Munaðarleysingjahælið

Talsverð viðbrögð urðu við skrifum mínum um að ég væri að verða pólitískur munaðarleysingi. Jafnvel eru komnar umsóknir um pláss á munaðarleysingjahælinu. En við skulum ekki rasa um ráð fram. Enn er ekki búið að mynda ríkisstjórnina, hvort sem hún verður nefnd Baugsstjórnin, Þingvallastjórnin, RiseSSan eða bleikjan eins og Bubbi stakk upp á í silfrinu. Verði hún hins vegar mynduð eins og flest bendir til, þrátt fyrir andstöðu í báðum flokkunum, er sjálfsagt að kynna sér málefnagrundvöll og hvernig ráðuneytum verður skipt á milli flokkanna. Minna máli skiptir hvaða einstaklingar skipa ráðherrastólana þótt stólaleikurinn sé aðal samkvæmisleikur bloggara landsins núna.

Við vitum að forsætisráðuneytið fer til Geirs. Síðan fær Solla að velja á milli utanríkis- og fjármálaráðuneytis. Velji hún utanríkisráðuneytið komast Evrópumálin á dagskrá á kjörtímabilinu og sömu sögu er að segja um fjármálaráðuneytið vegna evru-umræðu sem á eftir að verða háværari með hverju misserinu.

Ef við göngum út frá því að ráðuneytin verði 12 og jöfn skipti þá tel ég einboðið að Samfylkingin eigi að leggja höfuð áherslu á heilbrigðisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Þá á flokkurinn kröfu á enn eitt ráðuneytið og er mér nokk sama hvað það verður.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þessi fjögur ráðuneyti en ekki einhver önnur er sú að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum fyrir heilbrigðis- og félagsmálum og flokkurinn hefur sýnt að hann er einn helsti málssvari stóriðjustefnunnar. Þá samþykkti landsfundur flokksins að stefna ætti að einkavæðingu Landsvirkjuna og frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Að hleypa Sjálfstæðisflokknum í heilbrigðisráðuneytið væri eins og að sleppa ref lausum í hænsnakofa.

Afstaða mín til Sjálfstæðisflokksins mótast ekki af því að ég telji að þarna fari hópur illa innrættra einstaklinga. Þvert á móti er þetta upp til hópa úrvalsfólk. Það er hins vegar stefnan sem þeir aðhyllast og stærð þeirra í pólitískri sögu þjóðarinnar sem mér óar við. Þeir hafa ráðið för með örfáum undantekningu allt frá lýðveldisstofnuninni. Nú stefnir allt í að þeir muni ráða för í tvo áratugi óslitið með stuðningi Samfylkingarinnar.

Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa. Ójöfnuðurinn hefur aukist í samfélaginu. Skattkerfið er orðið óréttlátara. Velferðarkerfið hefur orðið að láta undan síga. Fátæktargildran hefur læst kjaftinum um æ fleiri einstaklinga. Upplýsingar um að 5000 börn lifi undir fátæktarmörkum á sama tíma og auðmennirnir henda hundruðum milljóna í afmælisveislur eða árshátíðir yfirmanna fyrirtækja sinna (ég varð ekki var við að Bónus lokaði þegar árshátíð starfsfólksins var haldin í Mónakó). Þetta er afleiðing stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Við höfum fjarlægst Norræna velferðamódelið og nálgast sérgæskusamfélag að amrískri fyrirmynd.

Samfylkingin var ekki stofnuð til að treysta þessa þróun í sessi. Hún var stofnuð til að bjóða upp á annan valkost og því hugnast mér lítt sá sambræðingur sem nú á sér stað á Þingvöllum. En staðan er þessi í dag og nú er að sjá hvort Fagra Ísland og unga Ísland verði leiðarljós þessarar ríkisstjórnar eða hvort einkavæðing heilbrigðiskerfisins að Bandarískri fyrirmynd og Landsvirkjunar verði verði bautasteinar þessarar ríkisstjórnar ef af verður.

Að lokum eitt: Ég sakna Marðar af þingi. Kannski hann verði forstöðumaður Munaðarleysingjahælisins. Veit ekki hvort auglýsa þarf stöðuna opinberlega. Kannski bara í Lögbirtingablaðinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband