Þjóðarsátt um Framsókn burt

Stjórnmálaspekingar hafa verið að leita skýringa á lakri útkomu Framsóknar í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins. Ein skýringin er sú að meirihluti Framsóknarmanna hafi verið á fundi Framsóknar á Klörubar á Kanaríeyjum en um 360 manns sóttu fundinn og hlýddu á Guðna Ágústsson varaformann flokksins.

  

Þetta er vissulega skemmtileg skýring en varla trúverðug. Ekki frekar en ásakanir Guðna í garð Fréttablaðsins þar sem hann hreinlega heldur því fram að blaðið leggi flokkinn í einelti og að skoðanakönnunin sé því ekki marktæk.

  Nei ég held að skýringin sé einfaldlega sú að þjóðarsátt er að myndast um það að koma Framsókn burt frá kjötkötlunum. Við Hafnfirðingar höfum verið lausir við Framsóknarmenn í bæjarstjórn undanfarin tvö kjörtímabil og hvílíkur léttir. Síðasti Framsóknarmaðurinn hvarf á braut eins og þjófur að nóttu með gamla skátaheimilið í togi.  

Framsóknarflokkurinn hefur verið til mikillar óþurftar í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur leitt stóriðjubrjálæðið yfir þjóðina og kemur nú fram á sjónarsviðið sem boðberi þjóðarsáttar um nýtingu auðlindanna. Liggur við að ráðherrar iðnaðar og umhverfismála beri því við að það hafi verið tæknileg mistök hjá þjóðinni að halda að Framsókn hafi átt einhvern þátt í virkjanafíkninni.

  

Tillögurnar felast í því skipaður verði vinnuhópur til að móta verndar- og nýtingaráætlun sem lögð verði fram á haustþingi 2010. Þangað til geta virkjanafíklarnir virkjað eins og þá lystir.

Nei eina þjóðarsáttin sem hefur skapast er að koma Framsókn burt, það sýna skoðanakannanir að undanförnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skoðanakönnin í Fréttablaðinu er það sem maður kallar óskhyggja.  Framsókn er ekkert á förum og þó svo að Framsókn líði undir lok að þá kemur  ekkert betra í staðinn.  Varð heimurinn eitthvað betri eftir að Sovétríkin liðu undir lok eða þegar Saddam Hussain var hrakinn frá völdum?

Skoðanir eins og þessar sem þú ert með eru hluti af skipulagri eineltisstefnu á hendur Framsókn.  Þetta er taktík sem miðar að því að fá vinstristjórn eftir næstu kosningar og með því að ráðast á minni stjórnaflokkinn og særa hann til ólífis, vonast Samfylkingin til að komast í stjórn.  Samfylkingin þorir ekki að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn, því að þrautarlendingin fyrir Samfylkinguna er að fara í stjórn með þeim.  Samfylkingin hefur bara eina stefnu og það er að komast í ríkisstjórn.  Frekar þunnur þrettándi það.   Samfylkingin er and-landsbyggðarflokkur, enda eru flestir málsmetandi forystumenn hennar eru af Höfuðborgarsvæðinu.

Síðasta stjórn sem Kratar áttu aðild að með Sjálfstæðismönnum árin 1991-1995 var ekkert farsæl, síður en svo.  Á þessu tímabili var mikið atvinnuleysi, niðurskurður í heilbrigðis- og menntamálum og mikill flótti fólks til útlanda.  Það var ekki fyrr en eftir 1995 þegar Framsókn komst í stjórn að Ísland fór að blómstra og þetta blómaskeið hefur staðið síðan

Vertu bara ekki með neina Þórðargleði yfir slakri útkomu Framsóknar.  Framsókn á 9 líf og kemur alltaf á óvart.  Það er lítilmannlegt að sparka í einhvern þegar viðkomand liggur á jörðinni, svona eins og vinstrifólk er að gera við Framsókn með skipulagðri eineltisstefnu.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 10:58

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Of snemmt að vera með einhverja Þorragleði um að Framsókn hverfi. Þvert á móti
held ég að hún eigi öll eftir að braggast og að núverandi  ríkisstjórn geti haldið
áfram sínu farsæla starfi fyrir land og þjóð.  Alla vega hrýs manni hugur við að
vinstriöflin nái fótfestu, Vinstri-grænir með sína sósíalisku hugmyndarfræði og
Samfylkingin með Evrópustefnuna sem gengur út á það að stórskerða fullveldi og sjálfstæði Íslendinga.  

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 14.2.2007 kl. 15:42

3 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Ég verð bara að taka vel undir athugasemd nr. 1 hér að ofan. Ég ætla ekki að reyna að orða þetta betur sjálfur. Vel skrifað Örn.

Ragnar Bjarnason, 14.2.2007 kl. 15:46

4 identicon

Sameinumst um þjóðarsátt um að Framsóknarflokkurinn hverfi af hinu pólitíska sviði.

Siggi (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 17:55

5 identicon

Góð þjóðarsátt, vona bara að hún haldi lengur en sáttin sem við Hafnfirðingar höfðum um uppbyggingu álversins í Straumsvík (fyrir utan einstaka allaballa sem voru yfirleitt næstum því jafnfáir og framsóknarmenn) Æ hvað það voru nú góðir tímar engir framsóknarmenn, fáir allaballar og kratar sem studdu við atvinnuuppbyggingu án fordóma

Sigþór Ari (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 21:43

6 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Minni á að Sjálfstæðisflokkur hefur verið stærri flokkurinn í þessu stjórnarsamstarfi og getur ekki hvíþvegið sig af stefnu stjórnarinnar þó vissulega sé hann að reyna það um þessar mundir.  Ótrúlegt hvað þeim tekst að draga sig í hlé og láta Framsókn fá allan skítinn yfir sig.  Skil ekki alveg í Framsóknarmönnum að láta þetta ganga yfir sig....

Sigfús Þ. Sigmundsson, 16.2.2007 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband