Pólitískar umræður mér að skapi

Loksins pólitískar umræður mér að skapi og þá voru það þrír fyrrverandi stjórnmálamenn sem nú skipa heiðurssæti sinna lista, þau Margrét Frímannsdóttir, Halldór Blöndal og Hjörleifur Guttormsson í Silfri Egils. Fyrr í þættinum hafði unga fólkið í pólitíkinni sem er tekið við keflinu látið ljós sitt skína, Jakob Frímann, Guðfríður Lilja, Sigurður Kári og Árni Páll. Hvar voru framsóknarmennirnir. Steingrímur Hermannsson hefði sómt sér vel í heiðursætahópnum en reyndar dettur mér enginn annar hug en Bjarni Harðarson í ungliðagengið enda vanur maður við hringborð Silfursins.

 

Á báðum þessum málfundum voru umhverfismálin í brennidepli þótt komið hafi fram í skoðanakönnunum að almenningur setur velferðarmálin á oddinn þegar hann tekur afstöðu í kjörklefanum. Það var þó ólíkt skemmtilegra að hlýða á öldungana, Magga er nú reyndar nokkrum árum yngri en ég. Umræðan var öll mun yfirvegaðri enda mæðir ekki jafn mikið á fólkinu í heiðurssætunum og þeim sem eru að berjast fyrir pólitískri framtíð sinni. Stundum var eins og maður hyrfi áratugi aftur í tímann því umræðan var farin að snúast um Alþýðubandalagið og afstöðu þess til málefnanna eins og það væri enn í framboði.

 

Það er vissulega eftirsjá af þessu reynda fólki úr pólitíkinni. Sérstaklega sé ég þó eftir Margréti sem hefur verið einn skeleggasti stjórnmálamaður síðustu áratuga og átti hvað stærstan þátt í að stofna Samfylkinguna.

 Merkilegasta pólitíska framlagið í þættinum var hins vegar viðtalið við Guðmund Pál Ólafsson um nýútkomna bók um Þjórsárver þar sem flett er ofan af hálfrar aldar gömlum áformum um að gjörnýta vatnsorku Íslands. Þegar uppgötvaðist að í Þjórsárverum væri eitt stærsta heiðagæsavarp heims komu verkfræðingarnir með þá tillögu að finna gæsunum annað varpland eins og hér væri um hænur að ræða. Baráttunni um Þjórsárver er langt í frá lokið þannig að þessi bók Guðmundar Páls er þarft innlegg í umræðuna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Það setti að mér töluverða fýlu eftir setuna með "gömlu" pólitíkusunum. Einkum vegna þess að Hjörleifi finnst ekkert eðlilegra en það séu tveir vinstriflokkar og skilur einfaldlega ekki þann vanda sem okkur svíður flestum undan. þar að auki voru velferðarmálin í hans huga eins og hvert annað annarrar gráðu próblem. Útlendar fabrikkur aðal og eina málið.

Pétur Tyrfingsson, 7.5.2007 kl. 11:10

2 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Hjörleifur er bara eins og hann er. Þegar hann fór að tala um meinvörp setti nú að mér smá hroll. Ég var á móti stækkuninni í Straumsvík en að líta á vinnustaðinn sem meinvarp hvarflaði ekki að mér. Hins vegar setur mig hljóðan við síðustu fréttir um að Alcoa ætli að kaupa upp Alcan. Eins og þú hefur kannski orðið var við sá ég ekki byrjunina á Silfrinu né heldur endinn fyrr en seint í gærkveldi og hafði ég þá sent inn færsluna. Ástæðan var sú að lengst af í gær vantaði framan og aftaná Silfrið inni á Visi. Magga var hins vegar flott og þegar hún í lokin kvað upp úr með að vinstri flokkarnir þyrfti að skoða stöðuna vandlega að loknum kosningum með sameiningu í huga sá ég enn betur hversu mikið við höfum misst við að hún hverfur af þingi.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 7.5.2007 kl. 16:00

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er ótrúlegur fjöldi af ungu og langskólagengnu fólki á Íslandi. Samfélagsþroski þessa fólks er í mörgum þeim tilfellum sem ég þekki á svo lágu stigi að þegar maður hlustar á það í pólitískri umræðu þá "skríður á mann", eins og sagt var hér í gamla daga. Það er leitun að ungmenni sem hugsar um annað en það hvað hægt sé að kreista út úr þessu helv. skeri af peningum og það í hvelli. Þeir sem leyfa sér að andmæla eru kommar sem ætti helst að reka úr landi.

Mér sárnar að sjá daglega merki þess hve skelfilega menntun þjóðarinnar hefur hrakað með auknum skólalærdómi.

Árni Gunnarsson, 7.5.2007 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband