Munaðarleysingjahælið

Talsverð viðbrögð urðu við skrifum mínum um að ég væri að verða pólitískur munaðarleysingi. Jafnvel eru komnar umsóknir um pláss á munaðarleysingjahælinu. En við skulum ekki rasa um ráð fram. Enn er ekki búið að mynda ríkisstjórnina, hvort sem hún verður nefnd Baugsstjórnin, Þingvallastjórnin, RiseSSan eða bleikjan eins og Bubbi stakk upp á í silfrinu. Verði hún hins vegar mynduð eins og flest bendir til, þrátt fyrir andstöðu í báðum flokkunum, er sjálfsagt að kynna sér málefnagrundvöll og hvernig ráðuneytum verður skipt á milli flokkanna. Minna máli skiptir hvaða einstaklingar skipa ráðherrastólana þótt stólaleikurinn sé aðal samkvæmisleikur bloggara landsins núna.

Við vitum að forsætisráðuneytið fer til Geirs. Síðan fær Solla að velja á milli utanríkis- og fjármálaráðuneytis. Velji hún utanríkisráðuneytið komast Evrópumálin á dagskrá á kjörtímabilinu og sömu sögu er að segja um fjármálaráðuneytið vegna evru-umræðu sem á eftir að verða háværari með hverju misserinu.

Ef við göngum út frá því að ráðuneytin verði 12 og jöfn skipti þá tel ég einboðið að Samfylkingin eigi að leggja höfuð áherslu á heilbrigðisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Þá á flokkurinn kröfu á enn eitt ráðuneytið og er mér nokk sama hvað það verður.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þessi fjögur ráðuneyti en ekki einhver önnur er sú að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum fyrir heilbrigðis- og félagsmálum og flokkurinn hefur sýnt að hann er einn helsti málssvari stóriðjustefnunnar. Þá samþykkti landsfundur flokksins að stefna ætti að einkavæðingu Landsvirkjuna og frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Að hleypa Sjálfstæðisflokknum í heilbrigðisráðuneytið væri eins og að sleppa ref lausum í hænsnakofa.

Afstaða mín til Sjálfstæðisflokksins mótast ekki af því að ég telji að þarna fari hópur illa innrættra einstaklinga. Þvert á móti er þetta upp til hópa úrvalsfólk. Það er hins vegar stefnan sem þeir aðhyllast og stærð þeirra í pólitískri sögu þjóðarinnar sem mér óar við. Þeir hafa ráðið för með örfáum undantekningu allt frá lýðveldisstofnuninni. Nú stefnir allt í að þeir muni ráða för í tvo áratugi óslitið með stuðningi Samfylkingarinnar.

Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa. Ójöfnuðurinn hefur aukist í samfélaginu. Skattkerfið er orðið óréttlátara. Velferðarkerfið hefur orðið að láta undan síga. Fátæktargildran hefur læst kjaftinum um æ fleiri einstaklinga. Upplýsingar um að 5000 börn lifi undir fátæktarmörkum á sama tíma og auðmennirnir henda hundruðum milljóna í afmælisveislur eða árshátíðir yfirmanna fyrirtækja sinna (ég varð ekki var við að Bónus lokaði þegar árshátíð starfsfólksins var haldin í Mónakó). Þetta er afleiðing stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Við höfum fjarlægst Norræna velferðamódelið og nálgast sérgæskusamfélag að amrískri fyrirmynd.

Samfylkingin var ekki stofnuð til að treysta þessa þróun í sessi. Hún var stofnuð til að bjóða upp á annan valkost og því hugnast mér lítt sá sambræðingur sem nú á sér stað á Þingvöllum. En staðan er þessi í dag og nú er að sjá hvort Fagra Ísland og unga Ísland verði leiðarljós þessarar ríkisstjórnar eða hvort einkavæðing heilbrigðiskerfisins að Bandarískri fyrirmynd og Landsvirkjunar verði verði bautasteinar þessarar ríkisstjórnar ef af verður.

Að lokum eitt: Ég sakna Marðar af þingi. Kannski hann verði forstöðumaður Munaðarleysingjahælisins. Veit ekki hvort auglýsa þarf stöðuna opinberlega. Kannski bara í Lögbirtingablaðinu?


Chelsea bikarmeistarar

Mínir menn lönduðu öðrum bikarnum í ár þegar þeir lögðu Manchester United eitt núll í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar. Þetta var jafnframt vígsluleikur á stórglæsilegum nýjum Wembley leikvangi. Úrslitin hefðu getað farið á hvorn veginn sem var enda var leikinn úrvals fótbolti af báðum liðum. Það voru snilldartilþrif Didier Drogba með góðri hjálp Lampard sem gerðu gæfumuninn þegar allt stefndi í markalausa framlengningu og vítaspyrnukeppni. Þetta var stórkostlegur endir á tímabilinu.

Pólitískur munaðarleysingi

Hlustaði á Kristrúnu Heimisdóttur í síðdegisútvarpinu áðan. Þar hélt hún því fram að Samfylkingin væri orðin að jafnaðarmannaflokki að Norrænni fyrirmynd. Þetta er rangt miðað við stöðuna í dag. Jafnaðarmannaflokkur á hinum Norðurlöndunum myndi aldrei reyna að mynda ríkisstjórn með hægri flokki. Þeir sem þekkja til vita að sossarnir í Svíþjóð myndu aldrei semja við Moderatana um ríkisstjórn. Ekki einusinni Moderötunum í sínum villtustu og blautust draumum myndi dreyma um slíkt.

Ég studdi heilshugar stofnun Samfylkingarinnar á sínum tíma og hef stutt hana síðan. Ástæðan var einföld. Ég vildi að hér yrði til öflugur flokkur sem gæti komið Sjálfstæðisflokknum frá stjórn. Það tókst í Hafnarfirði, enda hefur kratisminn þar ætíð verið af norrænu kyni. Gamli Alþýðuflokkurinn og nú Samfylkingin í Hafnarfirði hafa aldrei látið sér detta í hug samstarf við höfuðandstæðinginn. 

Ég man alltaf þegar ég fór í heimsókn til afa og ömmu á Jófríðastaðavegi. Arnór afi sat í sínu skoti við borðstofugluggann og fylgdist með þeim sem gengu niður götuna. Færi Sjálfstæðismaður þar hjá bölvaði og ragnaði sá gamli sem annars var dagfarsprúður maður. Þetta var andinn í Hafnarfirði í þá tíð. Nú bölva menn kannski ekki og ragna en það hvarflar ekki að neinum Samfylkingarmanni í Hafnarfirði að starfa í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Þar eru línur skírar og mætti félagi Gunnar Svavarsson hafa það í huga.

Verði þróunin sú sem allt stefnir í er allt útlit fyrir að ég verði pólitískur munaðarleysingi á landsvísu þótt ég styðji mitt fólk áfram til góðra verka í minni heimabyggð.


Uppstigning Geirjónu

Aldrei almennilega áttað mig á þessum uppstigningardegi. Í raun ætti hann að vera sá heilagasti af öllum hjá sannkristnum en hann kemst ekki í hálfkvisti við jólin, föstudaginn langa og páskadag. Upstigan til himna er þó öllu merkilegri atburður en upprisan. Hver hefur ekki risið upp frá dauðum og yfirleitt eru á því rökrænar skýringar, en að stíga upp til himins er eitthvað sem ekki gerist á hverjum degi. Minnir einna helst á Star Trek, beam me up.

Einhverntíman þegar ég var í blaðamennskunni varð mér á Freudian slip og skrifaði uppstinningardagur. Svilkona mín Hildur Finns var þá prófarkalesari á blaðinu. Hún ákvað að sleppa þessu ekki í gegn þó hana dauðlangaði til þess, en sagði við mig að þetta skýrði hversvegna börnin mín fæddust öll á sama tíma.

En burt frá því. Það var ekki uppstinning hjá Geirjónu áðan en einhvers konar uppstigning. Hún gufaði upp eða var kannski geisluð burt.

Landsmenn farið að dæmi Hafnfirðinga næst

Ég held það hafi verið Hallgrímur Helgason sem á sínum tíma kom með þessa fleygu setningu: Aldrei kaus ég Framsókn. Engu að síður sitjum við alltaf uppi með Framsókn. Ja nema við Hafnfirðingar. Við ákváðum að sleppa því alfarið að kjósa Framsókn, ekki bara í orði heldur einnig á borði. Undanfarin tvö kjörtímabil höfum verið blessunarlega lausir við Framsókn í bæjarstjórn hjá okkur.

Framsóknarflokkurinn fékk nú háðuglega útreið. Engu að síður virðist flest benda til þess að landsmenn sitji áfram uppi með Vinnumiðlunina þótt þeir hafi hafnað henni. Alveg eins og Reykvíkingar og Kópavogsbúar sitja uppi með flokkinn í meirihluta þrátt fyrir að hann sé minnsti flokkurinn þar. Reykjavíkurmódelið er í raun og veru skrumskæling. Í krafti eins manns hefur þessi flokkur í raun jafn mikil völd og Sjálfstæðisflokkurinn.

Eina leiðin til að losna við Framsókn er að fara að dæmi okkar Hafnfirðinga. Kjósið að fjórum árum liðnum eða í næstu sveitarstjórnarkosningum allt annað en Vinnumiðlunina. Hún er ekki til að skaffa landsmönnum vinnu. Hún er til þess að skaffa sér og sínum. Hjálmar er á grænni grein sem rektor skóla án þess að staðan hafi verið auglýst og einhvernveginn hvarflar það að manni að skólinn hafi verið búinn til til þess eins að skaffa honum vinnu. Hvet alla til að fylgjast vel með hvað Jónínu verður skaffað.

Hvor er sætari Geir, Samfylkingin eða VG?

Svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að afskrifa áframhaldandi samstarf við Framsóknarflokkinn og sé farinn að horfa til hinna kostanna tveggja sem í stöðunni eru fyrir hann. Skiptar skoðanir eru innan þingflokksins hvort kippa eigi Samfylkingunni eða Vinstrigrænum upp í. Mun fleiri snertifletir eru á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en VG og Sjálfstæðisflokks og því í hugum margra að eðlilegra væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leita þangað. Það segir þó ekki allt.

Evrópumálin eru einn þáttur sem ber í milli og óttast ýmsir andstæðingar Evrópusambandsaðildar innan Sjálfstæðisflokksins að með því að taka upp samstarf við Samfylkinguna kæmust Evrópumálin ósjálfrátt á dagskrá innan Sjálfstæðisflokksins hjá þeim sem aðhyllast aðild innan flokksins. Annað skiptir líka máli í þessu samhengi að með því að mynda meirihluta með Samfylkingunni væri Sjálfstæðisflokkurinn að tryggja pólitískt framhaldslíf Ingibjargar Sólrúnar, en henni hefur ekki enn verið fyrirgefið að R-listinn kom Sjálfstæðisflokknum frá völdum í borginni í þrjú kjörtímabil.

Þessir aðilar horfa því frekar til VG. Þar greinir vissulega á um marga hluti en engu að síður eru ýmsir snertifletir á milli flokkanna. Afstaðan til Evrópu er einn þeirra. Varðandi einkavæðingaráform þá hefur Geir lýst því yfir að Landsvirkjun verði ekki einkavædd á kjörtímabilinu þannig að fáir stórir bitar eru þar á boðstólum í dag. Stóriðjumálin eru hins vegar erfiður þáttur í slíkum viðræðum. Það er þá fyrst og fremst framkvæmdir við Helguvík sem Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki tilbúinn að leggja á ís. VG yrði líklega að kyngja því en margir flokksmenn myndu ekki fyrirgefa ef fyrsta verk slíkrar ríkisstjórnar yrði ekki að taka Ísland af lista hinna staðföstu þjóða.

Valið er því erfitt fyrir Geir. Hvor er sætari Steingrímur eða Solla? Svo er bara að sjá hvort kirkjan leggur blessun sína yfir valið.


Stjórnarmyndunarpókerinn

Pókerfésið á Geir H. Haarde virðist hafa orðið til þess að öllum við borðið er orðið ljóst að fullt hús sem Framsókn þóttist hafa á hendi er í mesta lagi tvenna, ef það er þá nokkuð. Með því að afskrifa möguleika á vinstra samstarfi og þykjast eiga einhverjar óuppgerðar sakir við VG sem hafi verið svona vondir við þá eru þeir búnir að færa Geir öll sóknarfærin í hendur. Nú þarf Geir bara að bíða með Framsókn í gíslingu eftir að annar hvor félagshyggjuflokkurinn missi þolinmæðina og bjóði fram krafta sína til að halda Sjálfstæðisflokknum áfram í stjórn. Fyrr en seinna kemur að því nema eitthvað óvænt gerist.

Áhuginn fyrir áframhaldandi samstarfi við Framsókn er ekki mikill meðal Sjálfstæðismanna, en það hentar þeim að halda flokknum í spennitreyjunni þar til öðrum hvorum hinna verður kippt upp í. Einnig er auðvitað sá möguleiki í stöðunni að Frjálslyndum verði bætt við núverandi ríkisstjórn til að auka þingstyrk hennar. Tilgangurinn með slíku væri tvíþættur því þar sæi Geir möguleika á að fá týndu sauðina aftur heim í heiðadalinn.


Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstrigrænna

Ríkisstjórnin lafir á einum þingmanni með einungis 48,3% fylgi. Ef Framsókn ætlar að sitja eitt kjörtímabilið í viðbót við pilsfald Sjálfstæðisflokksins þurrkast flokkurinn endanlega út. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að blóðmjólka Framsóknarflokkinn og síðustu dagana fyrir kosningar var ljóst að þeir beindu allri gagnrýni á ríkisstjórnina til Framsóknar. Og í lokahrinunni sló Geir H. Haarde endanlega á þá von Framsóknar að Sjálfstæðismenn kæmu í veg fyrir hrun flokksins með því að segja að einungis með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn yrði flokkurinn sterkur, öðru vísi ekki.

Það er ljóst að bæði innan Samfylkingar og VG er andstaða mikil við að leiða Framsókn enn eina ferðina inn í ríkisstjórn þannig að hefðbundið vinstristjórnarmynstur á erfitt uppdráttar. Hins vegar hef ég heimildir fyrir því að áhugi sé á að mynda minnihlutastjórn Samfylkingar og VG sem Framsókn verji falli. Þetta er ekki óalgengt í nágrannalöndum okkar, t.d. í Svíþjóð þar sem Sossarnir sitja ætíð í skjóli þess að Vensterpartiet ver þá falli þótt sá flokkur eigi ekki aðild að ríkisstjórninni.

Þetta kynni að gagnast Framsóknarflokknum vel á meðan hann endurskipuleggur sig og nær vopnum sínum aftur. Að koma Sjálfstæðisflokknum frá þannig að velferðaráherslur og stöðugleiki í efnahagsmálum verði leiðarljós á komandi kjörtímabili, auk þess sem leitað yrði sátta við þjónina varðandi umhverfismál, gæti verið gott veganesti fyrir Framsókn til framtíðar. Þjóðin kynni að meta það og landið færi aftur að rísa.

Pendúllinn til vinstri

Nú er pendúllinn til vinstri. Það lá í loftinu. Það voru velferðarmálin, ófjöfnuðurinn og umhverfismálin sem skiptu meginmáli til þess að þjóðin lagðist á það að snúa pendúlinum í rétta átt.

Vona bara að vinstri flokkarnir þekki sitt kall. Það þarf að snúa af  stóriðju- og ójafnaðarbraut þeirrar ríkisstjórnar sem ríkt hefur undanfarin 12 ár.

Til hamingju Íslendingar.


Hafnarfjarðarkratismann í stjórnarráðið

Nú er þessari vorveislu stjórnmálanörda að ljúka. Á morgun heimsækjum við kjörklefana og kjósum yfir okkur þá ríkisstjórn sem þjóðin á skilið. Þannig er það nú bara. Þá verðum við laus við stjórnmálamennina sem daglega gesti í stofunni hjá okkur næstu fjögur árin. Ég efast um að nokkur gráti það.

Í kvöld fór fram lokaumræða forystumanna stjórnmálaflokkanna í Kastljósi. Í raun og veru voru það fyrst og fremst lokaorðin sem skiptu máli. Þar lagði Ingibjörg Sólrún höfuðárherslu á velferðarmálin. Ómar vitaskuld umhverfismálin. Jón Sig. ekkert stopp. Guðjón Arnar sjávarútveginn og velferðina. Geir H. velferð atvinnulífsins og Steingrímur J. umhverfismálin eins og Ómar.

Ég sem gamall sósíalisti. Nú miðaldra Hafnarfjarðarkrati kýs náttúrlega þann flokk sem leitar fyrst og síðast jöfnuðar í samfélaginu og vill leggja allt í sölunnar til að efla velferðarhlutverk ríkisvaldsins. Ég kýs líka þá manneskju til forystu sem ég treysti best til þess en það er Ingibjörg Sólrún.

Það kom mér verulega á óvart, þó ekki, þegar Steingrímur J. sór af sér að hann væri gamall sósíalisti í kosningaþætti Stöðvar 2 í vikunni. Í mínum huga hefur Steingrímur alltaf haft yfir sér áru framsóknarmannsins, einnig þegar hann var í Alþýðubandalaginu. Nú skilst mér hins vegar að hann sé fyrst og fremst feministi. Sá feministi sem ég treysti hins vegar best til að jafna kjör kynjanna er Ingibjörg Sólrún.

Varðandi sósíalistann þá sé ég enga ástæðu til að skammast mín fyrir að viðurkenna að ég hafi aðhyllst þá stefnu og ég geri það enn sem Hafnarfjarðarkrati. Sósíalisminn er stefna jöfnuðar. Það hvarflar ekki einu sinni að mér að hlaupa í vörn fyrir þessa stefnu vegna ríkja austan járntjalds á síðustu öld. Þeirra stefna átti ekkert skylt við sósíalisma. Velferðarstefna Norðurlanda á hins vegar uppruna sinn í þeirri stefnu. Þar af leiðandi er Hafnarfjarðarkratisminn afsprengi sósíalismans.

Við eygjum von til þess að fella ríkisstjórnina og efla hér velferðarkerfið sem  hefur verið vanrækt í tíð núverandi ríkisstjórnar. Í mínum huga er enginn vafi hvað ég kýs. Ég kýs X-S þannig að Hafnarfjarðarkratisminn hreiðri einnig um sig í stjórnarráðinu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband