Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fórnarkostnaður stríðsins í Írak

Tala látinna óbreyttra íbúa Írak frá upphafi stríðsins í mars 2003 er á bilinu 62.770 til 68.792. Þetta er samkvæmt talningu sem finna má á heimasíðu sem kallast Iraq body count. Þar er einnig að finna tölu látinna á hverjum degi frá upphafi stríðsins til dagsins í dag (Sjá hér). Einnig er þar listi yfir nöfn þeirra sem kennsl hafa verið borin á (Sjá hér)

 

Alls hafa 3.355 bandarískir hermenn látist frá upphafi stríðsins til dagsins í dag og 272 frá öðrum þjóðum sem tóku þátt í stríðinu. Þessar upplýsingar er að finna á síðu sem nefnist Casualities in Iraq.

 Íslensk stjórnvöld eru meðal þeirra sem bera ábyrgð á þessu mannfalli.

Þjóðarsátt um Framsókn burt

Stjórnmálaspekingar hafa verið að leita skýringa á lakri útkomu Framsóknar í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins. Ein skýringin er sú að meirihluti Framsóknarmanna hafi verið á fundi Framsóknar á Klörubar á Kanaríeyjum en um 360 manns sóttu fundinn og hlýddu á Guðna Ágústsson varaformann flokksins.

  

Þetta er vissulega skemmtileg skýring en varla trúverðug. Ekki frekar en ásakanir Guðna í garð Fréttablaðsins þar sem hann hreinlega heldur því fram að blaðið leggi flokkinn í einelti og að skoðanakönnunin sé því ekki marktæk.

  Nei ég held að skýringin sé einfaldlega sú að þjóðarsátt er að myndast um það að koma Framsókn burt frá kjötkötlunum. Við Hafnfirðingar höfum verið lausir við Framsóknarmenn í bæjarstjórn undanfarin tvö kjörtímabil og hvílíkur léttir. Síðasti Framsóknarmaðurinn hvarf á braut eins og þjófur að nóttu með gamla skátaheimilið í togi.  

Framsóknarflokkurinn hefur verið til mikillar óþurftar í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur leitt stóriðjubrjálæðið yfir þjóðina og kemur nú fram á sjónarsviðið sem boðberi þjóðarsáttar um nýtingu auðlindanna. Liggur við að ráðherrar iðnaðar og umhverfismála beri því við að það hafi verið tæknileg mistök hjá þjóðinni að halda að Framsókn hafi átt einhvern þátt í virkjanafíkninni.

  

Tillögurnar felast í því skipaður verði vinnuhópur til að móta verndar- og nýtingaráætlun sem lögð verði fram á haustþingi 2010. Þangað til geta virkjanafíklarnir virkjað eins og þá lystir.

Nei eina þjóðarsáttin sem hefur skapast er að koma Framsókn burt, það sýna skoðanakannanir að undanförnu.


Allir að stofna stjórnmálaflokka

Stjórnmál virðast inni núna. Áhyggjur yfir áhugaleysi almennings á stjórnmálum hljóta að vera horfnar því þeir sem ekki eru þegar komnir í framboð fyrir núverandi stjórnmálaflokka virðast flestir vera að stofna eigin flokka.

  

Um daginn komu fram tvær fylkingar aldraðra og öryrkja og gáfu báðar í skyn að þær væru réttbornir fulltrúar þessara hópa. Lítið hefur heyrst úr þeim herbúðum síðan.

  

Jón Baldvin mætti í Silfur Egils um síðustu helgi og fór mikinn að vanda og hefur Ingibjörg Sólrún átt fullt í fangi með að bera meint framboð Jóns Baldvins til baka síðan. Eins og það hafi verið það sem hún þurfti helst á að halda núna.

  

Í Silfrinu áðan komu fram þrír einstaklingar, tveir frá Framtíðarlandinu, þau Pétur Óskarsson einn helsti talsmaður Sólar í Straumi og Ósk Vilhjálmsdóttir varaformaður Framtíðarlandsins. Á eftir þeim kom svo Haukur Nikulásson sem hefur verið að boða stofnun nýs stjórnmálaafls, Flokkinn, á bloggsíðu sinni.

  

Það var mjög athyglisvert að hlýða á þetta fólk. Af hverju finnur það sig ekki í þeim stjórnmálaflokkum sem þegar eru til staðar? Umhverfismálin skipta mjög miklu máli og er alveg ljóst að þau verða í forgrunni í komandi kosningum. Kosningin um stækkunina í Straumsvík er bara upptakturinn í því uppgjöri við virkjanafíknina og stóriðjustefnuna sem fram fer í alþingiskosningunum í vor.

  

Ómar Ragnarsson skilgreinir Sjálfstæðisflokkinn, Framsókn og Frjálslynda sem stóriðjuflokka. Það er líka rétt sem fram kemur hjá Ómari að Samfylkingin er klofin. Annars vegar er það stefnuskráin „Fagra Ísland“ og sá hópur sem vann hana auk stærsta hluta fylgismanna flokksins, en hins vegar er það lítill hópur hagsmunaaðila í héraði og á það við um Fjarðarbyggð, Hafnarfjörð, Húsavík og fleiri sveitarfélög sem eru með glýju í augunum. Að lokum eru það Vinstri grænir sem hafa staðið umhverfisvaktina með miklum sóma en það er ljóst að íhaldsmenn eins og áðurnefndir Pétur Óskarsson og Haukur Nikulásson munu seint geta kostið VG.

Og hvað er þá til ráða? Vinstri hægri segir þetta fólk. En klukkan tifar. Það er svo spurning hverjum hún glymur?


Pólitískur flóttamaður

Þegar dregið hefur að kosningum á Íslandi undanfarna áratugi fer ætíð einn maður í pólitíska útlegð. Sennilega ekki af sjálfdáðum heldur er hann sendur burt af pólitískum samherjum sínum í Sjálfstæðisflokknum. Þetta er vitaskuld Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Samherjar hans vita að í hvert skipti sem hann tjáir sig um þjóðfélagsmál tekur flokkurinn dífu niður á við í könnunum. Menn hafa því metið það réttilega svo að best sé að hafa Hannes Hólmstein í felum þegar kosningabaráttan fer í gang.

Nú bregður hins vegar svo við að stjórnmálafræðingurinn er óvanlega mikið í sviðsljósinu. Hann hefur verið að skilgreina fátækt á Íslandi. Niðurstaða Hannesar er á skjön við allar rannsóknir. Hann viðurkennir vissulega að fátækt sé fyrir hendi en fullyrðir að fátækir í dag hafi það miklu betra en fátækir í gær og að fátækir Íslendingar séu ríkustu fátæklingar í heimi. Árni Guðmundsson kallar þetta „brauðmolahagfræði“ á blogg síðu sinni.

 

Í hádegisfréttum útvarpsins áðan kom fram að tíu prósent þjóðarinnar lifi undir lágtekjumörkum og fram hefur komið að 4000 börn búa við fátækt. Slíkt er með öllu óviðunandi í einu ríkasta landi heimsins. Ekki eitt einasta barn á Íslandi á að þurfa að búa við fátækt.

Hannes Hólmsteinn mætti Karli Th. Birgissyni í Kastljósinu í gær og maður fann hvernig atkvæði Sjálfstæðisflokksins hurfu eitt af öðru. Í lok umræðunnar sagði Karl Th. það mikinn heiður að fá að mæta Hannesi því að öllum líkindum væri hann á leið til útlanda fram yfir kosningar. Hannes glotti þá og sagði „við sjáum til“. Kannski hefur Geir H. Haarde ekki sömu tök á Hannesi og Davíð hafði? Mun þá vinstrið kætast.

Alcanskt fréttamat Fjarðarpóstsins

Skoðanakönnun Alcan um afstöðu Hafnfirðinga til stækkunar álversins í Straumsvík vakti verulega athygli. Þar kom í ljós að um 55% aðspurðra voru andvígir stækkun en 45% hlynntir ef einungis var tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu.

  

Fjarðarpósturinn fjallaði um þessa skoðanakönnun í gær. Fréttamat hans vekur verulega athygli. Þar er því slegið upp að 58% séu ánægð með störf Alcan og í undirfyrirsögn segir að 60% telji Alcan standa sig vel í umhverfismálum.

  

Þarna er svo sem engu logið. Í skoðanakönnuninni voru 22 spurningar um afstöðu bæjarbúa til fyrirtækisins. En mér er hulið hvernig hægt er að komast að því að þetta sé fréttnæmasta niðurstaða könnunarinnar.

  

Kannski liggur skýringin í því að í miðopnu blaðsins er auglýsing frá Alcan og Samtökum atvinnulífsins um svokallað stefnumót atvinnulífsins í Hafnarborg undir yfirskriftinni „Hagsæld í Hafnarfirði“.

  

Ritstjóri Fjarðarpóstsins veit sem er að þegar nær dregur kosningunni um stækkunina munu allar hirslur Alcan opnast til að koma málstað fyrirtækisins á framfæri.

Flokkur í afneitun

Þrátt fyrir að Samfylkingin virðist vera í frjálsu falli samkvæmt skoðanakönnunum að undanförnu og þrátt fyrir dómsdagspredikun guðföðurs flokksins í Silfri Egils og þrátt fyrir að Stefán Jón Hafstein hafi tekið undir gagnrýni Jóns Baldvins í Kastljósi í gær virðist þingflokkurinn vera í algjörri afneitun á að ástandið sé slæmt og það sé þingmönnunum sjálfum að kenna. Þeir eru jú dæmdir af verkum sínum. 

Ingibjörg Sólrún segir að almenningur skilji ekki málflutning Samfylkingarinnar vegna þess að flokkurinn sé að ræða pólitík. Ágúst Ólafur varaformaður Samfylkingarinnar mætti í hádegisviðtal Stöðvar 2 í gær og fór eins og köttur í kringum heitan graut þegar gagnrýni Jóns Baldvins kom til tals. Það lá við að hann segði að gagnrýni Jóns Baldvins hefði verið hrós um störf og stefnu Samfylkingarinnar.

Mörður er á svipuðum slóðum á heimasíðu sinni: Jón Baldvin var hressandi í Silfri Egils í gær – svona á að tala! Auðvitað má segja ýmislegt um mælskutæknileg brögð í upphafi viðtals og við lok þess, en meginerindið komst vel til skila: Hér þarf jafnaðarstjórn og Samfylkingin verður barasta að gjöra svo vel að svara þeirri eftirspurn.“

Og Össur þegir þunnu hljóði á sinni heimasíðu. Fjallar þar um nýlega skoðanakönnun (ekki þær nýjustu) sem sýndi vaxandi fylgi við að stjórnarandstöðuflokkarnir myndi næstu ríkisstjórn. Miklu færri vildu hins vegar ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka - en áður.“

Til að hægt sé að takast á við vandann þarf fyrst að horfast í augu við hann. Þingflokkur Samfylkingarinnar virðist ekki gera það þrátt fyrir að viðvörunarbjöllur hljómi úr  öllum áttum.

Forsætisráðherra Framtíðarlandsins

Það var athyglisvert að fylgjast með þjóðmálaumræðunni um helgina. Atburðarásin hjá Frjálslyndaflokknum var með eindæmum og nokkuð ljóst að Margréti Sverrisdóttur og hennar fylgisfólki er tæpast vært þar lengur. Síðan stígur fram Jón Baldvin Hannibalsson eins og ferskur andblær í Silfri Egils og úthúðar Samfylkingunni jafnframt því að búa til nýtt framboð Framtíðarlandsins ásamt fólki sem hann treysti til góðra verka. Þar voru nefnd til sögunnar Ómar Ragnarsson, Margrét Sverrisdóttir, Stefán Ólafsson, Guðmundur Ólafsson og Andri Snær. Vantað bara að hann lýsti því yfir að hann ætlaði sér að vera forsætisráðherraefni hópsins. Varð hins vegar mjög óræður í svörum þegar hann var inntur eftir því hvort hann væri á leið í framboð. 

Það skyldi þó aldrei vera að Jón Baldvin væri á hraðferð inn í pólitíkina aftur. Miðað við fyrirlestur hans í Silfrinu í gær er ljóst að hann hefur engu gleymt í pólitískri rökræðu og að hann iðar í skinninu að fá að taka þátt í henni.


Er bannað að gefa vinum sínum 2000 krónur?

spurði Guðjón Arnar Kristjánsson ný endurkjörinn formaður Frjálslynda flokksins í fréttum áðan þegar hann var spurður hvað honum fyndist um það að ákveðnir aðilar hefðu greitt einstaklingum fyrir að kjósa rétt í varaformannskjörinu á landsþingi flokksins. 

Á ég að trúa því að sjóaður formaður í íslenskum stjórnmálaflokki sé með svona málflutning? Já því miður virðist lýðræðishugsjónin hjá þeim armi Frjálslynda flokksins sem studdi innkomu Nýs afls í flokkinn og Magnús Þór Hafsteinsson áfram sem varaformann flokksins gegn Margréti Sverrisdóttur vera á þessu plani. Einnig vekur það athygli að einn liðsmanna Nýs afls studdi flokkinn um 200.000 kr. skömmu fyrir landsþingið. Einhvern veginn þurfti að launa það. 

Uppgjör Margrétar Frímannsdóttur við flokkseigendafélag gamla Alþýðubandalagsins vakti verulega athygli nú á haustdögum þegar bók hennar Stelpan frá Stokkseyri kom út. Sú saga sem þar er rakin virðist vera að endurtaka sig hjá nöfnu hennar Sverrisdóttur. Sá er þó munur þar á að Margrét Sverrisdóttir er úr þeim armi Frjálslynda flokksins sem kenna má við flokkseigendur. Það var jú Sverrir Hermannsson faðir hennar sem stofnaði flokkinn og samkvæmt fréttum á hann nafnið á flokknum.

Hvað býr eiginlega að baki þessari aðför að Margréti Sverrisdóttur? Óbeint er það hin nýja afstaða þeirra sem nú ráða för í flokknum í málefnum innflytjenda, sem óneitanlega ber keim af rasískum málflutningi, samanber setningarræðu formannsins. En hvað býr þar að baki? Ég held ekki að það sé pólitísk sannfæring heldur einfaldlega eftirsókn þessara manna í þingsæti, góð laun, þægilega vinnu., skemmtilegt vinnuumhverfi og að ekki sé talað um betri lífeyri en gengur og gerist hjá öðrum þjóðfélagsþegnum.                                                                                     

Jón Magnússon hefur gengið með þingmanninn í maganum frá því á síðustu öld en varð ekkert ágengt innan Sjálfstæðisflokksins. En nú var lag. Mikil fjölgun erlends vinnuafls, sem eins og Jón Baldvin Hannibalsson benti réttilega á í Silfri Egils fyrr í dag, bjargaði íslensku efnahagslífi frá algjöru skipsbroti, kallar á kenndir hjá ákveðnum hóp landsmanna sem flestum meðborgurum blöskra. Á þessar kenndir skyldi spilað svo sitjandi þingmenn og nýliðinn Jón Magnússon og einhverjir með honum komist á þing.  

Margrét Sverrisdóttir á ekkert erindi með þessum mönnum. Það er hennar að ákveða næstu skref. Ég held hins vegar að það sé morgunljóst að þau skref hljóta að leiða hana burt frá íslensku rauðhnökkunum.


Hvar ertu?

-          Geir hef ég iðrast nóg?

-          Þú verður að spyrja Guð að því Árni minn.

-          Guð hef ég iðrast nóg?

-          Þú verður að eiga það við samvisku þína Árni minn.

-          Samviska, samviska. Samviska! Hvar ertu?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband