Af hverju flugmiðann frekar en budduna?

Þá liggur stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar fyrir og er þar margt jákvætt að finna. Má þar nefna velferðarhluta yfirlýsingarinnar en velferðarmálin lenda hjá Samfylkingunni. Það er málaflokkur sem kostar sitt og því mér óskiljanlegt hversvegna Ingibjörg Sólrún valdi ekki frekar budduna en flugmiðann. Í fjármálaráðuneytinu hefðu áhrif hennar á landsstjórnina orðið mun meiri en í utanríkisráðuneytinu.

Steingrímur J. reynir að gera lítið úr umhverfisþætti yfirlýsingarinnar og hamrar á því að þetta verði stóriðjustjórn. Lítum aðeins á það. Í yfirlýsingunni segir m.a.:

„Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og menntastofnanir eru í einstakri stöðu til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda. Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin hyggst efla skógrækt og landgræðslu meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni í andrúmsloftinu. Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum. Til að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægt að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar. Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar. Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir. Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hefur farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.“

Þetta hljómar eins og fögur hljómkviða í mínum eyrum. Þarna er í lokin kveðið á um að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir allt votlendið og þar með er Norðlingaölduveita í eitt skipti fyrir öll út af teikniborðinu. Þá er þarna tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni sem hefur verið einn af kostum Landsvirkjunar, þ.e. að veita Skaftá yfir í vatnið og þar með eyðileggja þessa náttúruperlu. Hvernig hægt er að túlka þenna texta sem uppáskrift um áframhaldandi stóriðjustefnu er mér hulin ráðgáta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það virðist vera útbreiddur miskilningur að Norðlingaölduveita nái inn í Þjórsárver eins og verin eru skilgreind af okkur heimamönnum eða af Hnífá en þar eru nokkuð glögg skil landfræðilega milli Þjórsárvera og Fjórðungssand en Norðlingaalda er á Fjórðungssandi.

Ari Einarsson (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 07:57

2 identicon

Sæll vertu félagi.

Það kemur nú á daginn að leiðtogar flokkanna eru alls ekki einhuga um túlkun sáttmálans þegar kemur að norðingaölduveitu?

Tek hins vega undir þér með ráðuneytið. Spurningarnar sem vakna eru:

1. Vildu Ingibjörg ekki annað - nei hún sagðist ekki hafa sótt eftir því en spilað út úr því sem væri í stöðunni.
2. Sóttist hún þá eftir öðru en fékk ekki? Forsætisráðuneyti? Fjármálaráðuneyti? - örugglega forsætiráðuneyti, sem sennilega var ekki raunhæft, en fjármálaráðuneytið? Vildi samstarfsflokkurinn það ekki? Er Dje-listinn en á því að halda sér inni í fjármálaráðuneytinu hvað sem það kostar? Treysta þeir ekki samstarsflokknum fyrir því?

Bestu baráttukveðjur og gangi þér vel með aðhaldið - innan frá.

Gestur Svavarsson

Gestur Svavarsson (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband