inn í stuðlaheimi Hánefshellis myndaðist sérstök hljómkviða sem knappast er af þessum heimi. Og þó þessi heimur hefur upp á svo ótrúlega margt að bjóða. Í kirkjugarðinum hjá Reyniskirkju sátu tveir tjaldar á einu leiðinu eins og friðardúfur og högguðust ekki þótt okkur bæri að garði.
Á heimleiðinni ókum við umhverfis Pétursey en það er í fyrsta skipti sem við leggjum þá lykkju á leið okkar. Sama var upp á teningnum þegar við ókum Raufarfellshringinn og þaðan upp að Seljavallalaug. Alls staðar var sama sagan farfuglarnir fögnuðu að vera komnir til landsins og þarna heyrðum við í lóu í fyrsta sinn í vor þótt ekki sæjum við hana.
Fórum svo Krýsuvíkurleiðina í Hafnarfjörð og stoppuðum í Herdísarvík og vottuðum Einari Ben virðingu okkar.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2007 | 21:59
Bréf til Maríu
Sl. vor fór ég sem viðhengi Léttsveitar Reykjavíkur til Kúbu. Valgerður Sverrisdóttir var líka viðhengi í þeirri ferð þar sem dóttir hennar er í kórnum. Þetta var skömmu eftir að Draumaland Andra Snæs kom út. Allt í kringum mig í flugvélinni var fólk að glugga í þessa nýju biblíu umhverfissinna á Íslandi þannig að ætla má að bókabúðin í Flugstöðinni hafi gert uppgrip. Sjálfur var ég að lesa Historian, spennusögu byggða á goðsögninni um Dracula en sonur minn sem einnig var viðhengi var með Draumalandið uppi.
Eins og gengur þarf fólk í svona langri flugferð að skreppa á klósettið. Varð var við það þegar Valgerður kom gangandi fram vélina og horfði til vinstri og hægri og í velflestum sætaröðum var að minnsta kosti einn að lesa hið nýja fagnaðarerindi. Svipurinn á henni var ekki mjög fagnandi.
Sjálfur reyndi ég seinna að lesa Draumalandið en einhvernveginn fangaði bókin mig ekki. Það sama verður ekki sagt um þá bók sem ég er nú að lesa en það er Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson. Mikið myndi ég gefa mikið fyrir að fá að vera í flugvél með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni þar sem jafn margir væru að lesa þessa úttekt miðaldasagnfræðingsins á frjálshyggjunni og lásu Draumalandið í Kúbuferðinni.
Ég þekki Einar Má frá árum mínum á Þjóðviljanum. Þegar sumra tók birtist þessi eldhugi frá París og hristi upp í okkur öllum. Hann var í sumarafleysingum í erlendum fréttum hjá okkur. Hann setti málin ætíð í óvænt ljós og gekk oft á tíðum fram af okkur sem þóttumst þó ekki kalla allt ömmu okkar í pólitísku og siðferðilegu tilliti. Einar Már var líkt og Megas bróðir hans á einhverju öðru plani. Hann var staddur ofan og utan við þann veruleika sem við hrærðumst í og því gat hann varpað óvæntu ljósi á hversdagslegustu hluti.
Nú ber þess að geta að ég hef ekki lokið lestri þessarar frábæru bókar, sem líkt og titillinn segir til um ávarpar annað snilldarverk íslenskrar bókmenntasögu, Bréf til Láru Þórbergs. Þrátt fyrir titilinn og upphafssetningu bókarinnar þá er bók Einars Más analísa á nútímanum en ekki endurvarp fortíðarinnar og hún er verk fullmótaðs fræðimanns en ekki óharðnaðs áhrifagjarns unglings eins og Bréf til Láru var.
Bréf til Maríu er einhver beittasta gagnrýni á frjálshyggjuna sem ég hef nokkurn tímann lesið. Hún er skyldulesning fyrir alla sem hafa áhuga á samtímaþróuninni og því pólitíska litrófi sem ríkir á Íslandi og í heiminum í dag. Mikið hefði það verið meira gefandi ef Egill Helgason hefði nú fengið Einar Má í viðtal í Silfrinu í dag í stað þess að láta Jón Baldvin endurtaka sig enn einn ganginn (lesist með vestfirskum framburði).Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)